Ljós vináttunnar

Ljós vináttunnar

Kannski getum við látið hin hvítu ljós sem enn loga víða, minna okkur á að eygja von og að ekki er allt ljós slokknað. Ljós vináttunnar er aldrei meira virði en á tímum kreppu og erfiðleika. Vináttan nær ekki bara til samskipta tveggja einstaklinga, heldur við okkar nánustu og við bræður og systur um alla heimsbyggðina.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Karl Helgason
04. febrúar 2009

Látum hvítu ljósin loga, segir í auglýsingu kristinna trúfélaga sem birst hefur í blöðunum, þar sem við vorum hvött til að láta hvítu útiljósin loga fram yfir jól og áramót. Svo virðist sem eftir þessu hafi verið farið því þegar ég lít í um gluggana heima hjá mér sé að víða eru enn logandi ljós á svölum íbúðanna.

Vissulega er myrkrið mikið um þennan tíma ársins og ekki vanþörf á því að lýsa upp skammdegið ef unnt er. En kannski býr líka annað og meira að baki hvatningarorðunum til okkar um að nú sé þörf á að bera birtu inn í þann drunga sem hvílir yfir landi okkar og þjóð. Við erum niðurbeygð, sumir eru reyndar reiðir, og margir eru kvíðafullir og búast við að ekki taki við betri tíð með vorinu heldur þvert á móti muni ástand þjóðfélagsins versna enn frekar. Svo var okkur í það minnst boðað af erlendum sérfræðingi í sjónvarpinu. Atvinnuleysi muni aukast, skuldir hlaðist upp og stöðnun verði á svo mörgum sviðum. Stöðnun er eitthvað sem er andstætt lífi, vexti og framförum og mörgu því sem væntum að gerðist allt í kringum okkur á árinu, en nú virðist hafa hægt á öllu og sumt hreyfist ekkert.

Er þetta ekki eins og við séum stödd í myrkri? Við þorum varla að hreyfa okkur, eins og slökkt hafi verið á öllum vélum og það svo snögglega að við erum varla búin að átta okkur á þessari ógnvekjandi stöðu okkar. Það er því harla vel til fundið að hvetja okkur til að láta þau ljós loga áfram sem við kveiktum á aðventunni og hafa logað fram á nýja árið. Það getum við og þó þau rafmagnsljós með litlar hvítar ljósaperur breyti ekki þjóðfélagsástandinu, þá minna þau okkur á að við getum ýmislegt gert til að vega upp á móti þótt því svartnætti sem er framundan.

Aðventa merkir koma, biðtími þess sem koma skal. Nú erum við að bíða. Þó er munur á þessari nýju aðventu og þeirri sem er undanfari jólanna. Nú reiknum við með að enn eigi eftir að syrta í álinn og hlökkum ekki til þess sem koma skal. En aðventan sem vísar veginn til jólanna, þetta fjögurra vikna tímabil, endar með mikilli hátíð. Gleðiboðskapur er fluttur, við syngjum saman sálma og fagnaðarsöngva, styrkjum fjölskylduböndin, upplifum barnslega gleði þeirra yngstu og rifjum upp þegar við vorum í þeirra sporum og leyfum okkur að vera með þeim sem börn. Góður matur er borinn fram og við klæðumst okkar fínasta taui, allt til að undirstrika að nú er stund til fagna og gleðjast saman.

Sú aðventa sem framundan er boðar víst ekki mikil fagnaðartíðindi og við berum kvíðboga fyrir því sem virðist blasa við. Versta er í stöðu sem þessari er að enginn veit hvenær þessari göngu í efnahagsmyrkrinu lýkur, hvenær einhver getur frætt okkur um hvað gæti hugsanlega hent á leiðinni. Slíkur óvissutími er aldrei góður og þó við höfum upplifað eitthvað svipað þegar við bíðum eftir slæmu tíðindunum, þá er eins og nú viti enginn með vissu hvert stefni. Sumir bíða óttaslegnir eftir að heyra úrskurð læknisins, aðrir kvíða niðurstöðu dómstólsins, en við þurfum yfirleitt ekki að bíða lengi. Kannski er það eðli allrar kreppu að aðstæður í þjóðfélagi eða heiminum öllum eru með þeim hætti að ástandið varir um langan tíma og er víðtækt. Mamma mín upplifði kreppu millistríðsáranna og sú upprifjun kallar fram dapran endurminningar þegar afi minn kom oft á tíðum heim eftir að hafa beðið allan daginn eftir einhverri vinnu niður á höfn, án árangurs. Það finnst henni einna verst við kreppu að fá ekki að vinna, ekki bara vegna launa til að framfæra fjölskyldunni, heldur líka vegna þess að atvinnuleysi er eins og yfirlýsing samfélagsins um að það sé ekki þörf fyrir mann.

Það er þörf fyrir alla, af því að við erum ekki fædd til einskis. Mikils metinn guðfræðingur ritaði eitt sinn lítið kver sem byrjar svona: “Við fæðumst til að verða vinir”. Heimspekingar fornaldar rituðu mikið um vináttuna sem þeir töldu stuðla að einhug meðal landsmanna, nauðsynleg forsenda fyrir réttlátu samfélagi. Vináttan gegndi áþekku hlutverki innan þjóðfélagsins og trygginga- og heilbrigðiskerfið gerir í velferðarríkjum samtímans (sjá innganginn að bókinni Um vináttuna, eftir Cicero). Nú er þörf á vinum, vináttu, vinsemd og öllum þeim sem vilja halda í höndina á okkur í gegnum erfiðleikana. Það er hörmulegt að missa atvinnuna, sjá ekki leið út úr skuldafeninu og finnast maður lítilsvirtur og nánast óþarfur, en verra er að eiga enga að sem við teljum vini okkar. Við treystum því að þeir sem leiða þjóð okkar áfram nú reyni sitt besta en það verður einhver, ef mögulegt er, að upplýsa okkur betur um það sem framundan er. Erum við enn á niðurleið, er enn dimmara framundan? Hvaða von sjá þeir og hvað mun koma í ljós þegar þessu mótlæti lýkur?

Er þessu kannski alveg öfugt farið? Vorum við ekki í myrkri í mörg ár, blinduð af gerviljósum glæsihallanna? Erum við nú loksins komin í ljós sem lýsir upp allt það sem leyndist í skúmaskotunum, var falið fyrir okkur og þoldi ekki að vera dregið fram í dagsljósið? Það sem var sveipað dýrðarljóma, var glæst ímynd þjóðarinnar út á við og keyrt áfram af hömluleysi stóðst ekki prófið, reyndist keisarans klæði.

Fátt stendur upp úr sem gefur okkur von um betri tíma. Kannski getum við látið hin hvítu ljós sem enn loga víða, minna okkur á að eygja von og að ekki er allt ljós slokknað. Ljós vináttunnar er aldrei meira virði en á tímum kreppu og erfiðleika. Vináttan nær ekki bara til samskipta tveggja einstaklinga, heldur við okkar nánustu og við bræður og systur um alla heimsbyggðina. Það er hinn dýrmæti auður sem við búum yfir og verður ekki frá okkur tekinn. Í þann sjóð verður gengið á næstunni og þá mun koma í ljós til hvers við fæddumst.

“Þegar þrír vinir Jobs fréttu um allt það böl sem hann hafði orðið fyrir héldu þeir hver um sig að heiman, Elífas frá Teman, Bildad frá Súa og Sófar frá Naama. Þeir tóku sig saman um að fara og sýna honum samúð og hugga hann. (Job. 2:11)