Ó, eru það 62%?

Ó, eru það 62%?

Nýlega báru fjölmiðlar okkur þau tíðindi að hvergi í Evrópu væri dýrara að kaupa sér í matinn eða lifa lífinu en á Íslandi. Margir supu hveljur þegar þeir lásu tölurnar. Ísland er 62% yfir meðaltali í verði á matvælum og líka á toppnum í útgjöldum heimilanna eða 46% yfir meðaltali.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
11. janúar 2007

Nýlega báru fjölmiðlar okkur þau tíðindi að hvergi í Evrópu væri dýrara að kaupa sér í matinn eða lifa lífinu en á Íslandi. Margir supu hveljur þegar þeir lásu tölurnar. Ísland er 62% yfir meðaltali í verði á matvælum og líka á toppnum í útgjöldum heimilanna eða 46% yfir meðaltali.

Einhvern veginn hafði samt marga grunað þetta, því Íslendingar eru duglegir í ferðalögum. Þeim var ekki með öllu ókunnugt um að það kæmi minna við pyngjuna að kaupa sér samloku í Brugsen í Danmörku en í Bónus heima á Fróni.

Mörgum kom samt á óvart hvað munurinn var mikill.

Tvennt annað finnst mér fréttnæmt við þessi tíðindi. Annars vegar sú staðreynd að þetta teljist frétt. Öll þurfum við að borða og kassakvittanirnar tala sínu máli. Er þekki svolítið ísmeygilegt að þurfa að lesa það í blöðunum hvað við eyðum miklu í matvæli?

Hins vegar finnst mér það athyglisvert hvaðan þessar niðurstöður koma. Þær koma ekki frá Neytendasamtökunum íslensku eða öðrum sambærilegum stofnunum. Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, fann þetta út fyrir okkur. Tölurnar verða að vísu hvorki betri né verri fyrir þá sök og glöggt er gests augað og allt það, en segir þetta ef til vill eitthvað um meðvitund íslenskra neytenda?

Okurverð í íslenskum verslunum á sér ábyggilega margar skýringar. Talsmenn stórkaupmanna benda á landbúnaðinn, forkólfar í verslun að auki á legu landsins og smæð og stjórnmálamenn bæta við sjálfri krónunni. Örugglega hafa þeir allir nokkuð til síns máls.

Ég efast heldur ekki um að menn finni skýringar á okurvöxtunum sem hér ríkja, eftir að einhver Evrópustofnunin hefur reiknað þá út fyrir okkur og við erum búin að lesa um þá í blöðunum.

Tölurnar frá Evrópusambandinu má líka skilja þannig að óvíða sé meiri þörf á að tala máli neytenda en á Íslandi. Hvergi í álfunni sé brýnna að veita þeim aðhald sem áhrif hafa á verðmyndun nauðsynja.

Það er ekki síst hlutverk fjölmiðla. Á Íslandi þykir á hinn bóginn fráleitt að amast við því að fjölmiðlar séu meira og minna í eigu þeirra sem lána okkur peningana á okurvöxtum til að við getum haldið áfram að kaupa af þeim matvælin á okurverði.

Á tímum fjölmiðlafrumvarpsins sáluga kvörtuðu menn sáran yfir því að engin umræða hefði átt sér stað um efni þess, eignarhald á fjölmiðlum.

Nú þegar frumvarpið hefur verið jarðað ríkir þögnin ein yfir grónu leiði þess.

Og við höldum áfram að vera alveg hissa á þessum 62%.