Ein setning í Biblíunni hefur hrifið mig lengi og gerir enn í hvert sinn sem ég les hana. Þegar Guð hafði á sex dögum skapað jörðina og allt sem á henni er þá leit Guð „ allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“. (1. Mós. 1:31). Sem tíðförull ferðamaður til Íslands verð ég að segja að ég skil alveg hvernig Guði leið. Hann leit allt sem hann hafði gert og var ánægður. Fallegar uppsprettur og tignarleg fjöll, lækjarsprænur og beljandi ár, tært andrúmsloft, grænt gras fyrir búfénaðinn og ótal margt fleira. Mér finnst það ótrúlegt, ég stend fullur lotningar og orð Biblíunnar eru ekki lengur bara orð sem ég les og hugleiði heldur eitthvað sem grefur sig djúpt í hjartað.
Það er eftirtektarvert að Gamla testamentið er fullt af sögum þar sem Guð lítur yfir jörðina og er ekki ánægður með það sem hann sér. Við getum lesið um hvernig Guð blandaði sér í atburðarás til að bæta það sem miður hafði farið. Um leið kallaði Andi Guðs fólk til að rísa upp og tala gegn því sem ekki var Guði velþóknanlegt. Fólk eins og þig og mig. Reyndar oftast einhverja sem ekki vildu að Guð kallaði það. Eins og Jeremía sem var að reyna að finna haldbæra afsökun fyrir því að vera ekki spámaður þegar hann sagði „Ó, Drottinn, ég er of ungur.“
Frá árinu 1990 hefur Alkirkjuráðið og aðildarkirkjur þess unnið að því að efla réttlæti, frið og náttúruvernd. Það er vitnisburður um það að andinn heldur áfram að hreyfa við fólki, jafnvel nú á tímum, til að bæta það sem hefur misfarist. Ég ætla ekki að benda á þau dæmi á jörðinn sem Guð gæti litið til og þótt illt að sjá. Ég veit um of mörg dæmi og ég reikna með að við gerum það öll. Og líkt og Jeremía er ég líka góður að finna afsakanir: „Ég er of ungur“ er ein þeirra, eða „Ég bara verð að nota bílinn í dag“ og „það er allt í lagi að flokka ekki þetta smárusl, það skiptir engu máli.“
En það sem skiptir mig verulegu máli, það sem snertir mig er þessi setning: „Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ Þetta langar mig líka að sjá. Og ekki bara sem ferðamaður sem skoðar náttúruundur á framandi slóðum. Ef ég tek Guð alvarlega og ef ég vil vinna verk hans sköpuninni til góðs, þá hefur það áhrif á alla tilvist mína. Það hefur áhrif á bænir mínar, helgihald, guðfræðilegar vangaveltur og hlutverk mitt í samfélaginu.
Það er mér blessun að geta deilt með ykkur gleði Guðs yfir því sem hann hefur skapað og ég er þakklátur fyrir þetta tækifæri. Ég vona að þið þekkið líka þessa tilfinningu lotningar gagnvart Skaparanum og Sköpuninni og að þið getið tekið þátt í að lofa hann fyrir það sem hann taldi „harla gott“. Kristnu umhverfissamtökin í Evrópu (European Christian Environmental Network) hafa helgað tímabilið frá 1. september til 15. október sköpuninni og er yfirskriftin „Tími sköpunar“ (Creation Time). Kannski getum við nýtt þennan tíma sem tækifæri til að koma fram fyrir Skaparann með lofgjörð okkar, vitandi að við erum ekki ein heldur lifum öll í veröld Guðs. Aðalritari EYCE
Daniel Muller er aðalritari Ecumenical Youth Council in Europe, EYCE. Daníel er vígður prestur í lúthersku kirkjunni í Þýskalandi.