Elskið því útlendinginn

Elskið því útlendinginn

Hatursmenn skrifa hatursbréf. Himininn sendir bréf elskunnar til manna. Hin biblíulegu rit ilma og óma af mannúð, ljóma af hinum mörgu litum fólks og menningu þess. Prédikun 22. janúar 2006 fer hér á eftir.

Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi. 5M 10

Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.

Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: Ég vil, verð þú hreinn! Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar. Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn. Jesús sagði: Ég kem og lækna hann.

Þá sagði hundraðshöfðinginn: Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Gjör þetta, og hann gjörir það.

Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki, en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: Far þú, verði þér sem þú trúir.

Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.Matt. 8. 1-13

Heilsa samfélags

Hvenær erum við heilbrigð og hvað er heilbrigði? Er það bara þegar efnaferli líkamans ganga rétt, ekki er skortur á bætiefnum, hreyfingin nóg og ekkert fer úrskeiðis í innyflum, húð, vöðvum og beinabrind? Heilsan er mikilvæg. Það skynjum vitum við best þegar eitthvað klikkar. Sjúkdómar, meðalagjafir og jafnvel snúinn ökli kvelja. Andleg vanlíðan og sjúkdómar skadda lífsgæðin. Það, sem brenglar jafnvægi í lífi einstaklinganna, brenglar heilsu fólks. En heilsan er líka háð samfélagi. Við vitum vel, að góð líðan í fjölskyldu eflir heilsu fjölskyldumeðlima. Vanlíðan, drykkja, fátækt, fíkn einhvers konar eða ofbeldi varðar óheilbrigði og elur á alls konar sjúkdómum. Hinir fornu hebrear litu á heilsu líka út frá heill alls samfélagsins. Við mættum gjarnan muna þá vídd líka.

Komumönnum þjónað

Ykkur, sem sækið kirkju í Neskirkju er kunnugt um, að sr. Toshiki Thoma hefur starfsstöð sína í safnaðarheimili kirkjunnar. Hann þjónar oft við messur hér og er orðinn einn af starfsmannahópnum, öllum elskulegur og góður bróðir. Toshiki Toma þjónar nýbúum á Íslandi, hann er prestur innflytjenda. Ég veit, að hann hefur unnið frábært starf, styður fólk sem er hrætt við að sækja rétt sinn, óttast að verða endursent til landa þar sem það getur átt á hættu ofsóknir eða hryllilegar aðstæður. Toshiki vakir yfir, að mannréttindi séu ekki brotin á þessu fólki, reynir að styðja það í aðlögun, hlusta á sorgir þessa fólks og bera þeim vonarljós. Hann er prestur að störfum, sem er drifinn áfram af þeirri elsku, sem Jesús ber úr Guðsheiminum. Maður skyldi ætla, að hann nyti þakkar og virðingar allra fyrir störf sín í þágu þessa komufólks. En svo er þó ekki, þau eru til, sem hafa beinlínis andúð á þessu starfi.

Ógnarbréf

Fyrir liðlega viku síðan barst Toshiki andúðarbréf. Í bréfinu segir, að nýbúar séu hvimleitt fyrirbæri, sem ekki eigi heima í íslensku samfélagi. Hann er hvattur til að fara frá Íslandi og til Japan, gera frekar gagn þar en hér. Bréfinu fylgdu líka úrklippur af skrifum hans, fréttir af nýbúum og í ljós kom að fylgst hefur verið með börnum Toshiki, sem gerir andúðina enn ágengari. Þetta er ekki eina bréfið, sem honum hefur borist. Fyrir fimm árum fékk Toshiki hótunarbréf þar sem honum var hótað lífláti.

Eigum við bara að afskrifa þau sem senda svona bréf sem fólk í ójafnvægi, sem ekki ætti að taka alvarlega. Nei, bréfin eru tákn um mein í iðrum samfélagslíkamans, mein sem geta magnast í fár, sem hrín á einstaklingum og öllu þjóðfélaginu. Fordómar fólks eru ekki einkamál þess og við þeim á að bregðast. Það er allra hagur að unnið sé með fordóma og hatur gegn komufólki á Íslandi. Við eigum ekki að pakka komufólki í gettó eins og Frakkar gerðu í París með skelfingarafleiðingum fyrir alla eins og við sáum síðastliðið haust. Við eigum að leyfa þeim að vera í miðju þjóðlífs, fagna þeim og leyfa þeim að lita menningu okkar og samfélag með sínum litum, en gera líka aðlögunarkröfur á hendur þeim. Ríkuleg samskipti eru til góðs, minnka núning og eyða fordómum.

Kemur þetta kirkjunni við?

Er það verkefni kirkjunnar að halda úti starfi nýbúaprests? Getur verið, að kirkjan skipti sér af málum, sem henni ekki koma við? Er henni nær að vera bara í eilífðarmálunum, spara útgjöld vegna nýbúaprests og sleppa við vandræðin? Ætti Toshiki kannski bara að snúa aftur til Japan?

Lítum á texta dagsins. Skilaboð lexíunnar eru skýr: Elskið útlendinginn. Munið að Guð er Guð, sem rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar. Og minnt er á, að Guð lætur ekki múta sér! Þessi magnaði texti í fimmtu Mósebók er eitt burðarstykki í hryggjarsúlu vestrænnar mannúðar og varðar löggjöf og mannréttindi. Sáttmáli SÞ er m.a. afsprengi þessa. Lexíutextinn varð til í ættflokkabandalagi í Palestínu, hópi hebrea sem voru miklir einangrunarsinnar og ákafir þjóðernissinnar. Þeir vildu, að Guð styddi þá til landvinninga, yfirráða og sérréttinda. En sá Guð var á öðru máli en sjálfhverfir pólitíkusar og útilokandi nasjónalistar. Guð vildi ekki kúga eða drepa þá, sem voru að utan, aðkomnir nýbúar. Elskið útlendingana var og er boð Guðs. Menn eru börn Guðs, hafa gildi, óháð upphafi, fæðingarstað, kynþætti og þjóð. Elskið - elskið útlendinginn, munaðarleysingjann og ekkjuna. Sem sé elskið öll þau, sem eru á útkantinum, þau sem eru utan miðju samfélagsins. Elskið þau, sem eru valdalaus eða vanvirt, eru án samfélagsgæða, auðlegðar og fræðgðar.

Bæn af grensunni

Þegar við rennum okkur svo í gegnum pistil og guðspjall dagsins er sama boðskap að heyra. “En ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka,” segir í pistlinum. Guðspjallið er í áttunda kafla fyrsta guðspjallsins, sem kennt er við Mattheus. Í köflunum á undan er frægasta ræða Jesú, fjallræðan sem er nokkurs konar stefnuskrá hans. Guðspjallið lýsir, að þegar Jesús kom niður af fjallinu hitti hann tvo þurfamenn. Annar var líkþrár, hinn herforingi í liði hins erlenda setuliðs Rómverja. Annar var svo afskræmdur og illa haldinn af húðmeinum, að þau gerðu hann að útlaga í eigin landi og í lífinu. Holdsveiki var eiginlega dauðadómur. Hinn sjúki var ekki lengur gjaldgengur í samfélagi og því útlendingur og laut þeim dómi að deyja hægt og með kvölum. Hinn var hataður útlendingur, sem vissulega naut forréttinda, en var í Palestínu gegn vilja Gyðinga. Af öllum þeim fjölda, sem vildi hitta Jesú var hann fús til að þjóna þessum tveimur. Þeir voru utangarðsmenn, en hann sinnti þeim. Þeir komu biðjandi, báðu um elskuverk Jesú. Jesús læknaði hinn holdsveika og varð við bón herforingjans. Þeir voru á grensunni og þeirra bón heyrði hann.

Jesúmannúðin

Þar með höfum við Jesúmannúðina skýra. Jesús spurði ekki fyrst hvaða flokki menn tilheyrðu áður en hann kom til móts við þarfir þeirra. Hann spurði ekki hvort þeir væru af réttu þjóðerni áður en hann hlustaði á bón þeirra. Hann brást við þörf einstaklinga óháð stöðu þeirra og aðstæðum.

Jesús hlustaði eftir mennskunni. Hann lagði þar með hornsteina mannúðar kristninnar og vestrænna viðmiða um gildi einstaklinga, Guðsgildi allra manna. Þetta er hryggjarstykkið í starfi kirkjunnar um aldir, ástæða kærleiksþjónustu og hjálparstarfs, forsenda félagsvitundar kristninnar og líka starfs Toshiki Thoma. Elskið fólk, heyrið vein þeirra, takið eftir þörfum þeirra, horfið á fólk með augum og afstöðu Jesú. Mennskan er heilög og hlutverk kirkjunnar er að ganga erinda Guðs og í samræmi við afstöðu og starfshætti hans, sem birtir vilja Guðs, þ.e. Jesú Krists.

Samfélagsmein

Hvað þá með hatursbréf þeirra, sem vilja ekki útlendinga á Íslandi og þjónustu við þá? Koma þau okkur við? Eigum við að afskrifa bréfritara sem fáfróða og illa menntaða kjána?

Umræður eru nauðsynlegar um þróun samfélagsins, hversu hratt við getum farið í blöndun og svo framvegis. En hatrið, kraumandi óttinn við útlendinga er hið ógnvænlega. Það er mannlegt að hræðast hið óþekkta. Ótti við hið ókunna er mönnum meðfæddur, en hatur í garð útlendinga er það ekki. Ótti við breytingar er eðlilegur, en það er hræðileg einföldun með skelfilegum afleiðingum, þegar hópar eru skilgreindir sem óvinir hins normatíva samfélags, hvort sem það eru útlendingar, hommar, lesbíur, auðmenn, kommúnístar eða Asíubúar. Hópandúð og hatursáróður er einfaldlega farvegur meiðinga, stríðs og drápa. Allir menn bregðast til varnar sér og stöðu sinni, en alhæfingar um aðra eru gróðrarstía ofbeldisins því þá er troðið á mannréttindum einstaklinga og þeir eru smættaðir, gerðir að öðru en þeir eru.

Elskið

Hatursmenn skrifa hatursbréf og eyðileggja mennskuna. Himininn sendir bréf elskunnar til manna. Það eru hin biblíulegu rit, sem ilma og óma af mannúð, tjá gleði yfir ríkidæmi heimsins, ljóma af hinum mörgu litum fólks og menningu þess. Gamla testamenntið og hin hebresk-gyðingalega hefð segir: Elskið ekkjur, munaðarlausa og útlendinga. Jesús segir: Elskið alla. Biblían er því hvati til, að við iðkum elsku gagnvart öllum, iðkum opna afstöðu. Við ættum að móta pólitík okkar í anda Jesústefnunnar. Við ættum að bregðast við hatursbréfum, standa vörð um manngildi og félagsleg réttindi, líka þeirra sem eru valdalítil, ekki ráða samfélagsgildum og viðurkenndri orðræðu og ekki njóta forréttinda.

Augu Jesú eru alltaf á þeim, sem eru á grensunni, biðja um hjálp, þarfnast góðmennsku og góðs vilja. Til að samfélag okkar sé heilbrigt þurfum við að iðka Jesústefnuna. Kjarni hennar er að elska - líka útlendinga.

Amen