Tíu kristin heilræði í kjörklefanum

Tíu kristin heilræði í kjörklefanum

Á laugardaginn kemur göngum við Íslendingar til alþingiskosninga. Hvað og hverja við kjósum fer eflaust eftir ýmsu, pólitískri skoðun og innrætingu og grunngildum svo sem trúargildum.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
09. maí 2007

Á laugardaginn kemur göngum við Íslendingar til alþingiskosninga. Hvað og hverja við kjósum fer eflaust eftir ýmsu, pólitískri skoðun og innrætingu og grunngildum svo sem trúargildum.

Fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum haustið 2004 settu Samtök kirkna í Bandaríkjunum, National Council of Churches fram tíu heilræði fyrir kristna menn til að vega og meta frambjóðendur og flokka. Þessi tíu heilræði bandarísku kirkjusamtakanna eru fróðleg fyrir íslenskt kirkjufólk sem vill meta íslenska stjórnmálaflokka út frá kristnum grunngildum. Heilræðin tíu eru þessi:

  1. Stríð er andstætt vilja Guðs: Enda þótt stundum geti verið réttlætanlegt að beita valdi sem hinsta úrræði þá blessar Kristur friðflytjendur, sbr. sæluboðin. Við þörfnumst leiðtoga sem sækjast eftir friði með réttlæti og leita lausna á ágreiningi á friðsaman hátt.
  2. Guð kallar okkur til að lifa í samfélagi sem einkennist af friði og samvinnu: Við þörfnumst leiðtoga sem vilja byggja upp samfélög okkar og hindra ofbeldi.
  3. Guð skapaði okkur hvert fyrir annað – öryggi okkar hvílir á velferð náunga okkar á heimsvísu. Við þörfnumst utanríkisstefnu sem byggir á samvinnu og hnattrænu réttlæti.
  4. Guð kallar okkur til að vera málsvarar hinna veiku. Við leitumst við að minnka bilið milli ríkra og fátækra.
  5. Sérhver manneskja er sköpuð í mynd Guðs og hefur skilyrðislaust gildi. Við vinnum að jafnri stöðu kynþátta og jöfnum tækifærum fyrir alla.
  6. Jörðin heyrir Guði til og er góð í sjálfri sér. Við vinnum að réttlæti í umhverfismálum og að axla ábyrgð sem ráðsmenn sköpunarverksins.
  7. Ritningarnar kenna kristnum mönnum að bjóða útlendinga velkomna. Við þörfnumst sanngjarnrar löggjafar um innflytjendamál og að vera laus við útlendingahatur eða hræðslu.
  8. Þeir sem fylgja Kristi eru kallaðir til að lækna sjúka. Við viljum nægjanlega, ódýra og aðgengilega heilsuvernd fyrir alla.
  9. Við leitum eftir betrun en ekki endurgjaldi í sakamálum.
  10. Við viljum jöfn tækifæri til menntunar og nægjanlega fjármuni til að styðja við börn og barnafjölskyldur.

Frekari upplýsingar um kosningaheilræði bandarískra kirkna er að finna á slóðinni: http://www.ncccusa.org/electionyearprinciplesguide.pdf