Pýramídi, burstabær eða tjaldbúð?

Pýramídi, burstabær eða tjaldbúð?

Miðstýringin er því lítil í þessum skilningi og með vísan í það sem sagt er um gamlar hefðir og skipulag væri nær að tala um íslenskan burstabæ en hefðbundinn pýramída! Burstirnar eru margar, þær standa hlið við hlið – jafnvel svo að erfitt er að ferðast á milli þeirra.

Hvernig á að skipuleggja kirkjuna svo að orkan beinist í þá þjónustu sem henni er ætlað að veita, fremur en að berjast við innri hindranir og tálma?

Þetta er mikilvæg spurning. Hún lýtur að vandamáli sem flestir kannast við á sínum starfsvettvangi, hver sem hann er. Það er, þar sem of miklum tíma, orku og fjármagni er varið í það að leysa ágreining innan samfélagsins. Hversu stór hluti vinnutímans fer í það að taka á slíkum vandamálum? Víða eru átök á milli samherja, samkeppni fer úr böndunum, upplýsingum er ekki miðlað, gert er upp á milli starfsmannanna og hindranir eru reistar sem koma í veg fyrir eðlileg skoðanaskipti. Hvernig á að fyrirbyggja þetta?

Pýramídar

Þetta er fyrir það fyrsta, réttnefnd orkusóun og að hana má rekja til óheppilegs skipulags og rangrar sýnar á það hvernig unnið er með fólki. Einkenni á slíkum samfélögum er rækilega skorðaður pýramídi, þar sem boðin ganga að ofan og niður. Þeir sem neðstir standa, taka við boðum frá þeim sem ofar eru og svo koll af kolli þar til komið er að leiðtoganum sem trónir efst. Hann tekur allar stærstu ákvarðanirnar og allir eiga að hlusta á hann. En á hvern hlustar hann? Og verður markmið undirsátanna ekki fyrst og fremst það að þóknast yfirboðurunum? Eiga þeir ekki að þóknast „viðskiptavininum“ – hvernig svo sem hann er skilgreindur? Eiga þeir ekki að vinna að settu marki? Það er engin trygging fyrir því að þeir geri það ef hugsunin er röng.

Í handbók sóknarnefnda frá árinu 2008 er skipulagi Þjóðkirkjunnar lýst með þessum orðum:

Skipulag Þjóðkirkjunnar er nokkuð flókið og um margt frábrugðið hefðbundnu píramídaskipulagi. Skipulagið byggir að nokkru leyti á gömlum hefðum og skipulagi. Flestar einingar hennar eru tiltölulega sjálfstæðar í starfi sínu og miðstýring innan Þjóðkirkjunnar er lítil.
Þessi sjálfsmynd þjóðkirkjunnar er allrar athygli verð, en ósanngjarnt væri að segja að hún sé röng. Sjálfstæði safnaðanna og prófastsdæmanna er mikið og yfirstjórnin á erfitt með að hafa áhrif á það hvernig þau starfa. Þá kemur fram í vígslubréfum presta að þeir eru öðru fremur bundir samvisku sinni og köllun, og ber þar að sama brunni. Miðstýringin er því lítil í þessum skilningi og með vísan í það sem sagt er um gamlar hefðir og skipulag væri nær að tala um íslenskan burstabæ en hefðbundinn pýramída! Burstirnar eru margar, þær standa hlið við hlið – jafnvel svo að erfitt er að ferðast á milli þeirra. Það er nánast sem hver þeirra sé sjálfstæð bygging. E.t.v. er réttara að tala um tjaldbúð í þessu sambandi.

Þjónandi, biðjandi, boðandi

Hvert stefnir þá þetta samfélag? Hver er tilgangur þess? Í fljótu bragði ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að svara því: Að þjóna í orði og á borði, að boða trúna á Jesú Krist og að vera vettvangur kristins bæna- og helgihalds. En þessi markmið eru opnari en svo að metið verði hvort þeim hafi sé framfylgt. Margt bendir til þess að stefnan liggi ekki alls staðar í rétta átt. Söfnuðir hafa margir hverjir safnað miklum skuldum vegna ýmissa framkvæmda og nú þegar harðnar á dalnum hafa þeir neyðst til þess að segja upp fólki. Dregið hefur úr þeirri starfsemi sem fellur undir ofangreind markmið. Eftirlitið með því hvernig söfnuðirnir starfa er að sama skapi í lágmarki, ef það er nokkurt. Ekki hefur tekist að finna það mælitæki sem gæti varpað ljósi á það hvort söfnuðirnir nýti orku sína með réttum hætti. Já, hvernig er hægt að tala um stefnu Þjóðkirkjunnar ef ekkert mat er lagt á það hvert leið hinna sjálfstæðu eininga hennar liggur? Verður ekki að finna leið til þess að meta hvernig okkur gengur í starfinu?

Eftirlit að neðan

Eftirlitið þarf í raun og veru ekki að koma eingöngu að ofan, þótt það ætti vitaskuld að vera nauðsynlegt í einhverjum mæli. Eðlilega ættu fjárveitingar til safnaðanna ekki eingöngu að fara eftir hinum sjálfvirku leiðum þar sem mannfjöldinn einn ræður tekjunum. Slíkt er í litlu samræmi við hugmyndir fólks um sóknarkirkjur sínar, a.m.k. í þéttbýli. Menn horfa fremur til ákveðinna presta eða leita að þeirri starfsemi sem best fellur að smekk þeirra og áhuga. Af hverju eru tekjur safnaðanna ekki tengdar þeirri starfsemi sem þar fer fram? Söfnuðir gætu skilað inn starfskýrslu og áætlun áður en þeir sækja um fjármagn til næsta tímabils, sem gæti verið eitt ár eða lengri tími.

Eftirlitið gæti líka komið að neðan – sem væri í samræmi við sjálfsmynd kirkjunnar sem hafnar hefðbundnu pýramídaskipulagi. Hvernig færi það fram? Jú, fólk hefði val til þess að skrá sig í annan söfnuð – t.d. innan sama prófastsdæmis, sveitarfélags eða annars þjónustusvæðis sem eðlilegt er að horfa til.

Hvað er gott og hvað er slakt?

Já, hvernig á að skipuleggja kirkjuna með það að marki að orkan fari í þá þjónustu sem kirkjan vill veita? Væri þessi lýsing ekki til þess að skapa ófrið innan kirkjunnar og sundrungu milli safnaðanna?

Fyrstu viðbrögðin við þeirri gagnrýni er að benda á ofangreint: Engin leið er að fylgjast með því að samfélagið stefni í rétta átt. Við því verður að bregðast. Kirkjan verður að finna leið til þess að hægt sé að kalla þjónustuna sínum réttu nöfnum á opinberum vettvangi – hvað er gott, hvað er slakt, hvar eru framfarir, hvar er stöðnun, hvar er hignun? Á meðan enginn spyr slíkra spurninga, er ekki von á miklu.

Þá verður að benda á það að því fer fjarri að engin átök eigi sér stað innan kirkjunnar, við núverandi skipulag. Úrræðaleysið í þeim efnum virðist að sama skapi mikið. Ber hér ekki að sama brunni? Menn hafa enga mælikvarða til þess að styðjast við og ágreiningurinn færist því fljótt yfir á það svið þar sem skynsamleg rökræða á ekki heima. Málin verða persónulegri og flóknari, tíminn og orkan fer í það að slást innbyrðis. Nú eða þá að áhugaleysið er slíkt að enginn skiptir sér að því þótt þjónustan sé óviðunandi. Háar fjárhæðir renna til starfseminnar og aldrei er spurt að því hvort árangurinn sé ásættanlegur.

Leiðir til bóta

Til þess að breyta þessu skipulagi þarf að horfa til ýmissa átta.

  1. Skilgreina þarf markmiðin betur. Nú er stefnumótun kirkjuþings formlega að baki og má margt læra af þeirri reynslu sem hlotist hefur. Vitaskuld reyndist erfitt að láta einingarnar starfa eftir því sem stóð í stefnunni. Nú er hins vegar tækifæri til þess að gera betur og þá þarf að horfa til markmiða sem unnt er að mæla og staðfesta. Reglulega þarf að minna þá sem í kirkjunni þjóna á það hver markmiðin eru og hver meðlimur þarf að skynja það að hann/hún eigi hlutdeild í árangrinum þegar samfélagið kemst nær tilgangi sínum.
  2. Efla þarf hvern einstakling sem leiðtoga. Þjónar kirkjunnar séu sífellt minntir á leiðtogahlutverk sitt og stöðugt sé unnið að því skapa fleiri leiðtoga í samfélaginu sem vita hvert þeir stefna. Þetta má gera með fræðslu, t.d. námskeiðum, kynningarfundum og útgáfu. Brýnast er þó að vinna að slíku með virku fordæmi þar sem fólk skynjar ánægjuna og árangurinn sem fylgir því að starfa með sönn og eðlileg markmið leiðarljósi. Þegar hlutirnir heita sínum réttu nöfnum kemur fljótt í ljós hvar fyrirmyndirnar er að finna.
  3. Hvernig á pýramídinn/burstin/tjaldið að snúa? Með hefðbundnu sniði er hætta á að orkan beinist í rangar áttir og skapi fleiri vandamál en hún leysir. Sé öllu snúið á hvolf er leiðtoginn neðstur og þótt slíkt kunni að hljóma vel getur það reynst flókið í framkvæmd. Kent M. Keith talaði um það á námskeiði um þjónandi forystu í Skálholti í byrjun mars, að pýramídinn ætti e.t.v. að snúa á hlið. Þá er leiðtoginn hvorki efstur né neðstur heldur í miðjunni. Hópurinn horfir hvorki upp né niður – heldur horfa allir í sömu áttina – að sjálfu markmiðinu.
  4. Traustið þarf að efla. Samfélag sem grundvallast á trausti er ekki bara öruggara, heldur líka skilvirkara og samskiptin ganga miklu greiðar fyrir sig. Reglusmíði og alls kyns fyrirvarar og tálmar eru í raun aðeins varnaglar sem sjaldan þarf að nota, þar sem fólk gengur út frá því að allir vinni með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Traust skapar félagsauð og jarðvegurinn fyrir slíkt er greið upplýsingamiðlun. Upplýsingar eiga ekki að vera valdatæki, sem valdhafinn heldur fyrir sjálfan sig heldur á að miðla þeim eins og unnt er miðað við eðli starfseminnar. Starfsmenn sem fá reglulega upplýsingar vita að þeim er treyst og sjálfir treysta þeir þeim sem upplýsingunum miðlar. Þetta kemur í veg fyrir það að menn snúist hverjir gegn öðrum. Til verður skapandi heild, sem er farvegur fyrir frjóa hugsun og nýsköpun.

Þjónandi forysta

Hér þarf ekki að finna upp hjólið. Þjónandi forysta veitir þau verkfæri sem þarf til þess að unnt sé að breyta kirkjunni og þessar fjórar leiðir eiga allar rætur sínar að rekja til kenninga á því sviði.

Þegar allir þeir sem mynda samfélagið beina orku sinni að settu marki má segja að markmið þjónandi forystu komi vel í ljós: Samfélagið byggir á traustum siðferðisgrunni, þar sem hver einstaklingur er metinn að verðleikum og er hvattur til þess að efla sig sjálfur sem þjónandi leiðtogi. Þjónustan beinist að ákveðnu marki sem byggir á skýru gildismati og þetta fyllir meðlimi samfélagsins tilgangi og þrótti. Loks er þetta ein besta nýtingin á auðlindum samfélagsins og skilar einmitt frábærum árangri. Þetta þrennt: siðferði, tilgangur og árangur er einmitt afrakstur þjónandi forystu.