Ein af eftirminnilegum auglýsingum barnæskunnar var um Ajax hreinsilöginn. Til að undirstrika áhrifamátt sápunnar var áhorfendanum fyrst sýnd mynd af grútskítugu eldhúsi þar sem matarleifum og skítugum eldunaráhöldum hefur verið leyft að safnast upp í ógnvænlega stafla.
Inn gengur kona með Ajaxflösku, skrúfar frá tappanum með vel snyrtum höndum og út sprettur hreinsunarandinn í formi stormsveips. Stormsveipurinn fer í alla króka og kima og skilur eftir sig glansandi hreina fleti og röð og reglu á hverjum hlut. Verk vel unnið.
Þessi andi hreinsunar og endurnýjunar sem er dreginn upp í Ajax auglýsingunni kallast á við myndina af þeim undrum og stórmerkjum sem lýst er í postulagsögunni þegar lærisveinarnir eru samankomnir í Jerúsalem á hvítasunnunni. Þá varð „skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru“ (Post 2.2). Stormsveipurinn af himni lagði allt undir sig, gagntók hverja manneskju og gaf innsýn, skilning, hugrekki og kærleika.
Hvítasunnuviðburðinum hefur verið lýst sem fæðingu kirkjunnar - samfélagi þeirra sem trúa á Jesú Krist. Viðburðurinn táknar allt í senn, nýtt upphaf, nýjar reglur, ný viðmið, nýja sýn og ný markmið. Blaðinu var snúið við og kúrsinn tekinn á framtíðina.
Á ýmsu hefur gengið í þau tvöþúsund ár sem lýður Guðs hefur gengið með Drottni sínum í birtu upprisu hans. Kirkjan hefur stundum gleymt því að hún er samfélag þeirra sem þiggja allt sitt í náð frá Guði og frekar gengist upp í því að vera stofnun með embættismönnum sem raðast eftir verðleikum í fastmótaðan valdapýramída. Þegar slíkt hendir ríkir vetur í kirkjunni og ávextir andans eiga erfitt uppdráttar.
Eitt slíkt tímabil fæddi af sér siðbótina í Evrópu, þegar Marteinn Lúther og fleiri komu fram með gagnrýni á kirkjustofnunina í ljósi orðs Guðs sem frelsar og leysir. Mörgum finnst sem nú sé annað slíkt tímabil runnið upp, eftir gerjun samfélags- og samskiptabyltinga, breyttri innsýn í hlutverk og jafnræði kynja og hópa, og aukna vitund um kúgandi og mannfjandsamleg kerfi. Siðbótar er þörf sem tryggir að vinnubrögð og viðmót kirkjunnar sé ætíð í samræmi við grundvallarhugsjónir og viðhorf kirkjunnar sjálfrar.
Hvítasunnan boðar okkur „vor á jörð, sem Drottinn gefur“. Tökum á móti stormsveipi endurnýjunar, sannleika og hreinsunar og vöxum í ávöxtum andans.
Mynd með pistlinum: Martin Abegglen.