Inntak prestsvígslunnar

Inntak prestsvígslunnar

Að vera prestur er að gera mönnunum ljósa nærveru Krists, að vera erindreki hans, að miðla með sýnilegum og heyranlegum hætti athöfn og orðum hans. Þetta er í senn ofurmannlegt hlutverk og ofur mannlegt verkefni. Miðað við hann sem hefur allt vald á himni og á jörðu hlýtur þetta að vera hverjum manni ofvaxið en í ljósi fagnaðarerindisins er þetta verkefni sérhvers skírðs manns.
fullname - andlitsmynd Jakob Ágúst Hjálmarsson
08. janúar 2003

Að vera prestur er að gera mönnunum ljósa nærveru Krists, að vera erindreki hans, að miðla með sýnilegum og heyranlegum hætti athöfn og orðum hans. Þetta er í senn ofurmannlegt hlutverk og ofur mannlegt verkefni. Miðað við hann sem hefur allt vald á himni og á jörðu hlýtur þetta að vera hverjum manni ofvaxið en í ljósi fagnaðarerindisins er þetta verkefni sérhvers skírðs manns.[1]

Á grunni hins almenna prestsdóms allra skírðra eru sum okkar tekin frá til þjónustu við söfnuð Krists án annarar aðgreiningar en þeirrar sem felst í hlutverkinu. Það er Kristur sjálfur sem stendur á bak við þessa ráðstöfun svo sem greina má af útvalningu postulanna og því hlutverki sem þeim er falið.

Verðleikar embættisins felast í þjónustunni: Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr. (1Kor 4:1-2) Persónulegt ágæti er þáttur í kölluninni, felur í sér hæfni til þess að inna þjónustuna af hendi og það eru allt lán frá Guði sem veitt er til ávöxtunar. Trúmennskan þá eina hrósunarefnið.

Þegar lesið er yfir vígsluheitið og vígslubréfið er auðséð áherslan á trúmennskuna. Hún er raunar enn meira áberandi en fyrirheitin um hjástoð heiulags anda sem er mikilvæg huggun á þeim stundum sem við finnum til smæðar og takmarkana okkar gagnvart erfiðum verkefnum. Kirkjan byggir mikið á trúmennsku okkar við þjónustuna, á mikið undir henni um leið og hún er það eina sem að verður spurt á degi dómsins um þau verk sem okkur voru falin. Þá verður ekki litið á lengd minningargreinanna um okkur og því síður hvað við höfum getað talið til í Guðfræðingatalið, heldur það eitt hvað við reyndum að gera í heilum ásetningi og vilja.

Kirkjan hefur ávalt skilið hina vígðu þjónustu sem framlengingu þjónustu postulanna sbr. vígslu Páls og Barnabasar. Lúthersk kenning leggur að sínu leyti áherslu þetta og undir það er tekið í Limaskírslunni.[2] Þau sem á undan gegnu hafa mótað prestsdóminn og á þeim grundvelli byggjum við ofan á. Við stöndum í tiltekinni kirkjuhefð og þurfum Guði sé lof ekki að finna allt upp.

Hins vegar lifum við á liðandi stundu og krafan sem við stöndum frammi fyrir er að því leiti ólík fyrri tíð sem okkar er frábrugðnari. Ef ég má koma með brýningu í þessu sambandi á grundvelli þess sem sagt var um trúmennskuna, þá þykir mér sem prestsdómur samtímans sé full kæringarlaus um þarfir nútímamannsins og of sæll með hlýjuna innan ramma hins hefðbunda og kunnuglega. Farið... sagði "verkkaupinn." Verið í mér en farið og gjörið þjóðina að lærisveinum mínum.

Við erum þjálfuð og menntuð og vígð á grundvelli köllunarinnar til prestsþjónustunnar að við getum stundað hana af alhug og án óhjákvæmilegra frátafa. Við erum vissulega makar, foreldrar og á annan hátt tengd samfélagi mannanna persónulegum böndum en að öðru leyti helguð verkefninu sem vígslan færir okkur.

Þar eru lögð í fyrirúm Orðið, sakramentin, hirðishlutverkið, bænargjörðin, trúmennskan. Við erum bundin hinu opinberaða Orði Guðs og falið að miðla leyndardómum trúarinnar í skírn og Máltíð Drottins. Okkur er falið að gæta að tilteknum hópi manna og vinna að almennri velferð þeirra en einkarlega sáluhjálp. Verkfæri okkar er orðið af munni Guðs, persónulegur vitnisburður okkar um skilning á því og bænin af eigin munni.[3]

Kristur er þannig miðlægur í öllu verki okkar. Hann er sem Örkin og hlutverk okkar er að koma öllum inn í veruleika hans og samfélag til þess að allir mættu bjargast. Hætturnar eru margar sýnilegar og varða marga ógæfuleiðina í mannlegu samfélagi. Sumar eru duldar og verður vart komið orðum að þeim ógnum sem þær geyma.

En í honum er líf og lífið er ljós mannanna. (Jóh 1:4) Okkur er falið að miðla þessu lífi og ljósi. Vér erum börn Guðs, en en er ekki bert orðið hvað vér munum verða. 1Jóh 3:2 Það er sterk framtíðarsýn í þessu orði. Unnum okkur sjálfum þess að rækta þá gleði sem hún geymir að hún megi verða að lind boðunar okkar. Í vígsluheitinu sem og vígslubréfinu er margt um það rætt hverjar eru skyldur hins vígða og þau réttindi sem upp eru talin felast í því að mega gera það sem maður hefur lofað að iðka. En hvað er það það sem berst um hendur þeirra sem leggja hönd á vígsluþegann að hætti postulanna. Hverju miðlar handtak biskupsins? Viðurkenningu að að maður er réttilega kallaður og stendur í þessari löngu röð vígðra manna allt frá dögum Péturs og þeirra hinna. Staðfestingu á gjöfum heilags anda til þeirra verkefna sem köllunin felur í sér.

En felur hún ekki líka í sér skuldbindingu kirkjunnar vegna frátekningarinnar? Að hún muni sjá fyrir þessum þjóni sínum svo sem efni standa til? Að hún muni næra trú hans, halda áfram að fræða hann, gæta að sálarheill hans, styðja hann í verkefnum sínum og sjá fyrir honum þegar hann er ekki lengur þess megn að gera það sjálfur. Jú, kirkjan hefur þessa skyldu þar sem Kristur segir í þessu samhengi nokkuð um verðleika til launa. (Lúk 10:7) Hún kann að gera það í gegnum almenn kerfi trygginga, lífeyris og endurmenntunar, en hún ber skyldu gagnvart þjónum sínum að þessu leyti og rækir hana ekki nægilega vel.

En ónýtir þjónar erum við og eigum fátt gott skilið þess vegna, en við erum boðberar náðarinnar og megum hennar vegna vænta miskunnar í veikleika okkar. Jakob Ágúst Hjálmarsson (jakob@domkirkjan.is) er sóknarprestur í Dómkirkjunni.

[1] Það sem hér er sagt um prestsvígslu gildir væntanlega að sínu leyti einnig um vígslu djákna.

[2] Sjá Embættisgjörð eftir dr. Einar Sigurbjörnsson, Skálholtsútgáfan 1996.

[3] Sbr. Handbók þjóðkirkjunnar og vígslubréf presta.