Tölvan segir nei-syndromið

Tölvan segir nei-syndromið

Við þurfum og við eigum án tillit til trúar eða trúleysis að hjálpa börnum okkar vera læs á þessar tilvitnanir og tilvísanir í umhverfi þeirra og samfélagi.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
17. október 2011
Flokkar

Útvarpsmessa sunnudaginn 16.október 2011 Mark.2.14-28

Náð sé með yður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Okkar daglega líf, sem við getum kallað hversdagslíf, sem við erum fyrir löngu hætt að taka eftir og látum stundum fátt um finnast og fátt koma á óvart sem leiðir af sér að okkur virðist tíminn renna hjá á þjóðvegi án hámarkshraða. Er í raun fullt af einhverju spennandi sem við meðvitað og ómeðvitað látum framhjá okkur fara. Við leifum okkur að horfa til þess sem aðrir eru að gera, eitthvað spennandi og uppbyggjandi í samanburði við grámyglu okkar eigin daglega lífs, að okkur finnst. Leyfum okkur jafnvel að finna til öfundar. Bíðum eftir að eitthvað sambærilegt eigi eftir að gerast í okkar eigin lífi til að komast að því að ekkert gerist yfir höfuð af sjálfu sér. Hver dagur er eins og ómálga barn sem eftir væran svefn næturinnar tannlausu brosi horfir til okkar og látbragð þess spyr viltu vera memm? Engin skilyrði, aðeins að vera með og leyfa opnum huga dagsins koma okkur á óvart. Auðvitað viljum við vera memm um leið og hugsunin læðist að það er svo margt framundan, mörg verkefni að leysa að við sjáum ekki framá að svo verði í dag. Einstaka sinnum stígum við úr rekkju næturinnar í hlýjan og gefandi inniskó dagins sem liggur við rúmgaflinn og hugur segir að í dag er dagurinn sem leiðir til einhvers, sem við vitum ekki endilega hvað er og verður. Getur verið að við finnum til ótta og kvíða, það er þægilegra að ganga til þess sem við vitum um og höldum að við höfum stjórn á. Það er freistandi að leyfa að að ýminda sér að svo hafi verið í tilviki tollheimtumannsins Levi Alfeussonar sem frá segir meðal annars í guðspjalli dagsins. Nýr dagur sem tók spenntur við deginum á undan til þess að vera ekkert öðruvísi en samt dagur sem breytti öllu því sem hann gat átt von á. Kannski hafði hann engar hugmyndir um eða væntingar að líf hans skyldi taka svo stórkostlegum breytingum sem varð. Kann að vera að hann hafi verið ánægður með það sem hann hafði þrátt fyrir að hann og sú stétt sem hann tilheyrði væri ekki hátt skrifuð af samtíðarmönnum hans. Svo er hitt að hann gat átt sér þann draum að geta staðið upp frá tollbúðinni þar sem hann sat trúr sínu en tækifærið var ekki að sækja hann heim, hver dagur eins og ekkert á borði sem benti til annars fyrr en Jesús á þar leið um og segir við hann. „Fylg þú mér.“ Þetta var dagurinn sem hann var upptekinn við sína daglegu iðju og ekkert virtist ætla að breytast og eða áætlanir um að dagurinn yrði á einhvern hátt öðruvísi. Bítillinn John Lennon sem við minnumst árlega 9. október á fæðingardegi hans með tendrun á friðarsúlunni í Viðey orðaði hversdaginn vel þegar hann sagði einhverju sinni að "Lífið er það sem gerist hjá þér á meðan þú ert upptekinn að gera aðrar áætlanir." Hverju orði sannara, við erum upptekinn við að gera aðrar áætlanir en þær sem mæta okkur eins og því sem mætti Levi Alfeussyni forðum daga. Við skulum ekki ætla að það sé eitthvað annað í dag nema það að við getum mun auðveldlega falið okkur á bak við voldugt borð áætlana, skipurita, framtíðarhorfa, svo eitthvað sé nefnt og „Tölvan segir nei“ syndromið vegna þess að það tekur svo auðveldlega frá okkur ábyrgðinni sem hvílir á herðum að kannast við breyskleika okkar, drauma og væntingar og þurfa ekkert að gera með annað en að ýta á Delete á lyklaborðinu ef okkur finnst við þess þurfa og vantar áræðni eða kjarkinn til að leita og breyta. Lífið er flókið með fullt af vísbendinum sem okkur er ætlað að fara eftir til þess að passa inni í fyrirframgefnar hugmyndir um lífið og tilveruna. Við vitum að svo er alls ekki reyndin. Á þessari ferð verður okkur á í verkum og orðum og það þarf kjark og það þarf áræðni að horfast í augu við mistök sem gerð eru, hvort heldur það bitni á okkur eða náunga okkar. Við höfum undanfarna daga og vikur fengið að kynnast því. Það þarf kjark til meðal annars að leyfa lífinu koma sér á óvart, leiða okkur á ókunnugar slóðir,kannski finna nett fyrir óróa vegna þess að það er eðlilegt að við finnum til óöryggis gagnvart því sem við þekkjum ekki til hlítar. Að því sögðu er hægt að tala um að við þekkjum einhverntíma eitthvað til hlítar? Er ekki svo að það sem við héldum eða töldum vera er ekki þannig þrátt fyrir að annað hafi verið sagt og haldið fram. Í þeirri stöðu er aðeins hægt að fylgja samvisku sinni –Fylg þú mér – í auðmýkt hugans hversu erfitt sem það kann að vera og efasemdir láti á sér kræla. 11 Ávarpið „Fylg þú mér“ er mun nærri okkur en við getum mögulega ímyndað okkur. Á hverju andartaki lífs okkar í fyllstu orðins merkingu hljómar þetta ávarp frá þeirri stundu er við rísum úr rekkju á leið til vinnu eða skóla og eða þeirra verka sem bíða okkar þann daginn. Við stöndum hverja vökustund frammi fyrir vali. Fylg þú mér er við hvert fótmál hverja hugsun og hverju því verkefni sem okkur er trúað fyrir og eða við ætlum sjálf að gera. Hversu oft á dag skildum við standa sjálfa okkur að því að horfa framhjá eða skella skollaeyrum við þessu ávarpi sem hljómar innra með okkur alltaf Fylg þú mér? Vegna þess að okkur skortir kjark til að standa upp og fylgja eigin sannfæringu sem kann að fela í sér að ganga frá því sem við þekkjum svo vel og erum að fást við og leyfa því óvænta, ókunnuga að mæta okkur einhverstaðar á leiðinni-jafnvel vandlætingu almannaróms. Jesús gekk til móts viðteknum venjum og siðum ekki til að afleggja þá heldur til að leggja áherslu á fjölbreyttnina í því samfélagi sem hann lifði í og starfaði. Boð og bönn sem beindust að mennskunni í hans huga var aðeins til þess að niðurlægja og smána manneskjuna sem boðin og bönnin bitnuðu á. Hann lagði áherslu á að boðskapur hans heyrðist sem víðast. Ekki aðeins í eyru þeirra sem fúslega hlýddu á heldur og hinna sem samkvæmt skilgreiningu samtímans stóð fyrir utan hliðið og var ekki hleypt inn vegna þess að þeir voru ekki samboðnir hinum. Við könnumst við og þekkjum þetta að þjóðfélagshópar voru og víða eru útskúfaðir vegna litarháttar, trúar, kynhneigðar og þannig má halda endalaust áfram en blessunarlega hefur hugur manneskjunnar þokast áfram í þá átt sem Jesús opinberaði með starfi sínu og verkum að opna fyrir möguleikum fjölbreytni mannlífsins í öllum regnbogans litum. Læra að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og tilfinningum sem saman skapar kraft sem leysir úr læðingi eitthvað sem okkur gat ekki órað fyrir, en er og býr innra með hverju okkar. Krafti sem við getum kallað sameiginglegt líf og trú á að þrátt fyrir að stöðugt sé unnið að, að koma upp girðingum sem skilja að eru þær ekki komnar til að vera. Eða segjum heldur að það megi aldrei verða svo að girðingastaurinn skjóti rótum og lifi sínu eigin trénaða lífi. Jesús reif upp girðingar og girðingshátt samtíma síns, sem skyldi á milli þjóðfélagshópa og ekki aðeins þjóðfélagshópa heldur og þeirra sem höfðu mismunandi sýn á lífið til að sýna framá þá villu sem manneskjan og samskipti manna á milli hafði á löngum tíma í ratað. Það hafði bara gerst og var orðin að viðtekinni venju í samfélaginu. Hvert samfélag, hvert þjóðfélag á hafa kjark til að endurskoða lífsgildin og venjur þær sem hafa hreiðrað um sig í huga og eru ekki endilega réttar eða takmarka rétt manneskjunnar til að lifa því lífi sem hún kýs sér svo framalega að hún er ekki meiðandi fyrir aðra. 111 Við höfum undanfarin misseri heyrt mikið talað um siði og venjur sem tengjast kristindóminum þá helst í umræðunni um kirkju og skóla þar sem tekist hefur verið á um of greiðan aðgang þjóðkirkjunnar að skólum borgarinnar og siðum og venjum þeim samskiptum samfara. Ætla mætti í eyrum þeirra sem vita ekki betur; af umræðunni að dæma, að kirkjan í nærsamfélaginu hafi verið að stunda trúboð í tíma og ótíma á skólatíma barnanna. Svar borgaryfirvalda við því var að koma á lögum og reglum á þau samskipti sem fela í sér algjört bann við að þjóðkirkjan ein stofnana í nærsamfélaginu fái aðgang að skólahúsnæði eftir að skóla lýkur eins og víða hefur verið - ástæðan er til verndar börnunum. Ég er sammála um að trúboð á ekki að stunda á skólatíma barnanna. Skólar eiga skilyrðislaust að vera laus við það. Ef svo hefur verið var komin tími á að það gerist ekki. Kann að vera og hægt að tína til einhver dæmi þess en að stærsta hluta hefur svo alls ekki verið. Ég fagnaði því, á sínum tíma að koma ætti á samskiptareglum sem stuðluðu að því að slá á tortryggni gagnvart kirkjulegu starfi í frímtíma skólabarna sumstaðar í skólahúsnæði eins og áður segir í nærsamfélagi þeirra vegna fjarlægðar frá kirkju - með leyfi foreldra þeirra sem sækja starfið hvort heldur það væri dans, skák, boltaíþróttir, föndur eða eins og áður segir kirkjustarf. Fögnuðurinn breyttist fljótlega í skelfinu þegar ljóst var að eitthvað annað lægi að baki en umhyggjan fyrir blessuðum börnunum. Það eina sem tekið var út úr frístundastarfinu var kirkjustarfið. Það skyldi með öllu úthýst þrátt fyrir eins og margoft hefur verið bent á utan skólatíma, en - já - í skólahúsnæði. Skólinn á að vera laus við „trúaráróður“ segja einstakir bloggarar sem eiga fullan rétt á sínum skoðunum. Vissulega ef það er þannig eins og orðana hljóðan ber vott um. Sem betur fer lifum við í samfélagi þar sem við getum tjáð okkar skoðanir án þess að eiga hættu á að vera útskúfuð úr mannlegu samfélagi, þótt það gerist. Tjáning á opinberum vettvangi fylgir ábyrgð, mikil ábyrgð – sú umræða sem fram hefur farið á öldum ljósvakans og prent og tölvumiðlum þá sérstaklega um meint trúboð í skólum á skólatíma hefur oftar en ekki verið með hástöfum og upphrópunum með lítilli og eflaust stundum einhverri innistæðu eftir efni og ástæðum. Það sem átti að vera að ég hélt en varð ekki minnir óneitanlega á það sem segir í niðurlagi guðspjallsins „Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa.“ Í mínum huga er það nákvæmlega sem gerðist í meðförum borgarráðs á málefnum kirkju og skóla það varð af verri rifa. Þetta nýja sem átti að verða varð ekki. Það sem hefði getað komið úr þeirri vinnu var virðing fyrir trú og trúleysi einstaklinga sem hefði getað fleytt okkur áfram til þess að kenna ungmennum umburðarlyndi en ekki sundurþykkni og þeirri að því er virðist þörf manneskjunnar að hugsa fyrir náungann og ætla öðrum hvað þeim er fyrir bestu. Það á og ætti aldrei að vera að meirihluti kúgi minnihlutann og öfugt. Þeim hugsunargangi mætti Jesú á tíma sínum hér frá fariseunum og fræðimönnum samtíma síns eins og heyra mátti í guðspjallinu. Fjölbreytnin í samfélagi okkar á að fá að dafna og breiða úr sér þannig að allir eru sáttir, ekki eitthvað eitt sérstaklega tekið út og sett fyrir utan. Það er svo ótrúlega rangt. Samfélagið sem Jesú lifði í og starfaði var gegnumsýrt þeim hugsunargangi. Jesús bauð og hann býður okkur að fylgja sér í þeirri hugsun að bera virðingu fyrir lífsgildum annarra og að ólíkar skoðanir um trú og trúleysi geti gengið sama vegin. „Fylg þú mér“ er valkvætt, alltaf. Levi Alfeusson hefði getað setið fastur við sitt borð og vitað nákvæmlega hvernig dagurinn yrði að kveldi komin til þess að það endurtæki sig næsta dag. Hann ákvað að standa upp frá borði sínu og fylgja Jesú þann veg sem hann gekk. Hann hafði ekki miða að heiman enda var hann fullorðinn maður að taka ákvörðun fyrir sig án þess að það hefði meiðandi áhrif á aðra. Nákvæmlega eins og valmöguleiki ætti að vera fyrir foreldra og forráðamenn sem vilja að börnin þeirra kynnist lífi og starfi Jesú Krists og boðakap hans sem hefur haft áhrif til dagsins í dag í svo mörgu hversdagslegu að við tökum ekki eftir því. Íslensk menning hvort heldur það er í bókmenntum, myndlist, kvikmyndum og listum að ekki er talað um lög og reglur samfélagsins okkar eru grundvölluð á kristnum trúargildum. Við þurfum og við eigum án tillit til trúar eða trúleysis að hjálpa börnum okkar vera læs á þessar tilvitnanir og tilvísanir í umhverfi þeirra og samfélagi. Í fjölmenningu nútímasamfélags sem við erum svo lánssöm að fá að vera hluti af og gefið okkur tækifæri til að auka víðsýni okkar og þekkingu á mismunandi trúarbrögðum og menningarheimum, er augljós skylda að vernda þessa hagsmuni heildarinnar með gagnkvæmri virðingu. Gagnkvæm virðing og vísýni er ekki best sýnd með því að gera tilraun til þess að skapa samfélag sem er gerilsneytt þeirri trú sem hefur mótað viðhorf í gegnum aldir. Breytingar eru að gerast í samfélagi okkar og þeim ber að fagna og þeim ber að gefa nýtt rými. Það fæst ekki með því að afneita því sem er. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Takið postullegri blessun:

Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen

.