Mikilvægi Vegkirkjunnar

Mikilvægi Vegkirkjunnar

Vegkirkja er opin kirkja við veginn, þar sem fólk á ferð getur svalað líkamlegum sem andlegum þorsta, ekki hvað síst þeim síðarnefnda. Kaffi og vatn á könnu, kex í körfu, kertaljós, hlý orð staðarhaldara og viðmót, leiðbeinandi upplýsingar.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
19. júlí 2012

Þorgeirskirkja við Ljósavatn er Vegkirkja yfir sumartímann.  Vegkirkja er opin kirkja við veginn, þar sem fólk á ferð getur svalað líkamlegum sem andlegum þorsta, ekki hvað síst þeim síðarnefnda.  Kaffi  og vatn á könnu, kex í körfu, kertaljós,hlý orð staðarhaldara og viðmót, leiðbeinandi upplýsingar.  Allt magnar það upp þá birtu og helgi sem umlykur kirkju og stað, það gerir sagan líka, að ekki sé talað um töfrandi altarisglugga, er birtir fjalldrapa og glitrandi Ljósavatn í sumarsólinni.

Ljósavatnskirkja

Við hjónin tókum það verkefni að okkur í sumar að standa vaktina í Vegkirkjunni til skiptis.  Það kom til þar sem ekki fékkst starfskraftur í verkefnið og var ástæðan sú að einungis var hægt að hafa kirkjuna opna í einn mánuð þ.e.a.s. 18.júní-18. júlí.  Það þykir heldur takmarkað vinnutímabil fyrir sumarstarfsmann. Niðurskurðarhnífur drepur víða niður fæti, Guð gefi að hnífurinn sá verði ekki brýndur til framtíðar.

Þjóðkirkjan hefur sannarlega styrkt myndarlega Vegkirkjuna undanfarin ár á þann hátt að hægt hefur verið að hafa hana opna tvo mánuði á sumri 15. júní-15. ágúst alla daga frá kl. 10-16.  Með slíkum myndarskap er verið að senda þau skilaboð að saga Þorgeirs er grundvallarsaga í íslenskri kristnisögu og hún þarf að heyrast, að Þorgeirskirkja og umhverfi hennar, sbr. Goðafoss, er athyglisvert í sögulegu og ferðaþjónustutengdu ljósi og að fólk á ferð þurfi á fögrum griðarstað að halda við þjóðveginn, þar sem það getur sest niður, andað léttar, létt á sér, þegið kaffi, upplýsingar og súpu fyrir sálina.  Öllum þessum þörfum hefur verið vel þjónað og sinnt síðan þetta sumarverkefni fór af stað árið 2005 fyrir tilstuðlan sr. Gylfa Jónssonar og fleiri góðra þjóna kirkju og kristni á Íslandi.

Mig langar til þess í fáum orðum að deila með ykkur tveimur reynslusögum úr Vegkirkjunni við Ljósavatn.  Nú tók ég að mér nokkra Vegkirkjudaga í sumar og er bættari á eftir.  Dag einn kom hópur amerískra ferðamanna inn í kirkjuna. Fararstjórinn var íslenskur, hann spurði hvort hann mætti setjast við flygilinn, það var ekkert sjálfsagðara.

Hann bað hópinn um að setjast niður. Þá hóf hann að leika Draumalandið eftir Sigfús Einarsson, himneskt íslenskt lag, sem rann í gegnum hugann eins og lygn á. Hver einasti einstaklingur í hópnum horfði út um gluggann á meðan, sem birtir dýrð Guðs, og viti menn ég sá ófá tár á hvörmum.  Þetta var ekki fyrsti og eini hópurinn sem ég sá tárast yfir fögru sköpunarverki Guðs, sem lýsti upp altarið, borð Drottins og sálir viðstaddra.  Þarna var Guð með okkur, þarna var andrúmsloftið Hans og því fylgdi vellíðan. Annan dag komu hjón frá nágrannalandi. Þau voru að koma inn um kirkjudyrnar þegar ég gekk til móts við þau og bauð þau velkomin. Þau voru fremur ferðalúin, settust niður og þar sem þau horfðu út um fyrrnefndan Guðsglugga og sáu látlausan trékrossinn fyrir ofan hann, helltist yfir þau löngun til að tjá sig um veikan ástvin í fjarlægð og þau báðu mig um að biðja fyrir honum, sem ég og gerði fúslega. Og þetta var ekki eina ferðafólkið, sem fór að tjá sig um innstu tilfinningar sínar þegar það sá glugga og kross, það gerðu fleiri og margar urðu fyrirbænirnar í alheimskirkjunni, já þessari látlausu kirkju innan um fjalldrapann í íslenskri sveit er leggur sig fram um að þjóna fólki frá öllum löndum.

Ég tók einnig upp á því að syngja fyrir fólk úr íslensku sálmabókinni, söngurinn sá var sem betur fer ófalskur í þessu einstaka tónlistarhúsi, þar sem hver tónn lifir, dettur alls ekki dauður niður, þetta er nefnilega lífsins hús og allir sem þangað koma vita að það er ekki bara kaffið, sem hressir, bætir, kætir.  Lengi lifi Vegkirkjan, lengi lifi Sumarkirkjan!!