Þegar dyrabjallan hringir hjá þér á mánudaginn, farðu þá ekki tómhentur til dyra. Líklegt er að þetta séu fermingarbörn í sókninni að safna peningum til hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku.
Krakkarnir hafa lært um aðstæður þar. Þau vita að þegar grafinn er brunnur geta allt að 1000 manns fengið úr honum vatn í marga áratugi. Alltaf fylgir fræðsla um nauðsyn hreinlætis þannig að fullur heilsufarslegur ávinningur sé af því að fá hreint vatn. Krakkarnir vita líka hvað þau eru heppin að geta verið í skóla, þótt þeim finnist kannski mest gaman í frímínútunum. En það sem er kannski mest um vert er að þau vita að þau hafa valið og möguleikana. Allt er þeim opið. Hjálparstarf snýst að miklu leyti um það að gefa fólki val þannig að það geti haft áhrif á eigið líf. Fátæku fólki er alltof oft bara úthlutað einhverri aðstoð án þess að það hafi nokkurn tillögurétt.
Söfnunarfé notar Hjálparstarf kirkjunnar til þess að virkja fólkið. Það er hvatt til ræða vanda sem glímt er við. Við sköpum lýðræðislegar aðstæður þar sem allir geta sagt sína skoðun, jafn konur sem karlar. Konur og karlar sinna ólíkum verkum og hefur hver sína sýn á aðstæður og umbætur. Þegar ákvörðun liggur fyrir hvort eigi nú að fá aðstoð við að leggja veg á markaðinn til að koma uppskerunni í verð, reisa lítið skólahús eða grafa brunn, er gerður skriflegur samningur. Hjálparstarf kirkjunnar leggur til ráðgjöf og efni sem ekki fæst úr umhverfinu og veitir fræðslu. Fólkið vinnur svo allt verkið. Það skilar sér í ábyrgð og skilningi á nauðsyn þess að halda verkum við og byggja á þeim til frekari framfara.
Fermingarbörnin banka upp á hjá þér sem hluta af fermingarfræðslunni. Söfnun þeirra er leið til þess að tileinka sér boðskap kristinnar: að hjálpa náunganum. Taktu vel á móti þeim!