Franskar konur og fjölskyldan til borðs

Franskar konur og fjölskyldan til borðs

Innan fjölskyldunnar höfum við stórkostlegt tækifæri til þess að þekkja hvert annað og rækta hlý og góð tengsl. Því miður nýtum við ekki alltaf þetta tækifæri sem skyldi. Við getum búið undir sama þaki án þess að þekkjast að ráði. Alþekkt er að foreldrar vilji ekki kannast við ákveðna þætti í fari barna sinna og reyni að sníða þau alfarið eftir sínu höfði.

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina. Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Jh 10.11-16
Hin franska þversögn

"Franskar konur fitna ekki" er titill metsölubókar, sem er nýkomin út á Íslandi. Bókin er innlegg í hollustu- og líkamsvitundarmenninguna, sem í auknum mæli einkennir nútímann. En ólíkt ýmsum megrunarbókum leggur þessi bók til við okkur að við borðum það sem við viljum og njótum matarins án minnsta samviskubits. Eftir því sem fram kom í Fréttablaðinu á dögunum er matarleyndarmál Frakka “þversögn sem hefur ruglað næringarsérfræðinga í ríminu í fleiri áratugi” – hin franska þversögn, eins og höfundur bókarinnar, Mireille Guiliano, orðar það. Leyndarmálið felst í því að borða góðan og fjölbreyttan, heimalagaðan mat ánægjunnar vegna, borða ávallt á sama tíma, þrisvar á dag, og gefa sér góðan tíma við borðhaldið. Versti óvinur heilsunnar er samkvæmt þessu að borða tilbúinn mat á hlaupum, narta milli mála og gefa sér ekki tíma til að njóta matarins með fjölskyldu eða vinum.

Einhvern tíma heyrði ég líka að ýmsir lífsstílssjúkdómar, svo sem hjartaáföll, áunnin sykursýki og jafnvel krabbamein, séu umtalsvert færri í löndum þar sem góðum tíma sé varið í matinn, bæði tilbúning hans og neyslu. Frakkar sitja löngum stundum við matarborðið og styrkja þannig bæði líkama og sál, því bæði fer vel tugginn matur betur með heilsuna og eins er borðsamfélag fjölskyldunnar lykill að góðri andlegri og félagslegri heilsu. Að hafa kveikt á útvarpi og sjónvarpi meðan matast er þekkist varla í Frakklandi, sem er býsna ólíkt því sem tíðkast hér á landi. Þegar ég var að alast upp var oftar en ekki kveikt á útvarpsfréttunum við matarborðið, bæði í hádegi og á kvöldin, og núna er það sjónvarpið.

Borðum saman!

Þessi umræða er þörf áminning til okkar nútíma fjölskyldufólks, sem gerum allt á hlaupum og skortir þrek til að fá börnin okkar til að sitja við borðið meira en þær tvær mínútur sem það tekur að skófla í sig matnum. Margar fjölskyldur reyna þó að borða saman alla vegana eina máltíð á dag og er það talið hafa mikið forvarnargildi. Þegar fjölskyldan á sér borðsamfélag, ótrufluð af sjónvarpi og öðrum miðlum, gefst okkur kostur á að temja okkur góða siði, kynnast betur og gleðjast yfir því að eiga hvert annað að, hvort sem við erum mörg eða fá. Borðsamfélag fjölskyldunnar getur verið mynd umhyggju og góðra samskipta, eins og bænasamfélagið við rúmstokkinn, þegar pabbi eða mamma biður með barninu sínu í blessandi návist Guðs.

Myndin, sem guðspjall dagsins bregður upp fyrir okkur, er einnig og enn frekar mynd ástúðar og hlýrra tengsla. Góði hirðirinn kallar fram í minningunni mynd af fallegum manni með lamb í fanginu eða á herðunum, mynd sem sum okkar áttu yfir rúminu sínu. Litla lambið í faðmi hins góða hirðis sýnir hið nánasta samfélag, líkt og ungbarnið í fangi móður sinnar eða föður. Jesús segir: “Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig, eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn”.

“Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig”. Í Jesjabókinni er þetta orðað svona: “Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn” (Jes. 43.1). Guð kallar á okkur með nafni. Það þýðir einmitt að hann þekkir okkur, hver við erum og hvað okkur er hollt. Er það ekki einmitt þetta sem mörg okkar þrá – að einhver kæri sig um að þekkja okkur eins og við erum, gera sér far um að kynnast okkur og því sem í okkur býr?

Sönn sjálfsþekking

Innan fjölskyldunnar höfum við stórkostlegt tækifæri til þess að þekkja hvert annað og rækta hlý og góð tengsl. Því miður nýtum við ekki alltaf þetta tækifæri sem skyldi. Við getum búið undir sama þaki án þess að þekkjast að ráði. Alþekkt er að foreldrar vilji ekki kannast við ákveðna þætti í fari barna sinna og reyni að sníða þau alfarið eftir sínu höfði. Og við fullorðna fólkið kunnum að vera hrædd við að sýna okkur eins og við erum, jafnvel maka okkar, af ótta við höfnun. Stundum þekkjum við okkur ekki sjálf nægilega vel, viljum ekki kannast við tilfinningar okkar og vitum ekki lengur hvað okkur langar eða við viljum helst. Þannig ástand er ekki heilsusamlegt. Við þurfum að gefa okkur tíma til að kynnast okkur sjálfum og öðrum í fjölskyldunni okkar.

Borðsamfélagið er mikilvæg leið til þess. Meðfram því að njóta matarins - tyggja vel! - og leggja þannig grunn að góðri líkamsheilsu, getum við styrkt tengsl fjölskyldunnar og komið fram með það sem okkur liggur á hjarta. Hver manneskja á rétt á því að á hana sé hlustað og hennar áhugamál virt, um leið og hún lærir að umgangast aðra af virðingu og kurteisi.

Grunnurinn að sannri sjálfsþekkingu er að kynnast góða hirðinum, honum sem þekkir okkur betur en við sjálf. Mikilvægur staður þeirra kynna er í borðsamfélagi kirkjunnar, í þeirri máltíð sem faðirinn himneski býður börnum sínum til. Okkur kann að standa ógn af því að Guð sé sá mannþekkjari sem hann er, enda leynist ýmislegt í skúmaskotum sjálfsins, sem við vildum helst ekki vita af. Um leið er mikil hvíld í því að vita að við þurfum ekki að leyna neinu frammi fyrir frelsaranum, að við getum verið við sjálf, komið fram fyrir hann eins og við erum. Við erum stöðugt að fegra sjálfsmyndina, bæði fyrir öðrum og oft líka okkur sjálfum. En hjá Guði eru gæsalappirnar fjarlægðar, við hættum að sýnast og hvílum í fullvissu þess að við séum tekin gild eins og við erum.

Gildi borðbænarinnar

Á þessum grunni getum við byggt þegar við viljum efla tengslin innan fjölskyldunnar. Virðingin fyrir hverjum einstakling hennar hlýtur að hvíla á þeirri staðreynd að við erum öll þekkt og elskuð af Guði. Þaðan getum við fetað veginn áfram og eflt hvert annað í því að bæta okkur sem manneskjur. Borðsamfélag fjölskyldunnar getur verið dýrmætur áningarstaður á þeirri leið, næring líkama og sálar. Er þá ekki mikilvægt að hafa Guð með við borðið með því að biðja borðbæn, minnast þess að maturinn er gjöf frá himneskum föður, búinn til af ástúð úr hráefnum gefnum af umhyggju skaparans? Þegar við biðjum borðbæn færum við mynd góða hirðisins inn í hjarta fjölskyldunnar, hans sem þekkir okkur hvert og eitt og býður okkur að þekkja sig.

Einföld borðbæn er tekin úr Biblíunni og hana geta allir lært (sbr. Sálm. 107.1):

Þökkum Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. Amen.
Með borðbæninni verður Guð hluti af borðsamfélagi fjölskyldunnar, sem hlýtur að gera umræðuna og samskiptin öll ástúðlegri og hreinskiptari. Við getum líka haft hluti við borðið sem minna okkur á góða hirðinn og hlýju hans, s.s. kertaljós, myndir, krossa eða styttur. Á föstudaginn langa áttum við miðdóttir mín, sem er að verða 2ja ára, samtal um Jesú á krossinum út frá blaði sem hún hafði fengið í sunnudagaskólanum helgina áður. Sú stutta vatt sér í að benda hér og þar um húsið, “Krossinn, krossinn” út um allt á prestaheimilinu, og svo þegar við vorum að setjast til borðs kom hún færandi hendi innan úr herbergi bróður síns. Þar var á hillu lítil stytta af Jesú með hjarta í höndunum. “Jesús, Jesús”, sagði barnið, og síðan er hann hjá okkur í eldhúsinu.

Með myndina af Jesú í hjartanu

Það er gott að hafa Jesú hjá sér í eldhúsinu. Hann var þar reyndar áður en telpan gaf honum stað við borðið okkar og vera hans minnir okkur á hvernig við eigum að koma fram hvert við annað. Stundum gengur mikið á í sex manna fjölskyldu og borðhaldið er ekki alltaf jafn friðsamlegt, en manneskjur með myndina af Jesú í hjartanu og fyrir augunum eiga bágt með annað en að leitast við að sýna hver annarri trúnað og virðingu.

Lífshamingjan verður alls ekki talin í kílóum. Við hvorki þurfum né viljum öll líta út eins og Sylvía Nótt – og að því leyti á innihald bókarinnar sem vitnað var í hér að framan alls ekki við. Lífshamingjan verður hins vegar áreiðanlega talin í samvistum við ástvini okkar og gæðum þeirra. Og lykillinn að gæðastjórnun í fjölskyldulífi er að þora að þekkja og vera þekktur, að fá að vera ég sjálf innan um öll hin sjálfin. Því þori ég ekki – nema að ég hafi Guð með mér, sem þekkir mig, býður mér til borðs með sér og þrýstir mér að hjarta sínu eins og góður hirðir litlu lambi. Þaðan get ég gengið áfram, út úr sjálfri mér til að vera með fólkinu mínu eins og það er, á leið til betra mannlífs.