Guð hvað mér líður illa

Guð hvað mér líður illa

Enginn má predika, jafnvel ekki þegar hann predikar. Það hefur meiri áhrif að spyrja rétt en að svara rétt. Svörin sitja eftir í hugskoti þess sem tekur við, stundum jafnvel enn fleiri spurningar.

„Guð hvað mér líður illa.”

Þetta er yfirskriftin að sýningu Ragnars Kjartanssonar í Hafnarhúsinu. Hún hefur að geyma verk frá tímabili í lífi listamannsins. Þetta er einnig óður til listarinnar og mannsins sjálfs. Við Óli, sonur minn, komumst í það minnsta að þeirri niðurstðu eftir að hafa barið dýrðina augum og lagt við hlustir. 17 ára ungmennið er vel heima í öllu því áreiti á skynfærin sem nútíminn býður upp á og þarna fá þau líka sitt. Ekkert er gefið eftir í litum og tónum.

Andvarp

Gullklædd kona á gylltu sviði, umkringd gullþráðum slær E-moll á rafmagnsgítar með jöfnu millibili en það er bara forsmekkurinn. Þegar gengið er inn berst kliðurinn og iðandi myndverk úr öllum áttum.

Það fyrsta sem fyrir augun ber er spýtnabrak og marmaraskjöldur. Þetta eru rústir að stúku Hitlers úr Admiralleikhúsinu í Berlínarborg á skjöldinn er greypt: „Ég hringdi í Helga Björns, hann útvegaði mér stúku Hitlers”. Þarna blasir hún við gestinum, hrunin til grunna, gamall vitnisburður um illsku og hroka. Og samhengið við hinn alþýðlega íslenska dægurlistamann afhjúpar hið mikla fall hégómans. Helgi Björns stígur þarna inn á svið mannkynssögunnar á óvæntan hátt!

Þar er líka tónninn sleginn: „Guð hvað mér líður illa.” Yfirskriftin er eins og andvarp. Manneskjan horfir í kringum sig eftir að hafa brotist áfram, puðað og stritað í leit að háleitu markmiði og skynjar að allt erfiðið var til einskis. Setningin gæti verið tekin úr Predikaranum í Gamla testamentinu sem lýsir erfiði mannsins undir sólinni, leit hans að lífsgæðum, frama og velgengni en spekin kennir að allt verður að endingu eyðingu að bráð. Predikarinn andvarpar að sama skapi: „Allt er hégómi. Sannarlega, allt er hégómi.”

Hitler, þessi persónugerfingur hins versta sem vestræn menning hefur skilað af sér, sat í þessi stúku á sínum tíma. Líklega hafði hann orð á gæðum sýningarinnar við hana Evu eða vini sína, Göbbels og Göring. Ætli hann hafi ekki trallaði með fingrunum á þessa sömu brík, undir tónum Wagners.

Og þarna lá hún sundurtætt og úrvinda, sem hluti af stærra verki sem við Óli leyfðum okkur að túlka sem óðs til hnignunar og hrörnunar. Áhorfandinn hefur fullt leyfi til þess. Sjálfur er listamaðurinn trúr sinni köllun og sínum tíma. Enginn má predika, jafnvel ekki þegar hann predikar. Það hefur meiri áhrif að spyrja rétt en að svara rétt. Svörin sitja eftir í hugskoti þess sem tekur við, stundum jafnvel enn fleiri spurningar.

Predikunin innra með okkur

Þess vegna verður sýningin margbrotnari og merkilegri fyrir vikið. Að ganga úr einum sal í annan, hlýða á dauðþreytta tónlistarmenn á skjánum flytja verk sem þeir hafa endurtekið klukkustundum saman. Sjá hversdag og hversdagsmunað í lífi vestrænnar millistéttar sem verður eins og listaverk í ramma uppi á vegg. Horfa á Hörpuna brenna – já, hún brann. Maður þurfti að rifja það upp að mitt í ömurleika hrunsáranna þegar allt varð Íslands óhamingju að vopni – þá tókst þeim að kveikja í grindinni að Hörpu! Ragnar dreif sig á svæðið og tók þetta upp á myndband og gerði að listaverki.

Svona mætti áfram telja. Hin guðlega vanlíðan sem sýningin dregur heiti sitt af kallar fram hugrenningar í kolli guðfræðings. Sjálfur mótaðist Ragnar í þjónustu sinni í kaþólsku kirkjunni. Hann tók virkan þátt í helgihaldinu þar, sem ungmenni. Hann þekkir ritúal hins endurtekna hvernig eitt leiðir af öðru og messan heldur áfram í þeim takti sem verið hefur frá örófi alda. Messufórnin, þar sem vín og brauð umbreytist í blóð og líkama Krists, fyrir mátt stofnunar, embætta, formfestu og siða var hugmynd sem átti eftir að kljúfa vesturkirkjuna í fylkingar. Og í gær kom fram í fréttum að Vatíkanið hefur úrskurðað að brauðið má ekki vera glúteinlaust!

Takturinn skapar ákveðna helgi og honum fylgir vald. Hér er allt hluti af stærra samhengi. Prestar og kórdrengir fylgja formi. Listamennirnir sem skreyttu helgidóminn gerðu það að sama skapi. Þessi listamaður þekkir líka dimma skuggana sem leyndust að baki gullinu, tónunum og ilmi reykelsanna.

„Guð hvað mér líður illa.”

Kain

Leyndist sagan af Kain og Abel í þessum margbrotnu verkum? Í árdaga hafa menn yfir sviðið eins og listamenn gera. Hvernig mátu þeir líf og dauða mannsins? Niðurstaðan varð meðal annars þessi frásögn sem er uppfull af guðlegri angist og sársauka. Eins og hæfir frásagnarmáta hinnar helgu bókar býður sagan upp á túlkun. Kain, er maður eirðarleysis. Hann fremur ódæðið sem greint er frá í sögunni. Hann myrðir bróður sinn því vanlíðan hans og afbrýðisemi lét hann ekki una við sitt.

Einhverjar heimildir eru fyrir því að nafnið „Kain” sé dregið af hebresku sögninni „kana” sem merkir að öðlast. Um leið tengist nafnið eignarrétti, græðgi og jafnvel sjálfri syndinni. Abel, á hinn bóginn, var í augum kristinna manna álitinn fyrsti píslarvotturinn. Hann galt þess að Guð leit til hans og fórnar hans með velþóknun. Fórn hans var endurtekin í frásögnum sem merki um það sem átti að vera fullkomið en var það svo sannarlega ekki.

Þessi lýsing er dregin upp á eðli mannsins í Biblíunni og kaldhæðnin leynir sér ekki þegar Kain svarar spurningum Guðs: „Ber mér að gæta bróður míns”. Upp úr þessu fer sagan inn á ófyrirséðar brautir, ef við getum sagt svo um jafn þekkta frásögn. Annars vegar er hinn fyrsti morðingin gerður útlægur, varpað út á hrjóstruga melana þar sem hann er dæmdur til að ráfa um alla tíð. Og hins vegar fær hann merkið á ennið, hið helga tákn sem gerir hann ósnertanlegan í augum Guðs og náungans – já, þótt þeir ættu að vera einir í veröldinni fer ekki á milli mála og það undirstrikar allegorískan tón sögunnar að bræðurnir búa í samfélagi manna.

Dæmdur syndari verður hjúpaður helgi Guðs.

Byggingarlist og siðferði

Af því að ég var með söguna lifandi í huga mér er ég gekk um sali Hafnarhússins þá staldraði ég við málverk af húsunum á landtökubyggðum á Vesturbakkanum í landinu helga. „Byggingarlist og siðferði” er yfirskrift þess hluta sýningarinnar og það sem virðist í fyrstu vera hefðbundið íbúðarhverfi í sólríkri borg reynist vera merki um mannlegan harmleik, valdníðslu og stríðsátök. Eftir að skriðdrekarnir höfðu lokið sínu verki komu jarðýturnar, og svo smiðirnir. Og áður en varði var eins og allt sé komið í fastar skorður: Blóm í kerjum og bílskúrar. Hver gætir bróður síns? Eru mennirnir ekki í stöðugri baráttu? Stúka Hitlers og sólríkar svalirnar á húsunum? Eru tengsl þar á milli? Má segja það sama um hversdaginn okkar?

En aftur. Hver predikar? Er það ekki að endingu spámaðurinn sem predikar, ekki þessi úti í óbyggðum eða á torginu, heldur sá sem býr í hjörtum okkar sjálfra. Hvað vakti fyrir þeim sem leiddu Jesú fram fyrir konuna bersyndugu? Var það ósk um eindregna afstöðu? Átti hann ekki að úrskurða um sekt hennar? Dæma hana eða sýkna? Áhrifamesta ræðan kom ekki frá vörum frelsarans. Hún ómaði í hjörtum þeirra sem þarna stóðu allt um kring, reiðubúnir að færa þá fórn sem lögmálið bauð.

Já, við getum auðvitað lesið hana sem vitnisburð um þvermóðsku, refisgleði og grimmd þeirra sem eiga í orðaskiptum við Krist í sögunni. Það eru hinir títtnefndu farísear og fræðimenn sem svo oft eru söguhetjur í frásögnum af Jesú. Í raun snýst sagan ekki eingöngu um illsku, ekki frekar en sýning Ragnars. Hún fjallar fremur um þá sýn sem við höfum á lífið, Guðstrúna og auðvitað þetta hugtak sem sagan hefst og endar á, sjálfa syndina. 
Í augum Krists var syndin sem konan hafði drýgt - ekki neitt sem greindi hana frá öðrum mönnum. Því fór raunar fjarri. Öll erum við breysk og ófullkomin. Syndin – í þessum skilningi er hún þess vegna eitthvað sem við getum minnt okkur á að tilheyrir mennskunni í föllnum heimi.

Hrjóstrugir melar lífsins

„Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.” Orð þessi höfðu mikil áhrif og konan slapp við grimmilega refsingu. Mér finnst eins og sami boðskapur hafi einnig búið í huga listamannsins sem ávarpaði Guð í vanlíðan sinni. Og um leið býr frjókorn listarinnar í þeim átökum þar sem erfiðleikarnir leiða okkur fram fyrir spegilinn. Við lítum í eigin barm hvort heldur það er hinn upphafni hversdagur í lífi vestrænnar menningar, hernumið land, hrun stórveldis eða glitrandi tjöld og tónar. Predikunin fer fram í huga okkar sjálfra sem erum eins og Kain í sögunni – heilagir syndarar á einkennilegri vegferð um þá hrjóstrugu mela, sem lífið sjálft.