Af hverju konu í Skálholt?

Af hverju konu í Skálholt?

Á meðan kona gegnir ekki einu af þremur biskupsembættum kirkju okkar er jafnréttisáætlunin beinlínis árétting á því að ekki seinna en núna sé tími til kominn að kona verði kjörin til að gegna starfi vígslubiskups í Skálholti.

IMG_3144

Enn einu sinni ógnar hugmyndin um vígslu kvenna einingu Ensku biskupakirkjunnar. Deilan um prestsvígslu kvenna tók langan tíma og ákvörðunin um að vígja konur til prestsþjónustu kostaði miklar og harðar deilur en hún var tekin árið 1992. Núna er deilt um fyrirhugaða biskupsvígslu kvenna innan anglikönsku kirkjunnar og þegar hafa þrír biskupar yfirgefið kirkjuna sína og gengið til liðs við rómversk–kaþólsku kirkjuna, þar sem þeir hafa tekið prestsvígslu.

Ennþá hefur kona ekki verið vígð til biskups í hinni evangelísk–lúthersku kirkju á Íslandi. Hér hefur ekki verið deilt um guðfræðilegar ástæður fyrir því að konur geti gegnt biskupsþjónustu. Í öllu falli ekki opinberlega. Í kosningum til biskups Íslands árið 1997 og vígslubiskups á Hólum árið 2003 heyrðust aftur á móti raddir sem sögðu að íslenska kirkjan væri ekki tilbúin til þess að velja konu í embætti biskups. Einnig voru einhverjir sem bentu á að kyn ætti ekki að ráða því hver yrði valinn, aðeins ætti að velja hæfasta einstaklinginn.

Framundan eru kosningar til vígslubiskups í Skálholti. Tvær konur hafa gefið kost á sér í embættið. Báðar eru þær með margvíslega reynslu í farteskinu og mjög vel hæfar til að gegna því. Að mati margra skiptir það miklu máli að kona verði valin í þetta skiptið. Fyrir því má færa margar ástæður. Ein er sú að fyrir rúmum áratug (haustið 1998 ) samþykkti kirkjuþing jafnréttisáætlun sem kirkjunni ber að starfa eftir.

Ef íslenska þjóðkirkjan ætlar að sýna vilja til að starfa í anda jafnréttisáætlunarinnar í verki þá er mikilvægt að a.m.k. ein kona verði í hópi þeirra þriggja sem gegna biskupsembætti innan okkar kirkju. Kona í biskupsembætti gefur þau skilaboð að kirkjan meti hæfileika og reynslu kvenna til jafns við karla. Slík skilaboð eru mikilvæg, ekki síst til dætra okkar sem horfa til kirkjunnar í leit að fyrirmyndum og leiðsögn.

En það er líka mikilvægt fyrir þær konur sem starfa í þágu kirkjunnar að fá þau skilaboð að kirkjan meti framlag þeirra til jafns við framlag karla. Skilaboðin eru síðast en ekki síst mikilvæg fyrir fólkið í söfnuðunum, sem í skírninni hefur verið vígt til hins almenna prestsdóms. Samkvæmt hugmyndinni um hinn almenna prestsdóm erum við „öll eitt í Kristi Jesú“ (Gal 3.28) og því er ekki rétt að greina okkur að eftir kyni, kynþætti eða einhverju öðru.

Kirkjuþing samþykkti endurskoðaða jafnréttisáætlun haustið 2009. Þar segir m.a.:

„Markmið jafnréttisstefnunnar er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla í þjóðkirkjunni og jöfnum möguleikum kynjanna til starfa, áhrifa og þjónustu.“

Ef íslenska þjóðkirkjan ætlar að starfa í anda þessarar jafnréttisáætlunar þarf ekki að spyrja hvort að hún sé tilbúin til að kjósa konu í embætti biskups. Jafnréttisáætlun kirkjunnar er einmitt yfirlýsing um að hún sé það. Þá má einnig segja að jafnréttisáætlunin svari spurningunni af hverju skipti máli hvort við kjósum konu eða karl í embættið. Á meðan kona gegnir ekki einu af þremur biskupsembættum kirkju okkar er jafnréttisáætlunin beinlínis árétting á því að ekki seinna en núna sé tími til kominn að kona verði kjörin til að gegna starfi vígslubiskups í Skálholti.

Það er sárt til þess að vita að einstaklingar í Ensku biskupakirkjunni telji sig knúna til að yfirgefa kirkju sína vegna þess að hugsanlega verði kona þar einhvern tímann biskup. Boðskapur kirkjunnar um Guð sem fer ekki í manngreinarálit byggir á jafnréttisboðskap Krists.

Jafnrétti kynjanna er af þeim sökum ekki aðeins brýnt hagsmunamál heldur öðru fremur spurning um trúverðugleika og trúfesti við fagnaðarerindi Krists. — Það er einmitt þess vegna sem við eigum að kjósa konu í Skálholt!