Tunglmyrkvi, þú og ég

Tunglmyrkvi, þú og ég

Tunglmyrkvinn fyrir 3 dögum var tignarlegur að sjá, merkilegt fyrirbrigði á himinhvolfinu, nánast eins og teikn á himni, boð um eitthvað stórt og merkilegt. Þetta var fyrsti tunglmyrkvinn í 372 ár, sem varð nákvæmlega á vetrarsólstöðum, þann 21. desember s.l. Hvað getum við lesið úr þessu tákni sem varð á vetrarhimninum?

Þú getur einnig hlustað á prédikunina með því að smella hér.

Gleðileg jól!

Sástu tunglmyrkvann á dögunum? Hver ykkar sáu tunglmyrkvann? Réttið upp hönd!

Tunglmyrkvinn fyrir 3 dögum var tignarlegur að sjá, merkilegt fyrirbrigði á himinhvolfinu, nánast eins og teikn á himni, boð um eitthvað stórt og merkilegt. Þetta var fyrsti tunglmyrkvinn í 372 ár, sem varð nákvæmlega á vetrarsólstöðum, þann 21. desember s.l. Hvað getum við lesið úr þessu tákni sem varð á vetrarhimninum?

Forðum daga sáu þrír menn teikn á himni og þeir fylgdu stjörnunni sem lýsti þeim til Betlehem. Þar fundu þeir barn í jötu og veittu því lotningu, færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru. Gull handa konungi, reykelsi sem tákn um góðilm og bæn til Guðs og myrru sem tákn um greftrun. Barnið sem fæddist fyrir alla átti eftir að deyja fyrir allt mannkyn, táknrænum dauða og rísa upp til ný lífs.

Lífið er undur, lifið er leyndardómur.

Tunglmyrkvinn fangaði huga vísindamanna og vitringa, líka venjulegs fólks og vankunnandi um stjörnufræði og gang himintungla.

Undur eru alltaf að gerast. Fregnir berast af því að geimfar nálgist nú ystu mörk sólkerfis okkar. Þvílíkt undur, þvílíkt afrek vísindanna! Hvað liggur handan þeirra mæra sem afmarka sólkerfið okkar? Alheimurinn er heillandi fyrirbrigði. Hvað er að baki þessu öllu? Er þetta allt tilviljun?

Nei!

Nei, jólin segja að allt hafi tilgang. Jólin segja að að baki þessum heimi sé hugur, skapandi hugur og hönnuður, hugur sem elskar og finnur til, hjarta sem slær með hjartanu þínu, hugur sem birtist í barninu í Betlehem, hugur sem gerðist maður í Jesú Kristi, hugur og hjarta sem slær með öllum mannlegum hjörtum.

Í kvöld ert þú í þessum huga, í huga hans sem elskaði þennan heim svo mikið að hann gaf son sinn til þess að við mættum lifa. Hugsaðu um það, þú sem hefur misst ástvin á árinu sem er að líða. Hugsaðu um það að hugur hans er með þér og geymir hann eða hana sem þú saknar.

Við erum öll í huga hans, sem forðum var barn í jötu, brosandi og blessandi maður á götum og torgum bæði þorpa og borga í Ísrael, manns sem gerði gott og græddi alla sem til hans leituðu. Hann varð síðar deyjandi maður á krossi, kaldur nár í gröf. En svo gerðist undrið. Hann reis upp í dýrð. Hann lifir!

Og þú ert í huga hans. Ljósið hans lýsir þér. Hann er „sólnanna sól“, „frumglæðir ljóssins“, sá sem kveikti hið fyrsta ljós, skapaði himinn og jörð og gaf öllu tilgang – tilgang elsku og friðar. Þú ert í huga hans og hefur verið þar frá öndverðu – sem möguleg verðandi. Og þú varðst! Þú varðst til vegna þess að augu hans sáu þig meðan þú varst ómyndað efni, ævidagar þínir voru ákveðnir og allir skráðir í bók Guðs áður en nokkur þeirra var til orðinn, segir hið konunglega sálmaskáld Biblíunnar. (Sl 139)

Lífið er undur. Lífið er gjöf. Guð gaf þér lífið til þess að þú gefir og glæðir líf og von með öðrum. Til þess hlutverks hlaustu þetta líf.

Ég átti spjall nýlega við mann sem er vel lesinn og hugsar margt og hann spurði mig: Eru orðin í jólaguðspjallinu um frið á jörðu ekki ein róttækustu orð sem fluttur hafa verið? Ég varð hugsi um stund en kinkaði svo kolli. Vissulega eru það róttæk orð að vænta friðar meðal allra manna. Guð setur sér ekki lágt takmark heldur háleitt og fagurt og hann kallar okkur til að fylgja sér að þessu setta marki.

Guð þráir frið á jörðu en við mannfólkið eigum svo erfitt með að höndla friðinn sem lætur á sér standa vegna þess að okkur tekst svo illa að skapa réttlátan heim, sanngjarnt samfélag. En þar sem réttlætið býr þar er friður því friður er og verður ætíð ávöxtur réttlætis.

Við höfum á síðast liðnum misserum heyrt bumbur barðar, séð bálkesti loga, horft upp á átök lögreglu og mótmælenda, heyrt hróp og hark, vegna þess að fólki finnst það hafa verið órétti beitt. Nú þarf að renna upp tími réttlætis og friðar á Íslandi.

Ófriður ríkir í deilum Ísraela og Palestínumanna vegna þess að þar er órétti og ofríki hins volduga beitt gegn hinum veikari aðila. Þar sem óréttur er þar þrífst ekki friðurinn, þar er ófriður. Friður er og verður ávöxtur réttlætis. Einnig þar um slóðir þarf að renna upp tími réttlætis og friðar.

Vonandi búum við sem hér komum saman við réttlæti í okkar nánast umhverfi. Vonandi er friður í hjörtum okkar í kvöld, kæru jólabörn, sem komið hafa í Neskirkju til þess að fylla hjörtun af hinu góða.

Nú skín ljós jólanna á okkur öll. Stystur dagur er að baki og nú hallar sér heimsskautið kalda aftur að sólu. Það birtir smátt og smátt. Og þá skiptir máli að taka við ljósinu og birtunni sem berst frá sólinni og frá honum sem er sól allra sólna, ljós allra ljósa.

Hvar liggja mörk hans? Til er skilgreining á Guði með orðum rúmfræðinnar sem ég hef mætur á og er svona:

Guð er hringur hvers miðja er allsstaðar og ystu mörk hvergi.

Guð er óendanlegur að eðli og líka í kærleika sínum. Guð er kærleikur, sagði Jóhannes postuli. Skilgreining hans á Guði er einföld og tær. Aðeins þrjú orð: Guð er kærleikur. Þar með er öll tilveran sett í nýtt samhengi. Lífið á uppruna sinn í elsku og því er stefnt til elsku, réttlætis og friðar.

En hvað getur tunglmyrkvi kennt okkur?

Í sköpunarsögu Biblíunnar segir að Guð hafi sett tvö stór ljós á himininn, annað til að ráða degi en hitt nóttu. Tunglið endurspeglar ljós sólarinnar. Tunglið horfir við sólu eins og barn horfir í augu og ásjónu móður og föður og finnur tilgang og öryggi í brosi varanna og góðvild augnanna. Sólin vermir allt. Persneska skáldið Hafiz, fylgjandi islam, sem upp var á 14. öld sagði í ljóðinu Sólin segir aldrei:

Jafnvel eftir allan þennan tíma segir sólin aldrei við jörðina

„Þú skuldar mér.“

Sjáðu hvað gerist með elsku sem þessa

Hún lýsir allan himininn

Innan allra trúarbragða skynjar fólk þetta undur lífsins, þessa miklu gjöf sem ljósið er og veit að að baki öllu þessu eru hugur, mikill og stór hugur. Sólin skín og hún hækkar á lofti, varpar geislum sínum á jörð og tungl, gefur og gefur af örlæti sínu og elsku. Og við erum í stöðu tunglsins, kölluð til þess að þiggja ljósið og endurvarpa því ásamt elsku himinsins.

Við erum minnt á það að í þessum heimi elskunnar eru líka él og dimmviðri, skuggar og skelfing. Þess vegna erum við kölluð til að vera endurskin af ljósi Guðs, eins og tunglið varpar birtu sólar um dimmar nætur. Tunglið getur myrkvast þegar jörðin skyggir á það. Með sama hætti getur hið jarðneska myrkvað okkar sálarspegil og deyft endurskin hins himneska ljóss sem á að berast frá okkur. Hvað myrkvar okkur nú á tímum? Hvað myrkvar íslenska þjóð á tímum erfiðleika og mótbyrs? Er það okkar eigin breyskleiki og synd, vænisýki og dómharka? Hvað myrkvar okkar mánaskin? Er það reiði og vonbrigði, hatur í garð hins góða, andstaða gagnvart kirkju og kristni? Öfund og óvild?

Hvers þarfnast þjóð okkar nú?

Þarf hún meiri tunglmyrkva og minna ljós? Meiri órétt og þar með minni frið? Minni áhrif kristinnar trúar og meira guðleysi? Þarfnast þjóðin gerilsneyddra samskipti þar sem enginn má vita hverju náunginn trúir? Viljum við hólfað samfélag þar sem enginn kann skil á hugarheimi annars, hvorki sið hans né trú? Hvers þarfnast börnin okkar? Kaldrar vísindahyggju í guðlausri veröld?

Hvers þarfnast þú?

Þú veist svarið.

Þú sem hefur lagt leið þína hingað veist hvers þú þarfnast og þú hefur fundið það. Láttu ljósið skína og lýsa, berðu birtuna með þér og þú munt finna að í því hlutverki ertu Guðs barn og við þér horfir ásjóna hlý og tær, ásjóna almættisins, sem elskar þig og er allsstaðar nálæg. Verkefni þitt er að finna leiðir til þess að láta ljós þitt skína. Þú skalt hefjast handa strax í kvöld því nú er stóra ljósið svo skært og þess vegna getur litla ljósið þitt lýst enn betur en oftast áður. Í kvöld er enginn tunglmyrkvi. Nú skína ljósin öll – líka ljósið þitt.

Ég lýk þessum þönkum mínum á aðfangadag með ljóði sem ég þýddi eftir írska skáldið og guðfræðinginn, John O’Donohue, sem er nýlátinn í blóma lífsins. Ljóðið heitir Blessun eða Beannacht á gelísku:

Daginn sem birðarnar sliga herðar þínar og þú missir fótanna, megi moldin þá dansa og styðja þig.

Og þegar augu þín kulna bak við glerið grátt og Móri missis smýgur sál þína, megi þá hjörð lita - indigó blár, rauður, grænn og heiðblár - vekja þig til lífs í yndishögum.

Þegar birðingurinn trosnar í húðkeipi hugans og djúpið dökknar undir þér, megi þér þá skína yfir vötnin gullinn tunglskinsstígur og lýsa þér heim.

Megi jörðin ala önn fyrir þér, tærleiki ljóssins verða þinn, flæðileiki hafsins færast þér í fang, vernd áa þinna og edda fylgja þér.

Og megi svo hægur andvari þessara orða, umvefja þig, ósýnilegum hjúpi umhyggju fyrir lífi þínu.

Góður Guð gefi þér og öllu þínu fólki gleðileg jól og birtu á nýju ári.

Gleðileg jól í Jesú nafni.

Gleðileg jól!