Er okkur eitthvað heilagt?

Er okkur eitthvað heilagt?

Og jú, vissulega á hið heilaga undir högg að sækja á þessum tímum sem mörgum öðrum. En boðskapur helginnar gegnsýrir engu að síður menningu okkar. Hann sækjum við í Biblíuna. Þaðan kemur sú vitund þegar við finnum til með þeim sem eiga erfitt, reynum að setja okkur í spor fólks sem er á flótta, horfir á sína nánustu deyja í sprengjuregni eða eigur sínar liðast í sundur í náttúruhamförum.

Er okkur eitthvað heilagt? Þessi spurning leitaði á huga minn er ég hugleiddi texta dagsins þar sem fjallað er um heilagar slóðir og manneskjur falla á ásjónu sína andspænis því sem ekki virðist vera af þessum heimi.


Bölsýnin fellur í frjóan jarðveg

 

Mér leiðast samt ræður sem ganga út á það að heimurinn fari versnandi. Það er svo auðvelt að fetta í sífellu fingur út í hitt og þetta, setja sig á stall og benda ásakandi í allar áttir. Sannleikurinn er sá að hver kynslóð og hvert tímaskeið sögunnar hefur sínar sterku og veiku hliðar. Óþarfi er og villandi að einblína á þær síðarnefndu.

 

Merkilegt nokk, þá eru slík ræðuhöld oft líkleg til vinsælda. Einhvern tímann á Ísafirði, þegar mæla mátti reynslu mína sem prestur í mánuðum, en ekki árum, kom einhver hundur í mig þar sem ég sat við lyklaborðið og sló inn predikun dagsins. Hún var því eitthvert heimsósómatal þar sem bölsýnin og dómharkan tröllriðu öllu.

 

Þegar ég svo las yfir textann læddist sú hugsun að mér, að vart myndi þetta falla í frjóan jarðveg hjá heimamönnum. Hvaða áhuga ætli þeir hafi á því að láta strák úr Reykjavík segja sér til syndanna? Ég var svo sem ekki vanur því að fá kompliment frá fastagestum í Ísafjarðarkirkju fyrir ræðurnar mínar fram að þessu. Í þetta skiptið átti ég fremur von á því að fá skammir fyrir nöldrið. Fólk sem hafði alist upp við harða lífsbaráttu, fannfergi, sjávarháska, þrúgandi skammdegi og einangrun, myndi nú ekki kæra sig um slíka vandlætingu. Nú yrði tekið þéttingsfast í hönd mína við kirkjudyr: „Takk fyrir skammirnar, strákur!“

 

Raunin varð þó önnur. „Þetta er einmitt að sem fólk þarf að heyra!“ kom frá hverjum á fætur öðrum. „Já, svona á að predika!“ Ég fann notalega strauma leika um skrokkinn. Var þetta þá málið? Verður þetta ekki tónninn hjá mér um ókomna tíð, einmitt þau orð sem ég hóf lesturinn á: „Er okkur eitthvað heilagt nú til dags?“

 

En – nei ég finn mig ekki í móralismanum þótt þar sé sjálfsagt af nægu að taka. Biblían er annað og meira skammir og formælingar. Siðfræðin sem þar er boðuð hefur á sér fleiri hliðar.


Náttúra og yfirnáttúra

 

Textar dagsins fjalla að einhverju leyti um það sem er heilagt. Hér hlýddum við á frásagnir þar sem náttúra og yfirnáttúra fléttast saman. Runninn skíðlogar en ekki sér á greinunum. Rödd heyrist tala út úr eldinum en enginn sést. Atburðir gerast í óbyggðum, uppi á fjalli. Þarna lesum við um mót náttúru og yfirnáttúru.

 

Og í guðspjallinu lýsa föt Jesú svo mjög að höfundurinn tekur það fram að enginn mannlegur máttur gæti framkallað svo skæran bjarma á klæðum eins og þarna birtust. Þar birtist söguhetja lexíunnar, sjálfur Móse og Elía sem var þekktur fyrir sína yfirnáttúru. Sveif í burtu í logandi eldvagni samkvæmt frásögninni.

 

Hér er fjallað um þetta sem er hafið yfir hið jarðneska, þetta sem við getum kallað heilagt.

 

Og viðbrögðin verða mögulega fyrirsjáanleg við slíku undri. Manneskjurnar sem verða vitni að þessum atburðum fyllast lotningu og finna til vanmáttar síns. Orðin sem hinn almáttugi notar þegar hann kynnir sig taka af öll tvímæli um fjarlægðina á milli hins jarðneska og þess sem er yfirnáttúrulegt: Ég er sá sem ég er. Jahve – það er merkingin. Og að baki býr sú hugsun að enginn megi einu sinni nefna nafn Drottins. Þetta er bara einhver mynd af sögninni að vera – veruleikinn sjálfur jafnvel?

 

En í dag, þótt hið heilaga kunni að vera á undanhaldi eru þó setningar okkar uppfullar af guðlegu ákalli. Sennilega hefur nafn Guðs aldrei verið jafn títt á vörum fólks sem nú í dag. Undir eins og fólki er komið á óvart ákallar það nafn Guðs eða Jesú, ýmist á íslensku eða ensku.

 

Yfirnáttúran er erfið viðureignar og dæmin sanna að í tengslum við hana getur fólk öðlast mikið vald. Ekki þó með þeim hætti að það geti lyft stólum með augnarráðinu einu eða látið regndropa falla af heiðskírum himni. Nei, það er svo auðvelt að blekkja og svíkja, pranga og pretta undir því yfirskini að einhver rati um ranghala annarra heima, geti rætt við framliðna eða séð fyrir um ókomna tíma.

 

Sá er einmitt vandi yfirnáttúru. Hún er óútreiknanleg, ósannanleg og óskiljanleg. Þar með fara mælikvarðar á flakk og öll viðmið týnast í gjörningaþoku.

 

Yfirnáttúran er líka öðru fremur í bakgrunni þessara frásagna. Hún er ekki aðalmálið. Sögurnar fjalla um aðra þætti – nefnilega það að eiga sér köllun gagnvart einhverju því sem er stærra og merkilegra en tímabundin tilvist þeirra sem þarna eru kölluð.

 

Hér er sagt frá venjulegu fólki sem hefur takmarkaðan skilning á umhverfi sínu og takmarkaða burði til að axla þá ábyrgð sem því er falin. Viðkvæðið verður jafnan að benda á lesti sína og hömlur. Móse þessi sem átti eftir að leiða þjóðina úr þrælahaldinu var að sögn málhaltur og óx það í augum að sannfæra hópinn um að fylgja sér.

 

Áhrif hans voru þó slík að enn lítur fólks til hans sem fyrirmyndar.


Fyrirmynd síðari leiðtoga

 

Þegar einn áhrifamesti baráttumaður fyrir mannréttindum á síðustu öld, séra Martin Luther King, lýsti hlutverki sínu og köllun – þá vísaði hann í Móse. Já, það var viðfangsefni hans að leiða heiminn til réttlætis og blása kjarki í sitt fólk. Köllun hans var ekki aðeins að berjast fyrir jafnrétti fólks með misunandi húðlit – hún snerist um þá hugsjón að öll séum við sköpuð jöfn. Hann var borinn áfram að trúarlegri sannfæringu.

 

Ræðan þar sem hann lýsir draumum sínum var í raun predikun, sótti í texta Jesaja spámanns. En fyrirmyndina hafði hann í Móse sem þrátt fyrir allar hömlur og mótlæti leiddi fólkið sitt úr þrældómi í frelsi.

 

Já, þessi saga sem við hlýddum hér á, er meðal þeirra sem hafa haft hvað mest áhrif í sögunni. Og hún ber með sér eitt mikilvægt einkenni allra leiðtoga – nefnilega að bregðast við einhverri yfirstandandi neyð. „Ég hef séð eymd þjóðarinnar og heyrt kvein hennar“ segir sá sem ekki má nefna á nafn. Þar sprettur upp þörfin fyrir sannan leiðtoga. Mótlætið er jú kjörlendi forystunnar. Enginn jarðvegur er í þeim skilningi, frjórri en sá grýtti.

 

Og það var annað sem Martin Luther King tók með sér úr þessum frásögnum – nefnilega það að beita ekki ofbeldi og leitast við að ná friðsamlegri lausn á ágreiningsmálum. Þar hafði hann fordæmi þess sem sagt er frá í guðspjallinu að hafi lýst eins og sólin. Jesús beitti engan ofbeldi og launaði illt með góðu. Þar gaf hann tóninn fyrir þau sem vildu fylgja honum og sýndi líka hverju má áorka með kærleikann að leiðarljósi.

 

Við getum sagt að þarna hafi hið heilaga stigið niður í sögu mannsins. Og hvort sem við viljum amast yfir samtímanum eða ekki, þá skiptir það meginmáli að við horfum til þeirra möguleika sem búa í hverri manneskju. Þetta gerði leiðtogi blökkumanna, jafnvel þótt fordómarnir gegnsýrðu samfélagið. Það var ekki í hans anda að hrópa: „heimur versnandi fer!“ nei, hann sá sannarlega þau mein sem þurfti að græða og helgaði líf sitt þeirri heilun.


Hvaða kemur meðlíðunin?

 

Og jú, vissulega á hið heilaga undir högg að sækja á þessum tímum sem mörgum öðrum. En boðskapur helginnar gegnsýrir engu að síður menningu okkar. Hann sækjum við í Biblíuna. Þaðan kemur sú vitund þegar við finnum til með þeim sem eiga erfitt, reynum að setja okkur í spor fólks sem er á flótta, horfir á sína nánustu deyja í sprengjuregni eða eigur sínar liðast í sundur í náttúruhamförum.

 

Þetta er ekki sjálfgefið. Miklu auðveldara er að fylgja hinum sterku, slást í för með sigurvegurum. Hugsunin að tilgangur okkar og köllun leynist í hinum undirokuðu sækjum við í boðskap Jesú og þeirra sem vörðuðu veg hans.

 

Þar lesum við um það hlutverk okkar að byggja upp það sem aflaga kann að hafa farið og höfða um leið til þeirra gilda sem búa í hverri manneskju svo hún geti sjálf lagt sitt af mörkum.

 

Já, er okkur eitthvað heilagt? Þeirri spurningu svara ég játandi. Við eigum hugmyndina um hin tímalausu verðmæti, hluttekninguna og meðlíðunina úr boðskap Biblíunnar og hún birtist hvað sterkast í lífi og starfi Jesú Krists. Þaðan seitlar hún í gegnum kynslóðirnar og mótar fólk enn dag, fólk sem á mögulega erfitt með að skilgreina trú sína, er þó í sífellu með nafn Guðs og Jesú á vörunum. Og þegar betur er að gáð er verðmætamat þess einnig þaðan sprottið.