Kári í freyðibaði

Kári í freyðibaði

Ég á örugglega eftir að segja söguna af Kára í freyðibaði aftur, svo skemmtileg er hún. Hún segir okkur líka svo margt um samfélag feðga á köldum vetrarmorgnum. Hún minnir á tíma sem eitt sinn voru og skapar kærar minningar og hugamyndir.

Feðgar eru á leið í leikskólann á dimmum vetrarmorgni. Haustið hefur verið úrkomusamt og til þess að glæða gönguna svolitlu lífi verður okkur tíðrætt um hann Kára, sem stundum blæs hressilega á okkur. Þá sjaldan það er logn segjum við að karlinn sé ekki enn vaknaður því vart bærist hár á höfði. Í roki og rigningu höfum við það gjarnan á orði að nú sé Kári karlinn kominn í morgunsturtuna. Einn morguninn þakti fyrsti snjór vetrarins jörðu og sleðinn var dreginn fram úr bílskúrnum. Fönnin fauk í andlit ferðalanga sem voru á sinni daglegu leið. Þá spurði ég þann stutta – þriggja og hálfs árs nemanda á Heiðarseli, hvað Kári væri nú eiginlega að gera núna. Hann væri varla í sturtu, eða hvað? Ekki stóð á svarinu: Nú er hann Kári í freyðibaði!

Þessar sögur!

Gleðileg jól kæru kirkjugestir og vonandi fyrirgefið þið að ég skuli deila þessari sögu með ykkur á hátíðlegri stundu. Já saga er þetta – stöku andartök framkalla perlur eins og þessar, litlar örsögur sem síðan lifa með okkur og segja okkur harla margt um okkur sjálf og heiminn sem við búum í. Hver veit nema að hún verði rifjuð upp í framtíðinni? Því sögur eru ekki bara lífseigar, sögur hafa ýmis einkenni lífvera sem laga sig að umhverfi sínu og þróast með tímanum. Þær geta vaxið og stundum jafnvel renna tvær sögur saman í eina. Vafalaust á saga þessi, eins og aðrar sögur, eftir að fá svolítinn keim af kryddi og ný hráefni bætast við.

Tilgangur sögunnar er ekki alltaf að greina frá í smáatriðum hvernig allt var og öllu var háttað. Hann getur verið annar. Freyðibaðssagan verður til dæmis ein perlan í festi frásagna af uppátækjasömum dreng með auðugt hugmyndaflug. Sögur hafa þó miklu fleiri víddir og tilgangur þeirra er mikill og merkilegur.

Saga jólanna

Jólaguðspjallið var lesið við aftansöng í þessum tímalausa helgidómi. „En það bar til um þessar mundir...“ svo hefjast þau orð í látleysi sínu og við lesum svo sögu andstæðna – af stórkörlum og smáfólki, erli og kyrrð og svo er það atburðurinn sjálfur, fæðingin þegar hin fegursta rósin var fundin á milli þyrnanna hörðu.

Kvikna ekki myndir í hugskoti? Eigum við ekki hvert fyrir sig sína útgáfu af þessari sögu, með litum, persónum, umgjörð? Sjáum við fyrir okkur hægláta göngu lítilla einstaklinga sem hlýða kalli yfirvalda? Þau hefðu horfið inn í ógnarstóran hóp nafnleysingja sögunnar ef ekki væri fyrir hina helgu jólafrásögn. Kannske birtast þau okkur sem lítil börn í litríkum klæðum. Hugsanlega ónáðar það okkur að þessi fallega frásögn skuli verða tilefni undarlegra deilna í aðdraganda helgra jóla.

Ég heyrði reyndar sögu af því þegar tveir litlir drengir á leikskóla hér í bæ neituðu staðfastlega að leika í árlegum jólahelgileik þar sem þeir áttu að vera í hlutverki sjálfra vitringanna. Ákvörðun þeirra var þó í engum tengslum við allt það tíðarandaþras um þessi mál sem borist hefur úr öllum áttum. Drengirnir voru einfaldlega ófáanlegir að fara í kjól, svo einfalt var það nú. Og undu sér vel á áhorfendabekkjum meðan vinirinir léku hlutverk sín af innlifun. Skemmtileg sú saga!

Ferðalag mannsins

Já, og þar léku þeir hlutverkin sem fram koma í þessu guðspjalli Lúkasar að viðbættum auðvitað vitringunum sem Mattheus segir frá í sinni útgáfu af jólasögunni fyrstu.

Jólaguðspjallið kallar fram myndir í hugann og staðsetur okkur, ekki á ferðalagi einnar mannsævi frá einum stað til annars, heldur á ferðalagi mannsins í gegnum heim og heima. Á jólum erum við samferðafólk Maríu og Jósefs, engla, hirða og auðvitað skartklæddra vitringa sem samfagna þessu kraftaverki kærleikans sem fæðing Krists er.

Sjálf hefur hún orðið skáldum uppspretta líkinga og myndmáls. Helgi Hálfdanarson þýðir sálm Brorsons og líkir fæðingu frelsarans við rós sem fannst meðal þyrnanna hörðu, á hinni fagnaðarsælu stundu jólanna.

(Sungið: Hin fegursta rósin er fundin... (1, 4 og 5 er.))

Saga er sögð

Saga er sögð. Hversu margir eiga sögur sem eins og lifna á vörunum þegar rétta tækifærið gefst? Hvaða sögur eiga eftir að heyrast í jólaboðunum ykkar kæru kirkjugestir? Sögur af börnum, tilsvörum þeirra og uppátækjum, sögur frá gömlum tímum, frá fjarlægum slóðum, frá ferðalögum ársins, vandræðagangi og sigurstundum, sögur af ólíkindum og furðum – sannar sögur en samt oftast kryddaðar eins og hæfir í góðum veislum með góðum vinum. Þessar sögur eru hluti af því lími sem tengir okkur hvert við annað og staðsetur okkur mitt í straumarðri á tímans þar sem við eigum stundum erfitt með að fóta okkur.

Ég á örugglega eftir að segja söguna af Kára í freyðibaði aftur, svo skemmtileg er hún. Hún segir okkur líka svo margt um samfélag feðga á köldum vetrarmorgnum. Hún minnir á tíma sem eitt sinn voru og skapar kærar minningar og hugamyndir. Sagan tengir okkur við liðna tíð og sagan tengir okkur hvert við annað. Jólaguðspjallið þessi er eins og aðrar sögur kraftmikill segull sem færir okkur nær hvert öðru og setur okkur í samhengi við liðna tíma. Það birtir okkur inntak fagnaðarerindisins um sigur ljóssins á myrkrinu og kærleika Guðs til okkar mannanna.

Gleðilega hátíð.