Þegar hið fráleita rætist

Þegar hið fráleita rætist

Geðlæknirinn spurði: Hvort vilt þú frekar vinna 100 milljónir í lottói eða slasast alvarlega í umferðaslysi. Hún hljómar svo fáranlega þessi spurning.

Hefjum upp augu og hjörtu með, hjálpræðisstund vor er nærri. Jesú vér fáum sjálfan séð, sorg öll og kvíði er þá fjarri. Senn kemur eilíf sumartíð, sólunni fegri, er ljómar blíð Drottins í dýrðinni skærri.

Hjálpræðisstundin er í nánd. Vonin umvefur huga og hjarta. Aðventan, sem er í garð gengin, er tími mikillar vonar. Þrátt fyrir vetur og kulda, myrkrið og freðna jörð, þá er eftirvænting í loftinu, eitthvað stórt og fallegt í vændum sem hlaðið er ljósi, fegurð og kærleika. Og við mótum umhverfi okkar með skreytingum og reynum að glæða framkomu með góðum verkum. Við erum að skapa von með gróanda og grósku til vitnis um gleði og þakkargjörð.

Þakklæti hefur ekki átt upp á pallborð umræðna í dagsins önn undanfarnar vikur. Þrátt fyrir tímabundnar efnahagsþrengingar, þá eigum við svo margt undursamlega gott sem við getum glaðst yfir, þakkað og notið. Að njóta lífsins verður aldrei mælt á efnislegum mælikvörðum einum. Það staðfestir reynslan þín þegar þú horfir yfir þinn farinn veg. Og það finnum við vel þegar barn er borið til skírnar. Þá er þakklæti efst í huga samofið von og bæn um að barni og fjölskyldu þess megi farnast vel. Og hvergi ristir kærleikur dýpra en í umhyggju fyrir ómálga barni sem allt á undir fórnfúsum faðmi, fegurðin sem geislar af vonarríkum og saklausum augum barnsins og samfögnuðurinn í vináttu, að við stöndum saman um að koma barni til þroska og heilla. Á árum áður voru börnin lífeyristrygging foreldranna og bæri að sjá foreldrum sínum farborða eins og endurgjald fyrir uppeldið þegar ellin færðist yfir. Nú eru breyttir tímar. Enn er það verðmætamat í fyrirrúmi, að börnin verðskuldi alltaf það besta af því að kærleikur í þeirra garð verður aldrei lagður á vogarskálar fjármuna.

Í blaðaviðtali fyrir nokkrum vikum, þá spurði geðlæknirinn: “Hvort vilt þú frekar vinna 100 milljónir í lottói eða slasast alvarlega í umferðaslysi”? Hún hljómar svo fáranlega þessi spurning. Enginn getur óskað sér þess að verða fyrir slysi og allir sem spila í lottói vilja stærsta vinninginn. En lífið er svo sérstakt og hið óskiljanlega getur að lyktum orðið niðurstaðan. Páll postuli sagði, að það sem maðurinn vildi, það gerði hann ekki, og það sem maðurinn gerði vildi hann ekki. Oft má finna þessari fráleitu líkingu stað. Enginn vill stríð, en það er stríð í heiminum, enginn vill fjármalakreppu, en hún ríður yfir, heldur vill enginn að slysin skelli á, en þau verða.

Geðlæknirinn vísaði til ítarlegrar rannsóknar á högum margra sem unnið hefðu stórt í Lottói eða slasast alvarlega í umfreðaslysum, sem leiddi í ljós að á tveimur árum liðnum bjó hinn slasaði í fleiri tilfellum við meiri hamingju og farsæld en vinningshafinn í lottóinu. Vinnigshafinn kvartaði undan því að peningarnir hefðu í raun stuðlað að félagslegri einangrun og veikt raunveruleg lífsgæði, vakið ótta og kvíða um hvernig peningunum ætti að eyða eða spara, fólk hafi breytt hegðan sinni í framkomu við sig og ætlast til annars af sér en áður gilti. Verðmætamat og gildismat hefði allt ruglast og það sem áður þurfti að hafa mikið fyrir að kaupa, var nú auðfengið, en gaf lítið af sér í hamingju. Hinn stóri vinningur breytti miklu og því miður ekki öllu til góðs þegar upp var staðið. En hinn slasaði fann fyrir einstakri samstöðu og umhyggju, einlægri og fórnfúsri vináttu sem hann hafði ekki fyrr upplifað svo sterkt. Allir vildu allt fyrir hann gera svo hann næði heilsu og styrk á nýjan leik. Lífsgæði voru vakin til verka sem voru meiri en nokkrir peningar gátu vegið og mælt.

Aðventan ber með sér álíka skilaboð þar sem áherslan er á kærleika og von, vináttu og umhyggju. Fagurt mannlíf er sett í forgang og hlúð að mörgu sem stuðlar að ást og fegurð, góðvild og fórnfýsi. Þetta er engin tilviljun eða kærkomin uppfinning viturra manna. Hér er Guð að verki. Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf sinn einkason svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Þetta er tilefnið sem gefur aðventunni innihald. Það er boðskapur kristinnar trúar sem helgar meðalið. Þess vegna er aðventa. Við viljum lyfta boðskap trúarinnar um kærleika, von og frið í forgang, Við erum að undirbúa jól af því að við ætlum að fagna fæðingu frelsarans, Jesú Krists. Og í þeim undirbúningi erum við að játast boðorði Hans um að elska Guð og elska náungann.

Í veraldlegum skilningi var líf Jesú erfitt og stöðug barátta. Hann fæddist við bágbornar aðstæður og foreldrar urðu að flyja land af því að setið var um líf hans. Boðskapur Jesú, verk og framkoma naut ekki velþóknunnar yfirvalda, alslaus var hann af efnislegum gæðum og upp á aðra kominn um daglega framfærslu. Hann var dæmdur til að deyja á krossi eins og afbrotamaður. En honum til heiðurs höldum við samt gleðileg jól og viljum leggja okkur fram af mætti svo sá fögnuður megi verða sem mestur og umgjörðin öll hæfa tilefni og innihaldi. Engum sem undir krossi Jesú á Golgata stóð gat látið sér detta það í hug né önnumköfnu samferðafólki á skrásetningarhátíð í Betlehem á fæðingardegi hans? Svo fráleitt þá og fjarstæðukennt. Að þessi maður, Jesús, trésmiðssonur frá Nasaret, sem ekki einu sinni skrifaði eina bók né eftir hann sjálfan varðveittur einn einasti stafur, skuli hafa markað dýpri spor í líf og siði fólks, en nokkur annar maður. Hér hefur hið óskiljanlega orðið að veruleika. Það sem enginn sá fyrir um varð að niðurstöðu, ekki allt í einu skyndilega, heldur í tímans fyllingu.

Þannig geta málefni og ýmsar uppákomur í lífinu þróast allt öðruvísi en nokkur maður hafði getað spáð fyrir um, ekki einu sinni þá viljað, en oft sem betur fer orðið til heilla og farsældar. Það sérð þú þegar þú horfir til baka í þína eigin sögu. En það er dýrkeypt, að það skuli verða slys, áföll og sorglegir atburðir sem að lyktum opni augu fólks fyrir því hvað þyngst vegur og skiptir mestu máli í lífinu. Þess vegna tala margir núna um það að snúa fjarmálakreppu til góðs og læra af reynslunni.

Aðventan og boðskapur jóla er hvorki slys né tilviljun, ekki einu sinni einstæður lottovinningur, heldur sóknarfæri til að rækta hin fegurstu gildi bæði í orði og verki.

Vonin er að sönnu mikill máttur sem tendrar græðandi ljós. Sigur vonarinnar er alltaf borinn uppi af kærleika og þolgæði, sem ekki gefst upp. Um það vitnar sagan um samband Guðs og manns. Hvað sem á daga þess sambands drífur, þá gefst Guð ekki upp. Vonin hans um manninn er óstöðvandi björt og háleit, sem segir: “Komið til mín. Hjá mér er hvíld og friður.”

Í þeirri sögu voru sérstakir atburðir sem skilum skiptu. Fæðing Jesú og upprisa Hans frá dauðum eru hornsteinar hjálpræðis Guðs við mannlífið. Það er bjargið sem kristin trú hvílir á og mótar siði, dagfar og gildismat okkar. Og þar er óbrigðul reynsla af von, sem gefst ekki upp, heldur sigrar. Grunntónninn er óbilandi traust á Guði og vináttu samferðafólks með kærleika í fyrirrúmi. Þess vegna er aðventan tími þar sem hjálpræðið opinberast eins og aflgjafi vonar til heilla. Amen.

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“

Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:

Segið dótturinni Síon:

Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.

Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ Matt. 21.1-9