Nýtum föstuna

Nýtum föstuna

Okkur er þannig hollt að horfa reglulega inná við og skoða hvað megi betur fara, hvað það er sem sundrar frá góðum vilja Guðs. Hvað er það sem missir marks í þínu lífi?
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
13. febrúar 2013

Það er margt í lífi okkar og samskiptum sem er síður en svo gott og allt frá upphafi hafa fylgjendur Jesú tekið sér tíma til að horfast í augu við erum og verðum ekki fullkomin. En með því að nefna það, gera iðrun og yfirbót er von til að framfara. Þessa hugsun sjáum við víða:

  • Fremsta íþróttafólk heims á það sameiginlegt að skoða frammistöðu með veikleika í huga, finna hvar mistökin liggja og hvar þurfi að gera betur. Það leitar að besta mögulega þjálfaranum, horfir inná við og tekur þeirri gagnrýni sem í boði er.
  • Blómlegustu fyrirtækin, hafa stjórnendur og starfsfólk sem skoða reglu- og einlæglega hvar er skortur á skilvirkni og góðri þjónustu og finnur leiðir til úrbóta.
  • Öllum er ljóst að engin þrífur heimilið sitt nema a) viðkomandi sjái fyrst að einhvers staðar sé skítugt b) að notaður sé tími og athygli við þrifin.

Kristið lífsviðhorf gengur útá að Guð hafi fyrirætlanir til heilla með líf okkar en ekki til óhamingju. Syndin er það í fari okkar, hugsunum og gjörðum sem missir marks. Orðið synd á rætur sínar í merkingunni: Sundrung frá góðum vilja Guðs.

Okkur er þannig hollt að horfa reglulega inná við og skoða hvað megi betur fara, hvað það er sem sundrar frá góðum vilja Guðs. Hvað er það sem missir marks í þínu lífi?

Næstu fjörtíu daganna er fastan, áminning kirkjuársins um iðrun og yfirbót, að hreingerningar sé þörf. Hvatning til að gefa gaum að syndum okkar og játningu þeirra sem aftur kveikir löngun til framfara í þjónustunni við náungann, fólkið okkar og Guð.

Ég trúi að besta hjálpin sé í orði Guðs og anda, úrvalsþjálfurum sem hjálpa við taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni. Nú ef þú ert óviss, þekkir lítið til eða hefur takmarkaðan tíma, mæli sérstaklega með Fjallræðu Krists (5-7 kafla Matteusarguðspjalls), Óðinum til Kærleikans (Fyrra Korintubréf kafli 13) og Jakobsbréfinu. Í þessum þremur stuttu textum, finnur þú spegil til að skoða sjálfa(n) þig í, ljós til að lýsa þér og fyrirheit um að þrátt fyrir alla þína bresti og breyskleika, þá fellur náð Guðs og kærleikur til þín aldrei úr gildi.

Nýtum föstuna.