Ísrael 70. ára – fyrsti hluti

Ísrael 70. ára – fyrsti hluti

Stofnun Ísraelsríkis. Þann 14. maí árið 1948 fæddist ný þjóð. Athöfnin fór fram í miklum flýti og henni hafði verið haldið kyrfilega leyndri.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
04. júlí 2019

Stofnun Ísraelsríkis

Þann 14. maí árið 1948 fæddist ný þjóð. Athöfnin fór fram í miklum flýti og henni hafði verið haldið kyrfilega leyndri. Þeir sem að henni stóðu töldu að Tel Aviv safnið á Rothchild götu í Tel Aviv, væri nokkuð öruggur staður, en það var mollulegur staður í miðborginni. Boð um að taka þátt í athöfninni voru send samdægurs og stólar voru fengnir að láni frá nærliggjandi kaffihúsum. Fátæklegu ræðupúlti var komið fyrir framan við stólana og á bakvið það hengdu menn upp mynd af upphafsmanni Síonismans, Austurríkismanninum Theodor Herzl. En það var hann sem fyrstur hafði sett fram hugmyndina um ríki fyrir gyðinga.

Fyrir framan safnið safnaðist saman hópur fólks. Það hafði frést að eitthvað stæði til. Einhver tengdi hátalarakerfi við púltið. Og svo kom virðuleg limmósína akandi upp að hótelinu. Út úr henni steig stuttur maður, ekki nema 1.57 cm að hæð. Það var leiðtogi Síonista David Ben- Gurion sem þrammaði hröðum skrefum upp að púltinu.

Á slaginu kl.16.00 sló Ben-Gurion fundarhamri í borð við hliðina á púltinu og stakk upp á því að sunginn yrði sálmurinn Hatvika, sem síðar varð þjóðsöngur Ísraels.

“Ég mun nú flytja sjálfstæðisyfirlýsingu ríkisins fyrir ykkur” sagði hann í hljóðnemana sem sendu orð hans gegnum útvarpið um alla Palestínu.

“Við lýsum því hér með yfir að ríki gyðinga, Ísraelsríki, hefur verið stofnað”. Aftur sungu menn Hatvika og Ben- Gurion hrópaði: “Ísraelsríki hefur verið stofnað. Þessum fundi er slitið”.

Aðdragandi stofnunar hins nýja Ísrael

Eftir að hafa verið á flótta um heiminn í ein 1800 ár, oft ofsótt og hrakin, höfðu gyðingar aftur eignast föðurland. Vandinn var aftur á móti sá, að á því landi sem gyðingar gerðu tilkall til, höfðu í hundruðir ára búið arabar, sem ekki ætluðu sé að láta frá sér landið sitt, borgir og þorp, af fúsum og frjálsum vilja. Og til að gera málið enn flóknara höfðu evrópsku stórveldin stýrt öllu þessu svæði síðan í lok Fyrri heimsstyrjaldar, skipt því á milli sín í áhrifasvæði og búið til ný ríki þar, algerlega eftir eigin geðþótta. Áður höfðu Tyrkir ráðið landinu um aldir en þeir misstu það í hendur Frakka og Englendinga í lok fyrra heimsstríðsin. Tyrkir höfðu náð landinu af aröbum á 14. öld. Krossfarar héldu Palestínu frá 1099 -1185 en misstu yfirrráð sín endanlega árið 1271. Arabar stýrðu Jerúsalem og Palestínu frá 648 til um 1400, en Rómverska ríkið réði því frá árinu 135 og til ársins 648, fyrst sem Rómverska ríkið en síðar sem Bysantíum. Um tíma héldu einnig landinu Persar, Kúrdar, Mamlúkar frá Egyptalandi og Mongólar. En það er nú önnur saga.

Frakkar stýrðu Sýrlandi og Bretar Palestínu sem svokölluðum “mandates” eða umboðum eftir WW1 – Fyrri heimsstyrjöld.

Það var sömuleiðis eftir  WW1 sem Þjóðaráðið, fyrirrennari Sameinuðu Þjóðanna, ákvað að skapa ætti “þjóðarheimili í Palestinu fyrir gyðingaþjóðina”. Sameinuðu þjóðirnar samþykktu síðan árið 1947 að skipta Palestínu í tvö ríki, eitt fyrir araba og eitt fyrir gyðinga. Afleiðingin var styrjöld milli araba og gyðinga. Gyðingar samþykktu skilmála Sameinuðu þjóðanna en arabar höfnuðu þeim. Og það voru ekki aðeins Palestínuarabar sem höfnuðu þeim, heldur réðust fimm nágrannaþjóðir á Ísrael árið 1948, um leið og ríkið hafði verið stofnað. Ísraelsmenn sigruðu í því stríði og stríðið varð aðeins hið fyrsta í röð styrjalda, átaka og hryðjuverka sem hafa sett mark sitt á sögu þessa landsvæðis síðan. Enn virðist enginn friður í vændum.