Af utangarðsmönnum og fleira góðu fólki

Af utangarðsmönnum og fleira góðu fólki

Við hjónin erum í námsleyfi þennan veturinn í Pasadena í Kaliforníu. Við ákváðum eina helgina að skreppa saman til San Francisco. Það er þannig með mig að þegar kemur að því að velja mótel hef ég sterka tilhneigingu til að líta fremur á verð en gæði því ég tel að það sé miklu skynsamlegra að nota peningana til þess að versla á börn og barnabörn í henni Ameríku en að eyða þeim í gistingu.

Heimilislausir

Við hjónin erum í námsleyfi þennan veturinn í Pasadena í Kaliforníu. Við ákváðum eina helgina að skreppa saman til San Francisco. Það er þannig með mig að þegar kemur að því að velja mótel hef ég sterka tilhneigingu til að líta fremur á verð en gæði því ég tel að það sé miklu skynsamlegra að nota peningana til þess að versla á börn og barnabörn í henni Ameríku en að eyða þeim í gistingu. Af þessum ástæðum höfum við hjónin ratað inn á ótrúlegustu gistihús þar sem ekkert vantaði nema hvítu líkams-útlínurnar við blettina á gólfteppinu. Þegar ég hafði fundið svínslega ódýrt mótel á besta stað í miðborg San Fransisco hrósaði ég happi og taldi mig hafa gert reyfarakaup. Enda kom brátt á daginn að staðurinn var vinsæll. Er Bjarni minn hafði brugðið sér í móttökuna til að skrá okkur inn og fá lykil kom hann fölur til baka með þær fréttir að mótelið væri sannarlega full bókað því karlmaður hafði komið aðvífandi með uppdópaða konu að fá herbergi í klukkustund og ekki átt erindi sem erfiði. Á leiðinni að vistarveru okkar á annari hæð sá ég inn um opnar dyr hvar lögreglumaður með byssu í belti skreið á gólfi í leit að einhverju en gesturinn sat þungbrýnn og handjárnaður á rúmmstokknum. Í sannleika sagt leit þetta ekkert sérlega vel út. En ég hugsaði með mér að ég hefði verið miðborgarprestur í Reykjavík í sjö ár svo að ég hlyti að geta tekist á við þetta, - þar hefði ég nú séð sitt af hverju.

Fyrsta kvöldið brugðum við okkur í miðbæinn sem var ekki nema kortersgangur frá mótelinu en tókum þá eftir því að á svona tíu mínútna kafla mættum við einvörðungu veiku og illa förnu heimilislausu fólki. Við ein gatnamótin skipti svo alveg um andrúmsloft en við tók litríkt og glatt miðborgarlífið. Á einu kaffihúsanna veittum við athygli ungu pari sem var í miklum samræðum og líkt og stundum gerist þá fórum við að spjalla við þetta fólk. Þá kom á daginn að ungi karlmaðurinn, Erik Hartwig, var sænskur að þjóðerni og starfar sem arkitekt, en konan, Alice Engstrom að nafni, er bandarísk þótt hún eigi sænska forfeður eins og nafnið gefur til kynna. Þetta unga fólk fræddi okkur á því að gatan sem við höfðum gengið væri einn aðal vettvangur fíkniefnaviðskipta í borginni og jafn framt talin sú hættulegasta. Þá kom í ljós að ástæða þess að allt þetta utangarðsfólk hefði orðið á vegi okkar væri sú að Alice og samstarfsfólk hennar hjá kirkjulegu hjálparssamtökunum Glide hefðu verið í þann mund að opna nætugreiðann sem fólki götunnar stendur til boða. Eftir að hafa setið og rætt um fátækt og velferð á víðum grunni og borið skandinavískt velferðarkerfi saman við bandaríka ölmusuhjálp bauð Alice okkur að koma á hádegi næsta dag og sjá með eigin augum þessa mikilvirku hjálparstarfsemi sem var stofnuð af meþódistaprestshjónum Janice Mirkitani og Cecil Williams.

Daginn eftir fetuðum við okkur eftir götunni ein í hópi margra annara sem voru að fara í matarröðina í Glide, en þar eru afgreiddar 2500 máltíðir kvölds og morgna árið um kring undir kjöroðunum; ást, samþykki og samlíðun. Unga parið beið okkar í andyrinu og gaf okkur sýnisferð um vistarverur þessa mikla húss. Straumurinn lá niður í kjallarann þar sem hópur sjálfboðaliða á öllum aldri þjónaði við uppvörtun í stórum sal og augljóst var á flestra fasi að hér áttu þau heima og gátu borið höfuðið hátt. Saga Glide er orðin hálfrar aldar gömul allt frá þeim tíma er málefni samkynhneigðra voru málefni San Francisco umfram aðrar borgir. Þarna er langþróuð samstaða með öllu fólki óháð uppruna, kynhneigð, stétt eða heilsufari. Á efri hæðum hússins er margvísleg starfsemi sem lýtur að því að auka félagsauð og efla fólk að völdum í eigin lífi. Þar er m.a. ókeypis heilsugæsla, starf með þolendum og gerendum ofbeldis, félagsráðgjafarþjónusta fyrir fyrrum fanga, leikskóli o.fl. Uppi á þaki á sjöundu hæð er svo gróðrarstöð þar sem ræktaðar eru kryddjurtir fyrir eldhúsið en býflugnabúið sem þar er staðsett sér um hunangsgerðina og í mörgum litlum blómapottum eru jurtir sem börnin á leikskólanum hafa fengið að merkja sér. Greindi Alice okkur frá því að flest þessara barna hefðu sjaldan tækifæri til þess að koma út fyrir borgarmörk og ættu litla reynslu af gróðri og mold. Því væri það hluti af starfinu að leyfa þeim hverju og einu að rækta sína jurt.

Auk fjölbreytts barna- og unglingastarfs eru messur haldnar alla sunnudaga í troðfullri kirkju þar sem jafnt ríkir sem fátækir koma saman. Alice og Erik lýstu fyrir okkur hve áhrifaríkt það vær að upplifa stéttaskiptinguna gufa upp við hverja messu þegar allir tækju höndum saman í bæn og söng. Við gátum auðveldlega séð þetta fyrir okkur í huganum því andrúmsloftið í þessu húsi er með þeim hætti að þótt veröldin sé grimm fyrir utan eru allir uppréttir innan veggja og hver öðrum jafn.

Það er ótrúlega mikið um heimilislaust fólk í Kaliforníu. Leigubílstjóri einn í San Francisco sagði okkur að í mörgum fylkjum væru heimilislausir hvattir til að flytja til stóru borganna í Kaliforníu og jafn vel lagt út fyrir rútuferðinni aðra leið. Þess vegna væru t.d. svona margir heimilislausir í San Francisco. Það er óhjákvæmilegt að hnykkja við, komandi frá norrænu landi, er maður upplifir ástandið sem ríkir á mörgum strætóbekknum hér þar sem fólk hefur komið sér fyrir en er þó alls ekki að fara neitt því það er svo augljóslega strandað í tilverunni. Mér virðist áberandi margt af þessu fólki vera með ómeðhöndlaða geðsjúkdóma eða líkamlegar fatlanir og það er enginn að gera þeim til góða nema þá einhver líknarsamtök eins og Glide sem létta sárasta sviðann. Það virðast býsna margir falla niður á milli samfélagsmöskvanna í hinu bandaríska samfélagi. Ég finn þegar ég hugsa heim til Íslands hvað ég er þakklát fyrir almannatryggingarkerfið sem við eigum og hefur reynst mörgum vel og bið þess að ójöfnuðurinn í landinu okkar verði aldrei með sama hætti og hér blasir við. Ég sendi góðar kveðjur heim og hef ákveðið eftir þessa reynslu að héðan í frá velji ég alltaf ódýrustu gistinguna því að þá er styttra í hið óvænta.