Fyrir 60 árum hnaut lítill drengur um útimottuna heima hjá sér og lenti með augabrún á hurðarhúni. Augnlokið féll ofan frá fyrir augað og blóðið flæddi og af því að hann strauk sér dróst blóðið yfir heila augað líka og blindan hvolfdist yfir lítinn dreng og hjartað ólmaðist í brjósti hans. Móðirin tók hann í fangið og lagði klút á opið sár. Þá vildi svo til að faðir þessa drengs kom að, heim úr vinnunni, leit á vegsumerkin, tók drenginn í fang sér og gekk með hann í fanginu yfir háholtið að Landspítalanum, bráðadeild, sem var í kjallara spítalans á norðurhliðinni. Ekkert var sagt á leiðinni nema þetta: Við förum til læknis. Þetta lagast allt. Og drengurinn lá stilltur í styrkum örmum föður síns þar til bráðavaktin tók yfir og fylgdi þessari aðgerð eftir. Það varð svo fyrir skýra greiningu á vandanum, fumlaus handtök, og verkfærabúnað, sem hentaði þessu verkefni, að þetta lagaðist allt. Við þekkjum það öll hve traustur föðurarmur og hlýr móðurfaðmur veitir ró og öryggi, sefar léttar sorgir og þungar, veitir öryggi og líkn, vekur von og nýja sýn á lífið og framtíðina.
Fyrr á öldum hefði heimilismóðirin eða annar lagtækur reynt að rimpa augnlokið fast við sína augabrún, en af augljósum ástæðum hefur slíkt heimilisverk færst í hendur sérfræðinga og þannig hefur sjúkrahúsið með allri sinni þekkingu innanborðs og verkfærasafni, sem reynist einmitt svo vel þegar mikið liggur við, orðið framlenging á því, sem er mikilvægast heima fyrir, nefnilega umönnun og aðhlynning þeirra sem eiga bágt. Reyndar mun betur og nákvæmar en áður var hægt. Í þessari þróun sést grundvallarmunur þá því að vera manneskja en ekki dýr eyðimerkurinnar. Það eru grunnatriði í mannlífinu, að einstaklingurinn eignist slíkt skjól þegar hann fæðist og hafi aðgang að hjálp í nauð í uppeldi sínu og ævina á enda. Mælingar velferðarþjóðfélags miðast að stórum hluta við þess háttar möguleika og öryggi. Það þarf góða siðvitund, mikinn skólalærdóm og hæfileikaríkt fólk til þess að þessi menningarstuðull fái að þroskast og geti brugðist við í hverju tilviki, sem upp kann að koma á langri ævi einstaklingsins í fjölbreyttu þjóðfélagi. Það tekur sannarlega tíma að þróa slíkt samfélag, og það er kostnaðarsamt og krefst mikilla fórna af hálfu þeirra, sem stuðla að uppbyggingunni. Á þessari þróunarvegferð er gott starfsfólk heilbirgðiskerfisins hinn ómetanlegi þáttur velferðarinnar. Margar hafa náð langt á þessu sviði, m.a. Ísland. Hér njótum við meira að segja þeirra verkalauna að búa við eitthvert mesta langlífi, sem þekkist. Það hefur ekki áunnist fyrir tilviljun.
Jesús segir: 24Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Þetta eru stór orð og mörgum, skiljanlega, hörð undir tönn. Jesús orðar hér þá hugsun að líf fólks eigi sér framtíð, þrátt fyrir dauðann, dauðann sem skelfir alla, og einkum þá sem eru yngri en hundrað ára. Það mætti ætla að Jesús segi þetta eins og einhver hálfsturlaður trúarleiðtogi, sem vill láta söfnuðinn fremja fjöldasjálfsmorð, af því að það er allt miklu betra hinu megin, handan þessa lífs. En það er nú hreint ekki svo. Þessi orð Jesú er miklu djúpstæðari og merkilegri en svo. Í þessum sama kafla, rétt áður en hann mælir þau orð sem hér voru höfð eftir honum, læknar hann mann af langvarandi og erfiðum sjúkdómi við laugina Betesda. Þegar Jesús læknaði, sem hann gerði oft, um það eru sterkir vitnisburðir, og þegar hann læknaði, miðaði sú lækning að því að lengja líf viðkomandi og auka á lífsgæði hans. Það er nú reyndar markmið allra góðra lækninga. Lækning Jesú snýr að lífinu, en ekki að dauðanum. Við þurfum að gera þar á skýran mun. Markmiðið er að alúð, umhyggja og ábyrgð heimilisins (þ.e. foreldranna og samfélagsins alls) horfi til bestu möguleikanna og eigi sér framtíðarsýn, þar sem velferð og hamingja á að aukast og styrkjast í sessi í samfélaginu. Jesús læknar til þess að lina þjáningar, bæta heilsu og auka á von og hamingju. Hann leggur hverju foreldri línur umhyggjunnar. Hann læknar til þess að við lifum lengur og betur. Það er einnig markmið sérhvers læknis og sérhvers sjúkrahúss og sérhvers sjúkrahússtarfsmanns, af hvaða toga sem hann er. Fyrirheiti Jesú um sigurinn yfir dauðanum, hvílir hins vegar algjörlega á nafni hans. Það er trúarlegt atriði og við höfum ekki aðgang að því nema í trú og trausti á nafn hans. Hins vegar er ljóst að heilbrigðis- og sjúkrahúsþjónustan hallar sér að því sem er vísindalegt og á veraldlegri þekkingu byggt, af því að það er okkar viðfangsefni hér í þessu jarðlífi. Ef þekkingin fær ekki að þróast og reynslan ekki að bera ávöxt, þá verður uppskerubrestur og hörmungin tekur við. Vorregnið og haustregnið er tákn þeirrar umönnunar og erfiðis, sem við leggjum í verk okkar, t.d. á sviði hjúkrunar, lækninga og sálgæslu hvers konar. Þekkingin og áhuginn er drifkrafturinn sem þarf til framkvæmdanna. Tæki og tól auka á öryggi og möguleika til sífellt betri árangurs.
Hippocrates, sem var uppi um 400 f.kr. barðist gegn galdrakukli og hindurvitnum. Læknaeiðurinn er kenndur við hann. Í honum lofar læknirinn m.a. að vinna sjúklingnum „allt til góðs eftir bestu getu og dómdreind“. Um leið og það er almennt viðurkennt, að læknir sverji læknaeiðinn, gengst þjóðfélagið undir þann almenna sáttmála að gera honum kleift að standa við hann. Það er siferðilegt metnaðamál að svo megi verða. Jesús skildi á milli sektar og sjúkdóma. Hann var spurður hvað blindur maður hefði gert af sér, svo að hann varð blindur. Jesús svaraði og ég umorða þessi orðaskipti til glöggvunar: ‚Eru það syndir ættmenna eða hans sjálfs, sem valda þvi að hann er blindur?‘ var spurt. Jesús svarar: ‚Blindan er bágindi þessa manns. Það er staðreynd. Hann þarf hjálp, okkar hjálp, Guð gefur manninum vit og hæfileika til að hjálpa til í slíkum aðstæðum. Þannig þjónar manneskjan Guði i kærleiksverki sínu.‘ Með öðrum orðum má því segja að kærleiksþjónustan vitni um kærleika Guðs. Afstaða mannsins gagnvart fyrirheiti Guðs um eilíft líf er svo eingöngu spurning um fullvissu trúar fyrir von.
Læknavísindi horfast í augun við raunveruleikann. Það gerir sálgæslan líka, sálfræðin og guðfræðin. Í engu þessara tilfella er um eitthvert hjárænulegt hjal að ræða, heldur blákaldar staðreyndir, sem verður að horfast í augu við. Hvort sem um er að ræða augnlok eða hjartaloku, þá er sjúklingurinn jafn bjargarvana og þarf á hjálp að halda. Vitsmunir okkar og vísindahyggja hjálpar þar sannarlega til. En við þurfum þá líka að skapa þeirri læknis- og líknarþjónustu það svigrúm, sem þarf til að öruggur og fumlaus móðurarmur læknisfræðinnar og styrkur föðurarmur kærleikans fái komist að þegar eitthvað bjátar á í lífi okkar.
Það er augljóst að heilbrigðiskerfið í landinu þarf meiri forgang en nú er. Söfnun fyrir línuhraðli er áskorun um samstöðu og aukna hjálp samfélagsins. Gott heilbrigðiskerfi er opinberun á náðarverki Drottins í lífi mannsins. Lofgjörð. “Himnarnir lofa dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.” Amen.