Þorláksmessa að sumri er 20. júlí í minningu þess að þann dag árið 1198 voru bein heilags Þorláks Skálholtsbiskups grafin upp og lögð í skrín. Dánardægur hans er eins og kunnugt er 23. desember og þá er Þorláksmessa að vetri og margir halda upp á hana með skötuveislu. Á sumarmessunni er aftur á móti sungið úr Saltaranum bæði úti og inni. Saltari þýðir sungin lofgjörð og er þetta heiti notað yfir Davíðssálmana sem er að finna sem sérstaka bók í Gamla testamentinu. Þessir sálmar, 150 að tölu, eru uppistaðan í tíðagjörðinni sem mótað hefur helgihald kirkjunnar frá upphafi, en segja má að þeir séu eins konar tengiliður Gamla- og Nýja testamentisins. Þeir voru Sálma- og bænabók Jesú Krists og hann fór með þá við ýmis tækifæri og heimfærði margt í þeim upp á eigið líf og starf. Rit kirkjufeðranna og boðun kirkjunnar er á marvíslegan hátt innblásin af þessum sálmum og mikilvægi þeirra fyrir kristið fólk sést vel á því að þeir eru oft gefnir út með Nýja testamentinu.
Í tengslum við Þorláksmessu á sumri er sérstök hátíð í Skálholti þar sem skartað er því fegursta og besta sem einkennir kristna boðun og helgihald. Skálholtshátíðir hófust á fimmta áratug síðustu aldar en markmið með þessu framtaki var endurreisn staðarins sem kirkjulegrar menningarmiðstöðvar.
Að þessu sinni hefst hátíðin þegar fimmtudaginn 19. júli með helgistund í Skálholtsdómkirkju kl. 19.30 en þá flytur söngflokkurinn Voces Thules Þorlákstíðir. Þær eru tileinkaður dýrlingnum og messudegi hans og hafa varðveist í handriti frá 13. öld en byggja á hefð gregorsöngs frá 8. öld. Félagar í Voces Thules hafa unnið stórmerkt starf með því að lífga við þennan fagra íhugunarsögn og gefa hann út, en þar gátu þeir byggt á rannsóknum Róberts heitins Ottosonar. Í framhaldi af kvöltíðunum, Vesper, er dagskrá um Saltarann þar sem Voces Thules koma einnig fram og þar verða fluttir trúarlegir tvísöngvar og morgun- og kvöldsálmar frá 16. og 17. öld. Á Þorláksmessudegi 20. júlí syngur svo vígslubiskupinn Kristján Valur Ingólfsson hádegismessu úti við Þorlákssæti sem er staður í stuttri göngufjarlægð austur af kirkjunni en þar segir sagan að Þorlákur biskup hafi setið og íhugað sér til hugahægðar í erfiðu embætti, en hann hafði verið ábóti í Þykkvabæjarklaustri áður en hann tók biskupsvígslu. Sagt er að hann hafi nauðugur tekið að sér það embætti, enda tímarnir viðsjárverðir og átök í landinu út af kröfum Rómarkirkjunnar.
Á laugardeginum er fjölbreytt fræðslu- og skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna í umsjá biskupsfrúarinnar Margrétar Bóasdóttur. Þá verður málverkasýning opnuð í skólanum og boðið upp á sögutengdar gönguferðir og leiki. Á matseðli veitingastofunnar má einnig sjá margt nýstárlegt sem skírskotar til sögu staðarins og þekktra persóna sem þar gerðu garðinn frægan.
Hápunkturinn hátíðarinnar er guðsþjónustan í kirkjunni sunnudaginn 22. júlí kl. 14.00. Í um áratug hefur hópur fólks lagt af stað frá Þingvallakirkju á laugardagsmorgninum og náð í messuna daginn eftir. Þessi pílagrímaganga, sem hefst kl. 9.00 á laugardeginum, er öllum opin og fólk getur komið inn í hana á ólíkum stöðum allt eftir því hvað það treystir sér til að ganga langt. Markmiðið er að sem flestir nái í messuna og meðtaki þar heilagt sakramenti. Það er hátíðleg stund þegar pílagrímarnir ganga inn í kirkjunna eftir tveggja daga göngu, þreyttir en endurnærðir eftir útiveruna og áreynsluna. Á leiðinni eru sungnir sálmar og farið með bænir, en stundum gengið í þögn og þess á milli spjallað og hvílst og hlúð að líkamanum með æfingum og andlegri einbeitingu. Það er alveg sérstök tilfinning að syngja stefin úr Davíðssálmum úti í íslenskri náttúru við lækjarnið, flugnasuð og tíst í smáfuglum – þá tilfinningu hafa paparnir þekkt er þeir stigu fyrstir á land, en Saltarinn var í miklu uppáhaldi hjá þeim og helgihaldið umgjörð um allt líf þeirra. Eflaust hafa ættflokkar Ísraels fundið eitthvað svipað þegar þeir gengu í flokkum upp til helgihaldsins í musterinu í Jerúsalem. Meðal Davíðssálma eru helgigönguljóð sem eru lofgjörð til skapara himins og jarðar. Þar er líka sálmurinn alþekkti nr. 23: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta, á grænum grundum lætur hann mig hvílast.“ Upplýsingar um þessa göngu er að finna á heimasíðu Skálholts, einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu Skálholtsskóla.