Við heyrðum ópin í stigaganginum.
Hjálp, hjálp, hann ætlar að drepa mig!
Við hlupum fram og störðum á konuna sem lá í stiganum í bleikum náttkjól. Dóttir hennar, barn að aldri stóð hjá og kjökraði.
Fullorðna fólkið hljóp niður til konunnar en bað okkur unglingana að hringja á lögregluna. Konan var móð og með ekka. Álengdar heyrðum við að maðurinn hennar væri drukkinn og hún væri hrædd um líf sitt.
Við fórum öll inn og biðum eftir lögreglunni. Hún kom og tók skýrslu. Svo spurði lögreglumaður hvort konan færi fram á að eiginmaðurinn yrði handtekinn.
Hvernig spurning var það þegar hann hafði verið að ganga í skrokk á henni?
Verð ég að gera það? hvíslaði hún. Getið þið ekki bara tekið hann?
Nei, það gátu þeir ekki. Hún varð að biðja um það.
Hún þorði ekki. Ekki þó að allir aðrir biðust til að hjálpa henni.
Nei, þá kemur hann bara heim á morgun og drepur mig þegar hann sér að ég bað um þetta.
Löggan fór.
* * *
30 árum síðar rifjaðist þessi atburður upp fyrir mér þegar ég heyrði Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, tala um lagafrumvarp er liggur fyrir þinginu. „Austurríska leiðin,“ sagði hún og ég sperrti eyrum. Því að eitt af því sem sú leið tryggir er heimild lögreglu til að fjarlægja ofbeldismann af heimili sínu og banna heimsóknir hans á heimilið og í nánasta umhverfi í tíu daga til þrjá mánuði. Markmiðið var að vernda fórnarlömb ofbeldisins en jafnframt fylgja félagsleg úrræði til að ná til ofbeldismannsins í öðru umhverfi og hvetja hann til að takast á við sinn vanda.
Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, lagði ítrekað til að þessi leið yrði tekin upp hér á landi en hafði ekki erindi sem erfiði.
Hvetjum öll þingmenn til að styðja þetta frumvarp núna.
Austurríska leiðin hefði skipt sköpum hjá konunni á bleika náttkjólnum. Hún á eftir að skipta sköpum fyrir fjölda kvenna og barna sem verða fyrir ofbeldi á heimilum.
25. nóvember hófst 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Þetta átak hefur verið haldið hér á landi um árabil og taka fjölmörg félagasamtök þátt í því, þar á meðal Þjóðkirkjan.
Árið 2003 gaf Þjóðkirkjan út rit Lúterska heimssambandsins: Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Ritið er upplýsinga og framkvæmdáætlun til að nota í fræðslustarfi og sálgæslu í kirkjunni. Því var fylgt eftir með námskeiðum. Biskup Íslands minnti þetta rit í setningarræðu við upphaf síðustu prestastefnu og hvatti presta til að lesa það og kynna í söfnuðum sínum og sagði: „Þetta er verkefni sem verður ávallt að vera á dagskrá.“
Tökum virkan þátt í því að lyfta fram þessu efni og þrýsta á um umbætur. Fylgjum eftir málum þar sem við getum og nýtum það efni og þau úrræði sem við höfum. Látum 16 daga átakið minna okkur á það.