Hvað var eiginlega í gangi á prestastefnu?

Hvað var eiginlega í gangi á prestastefnu?

Þrír bloggarar sem ég les reglulega, hef tröllatrú á í stjórnmálum og hef kynnst mismikið á lífsleiðinni, blogguðu í kjölfar prestastefnu um hversu gáttuð þau voru á prestastéttinni að kolfella tillöguna um hjónavígslu samkynhneigðra.
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
08. maí 2007

Þrír bloggarar sem ég les reglulega, hef tröllatrú á í stjórnmálum og hef kynnst mismikið á lífsleiðinni, blogguðu í kjölfar prestastefnu um hversu gáttuð þau voru á prestastéttinni að kolfella tillöguna um hjónavígslu samkynhneigðra.

Þar sem ég var á prestastefnu finnst mér rétt að greina frá því hvað var í gangi á prestastefnu og enda gefur sú umræða sem kom upp í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um málið ekki góða mynd af því sem í raun fór fram.

Bloggararnir sem um ræðir eru Kristín Tómasdóttir (sem ég vann með eitt sumar), Hildur Edda (stórvinkona eiginkonunnar) og Jónas Tryggvi (félagi minn úr Kvennó)

78% presta á prestastefnu samþykja að kirkjan blessi staðfesta sambúð samkynhneigðra

Á prestastefnu sem fram fór á Húsavík urðu merk tíðindi í íslenskri kirkjusögu (og raunar alþjóðlegri kirkjusögu ef því er að skipta) þegar 78% presta á prestastefnu samþyktu tillögu kenningarnefndar að ritúali (helgiathöfn) sem nota á við blessun og fyrirbæn fyrir staðfestri samvist samkynhneigðra para. Prestarnir sjá með þessu engin biblíu eða guðfræðileg rök gegn því að tveir einstaklingar af sama kyni deili saman lífi sínu, kjörum, ást og virðingu. Þvert í mót álíta prestarnir að Guð blessi sambúðarformið og er kirkjan því fús til að leggja einstaklingana og líf þeirra og samband fram fyrir Guð og biðja um leiðsögn hans og blessun, allt þar til dauðinn aðskilur.

En hver er þá munurinn á þessu og hjónavígslu samkynhneigðra? Af hverju hafa samkynhneigðir ekki sama rétt og gagnkynhneigðir?

Guðfræðilega hafa þeir það nú innan kirkjunnar eins og útskýrt var að ofan, en gagnvart hagstofunni hafa þeir það ekki. Það er að segja eftir að prestur hefur beðið um blessun Guðs yfir sambandi karls og konu, hefur hann líka veraldlegt hlutverk, hann skilar pappírum inn til Hagstofunnar sem staðfesta að hjónin eru nú ein persóna að lögum, (með öðrum orðum þau skila nú sameiginlegri skattaskýrslu og hafa erfðarétt sem var ekki til staðar áður til kirkjuathafnarinnar kom). Hjá samkynhneigðum er þessu ekki fyrir að fara í dag. Þau geta fengið kirkjulega blessun alveg eins og gagnkynhneigðir en eftir athöfnina skilar presturinn engu inn til Hagstofunnar þar sem hann má það ekki. Með öðrum orðum gagnkynhneigðir fá tveir fyrir einn: blessun Guðs og Hagstofunnar. Samkynhneigðir bara blessun Guðs. Þau þurfa því fyrst að fá vottun sýslumanns fyrir staðfestri samvist og svo geta þau farið í kirkjuna til að þiggja blessun.

Vandamálið í dag er sumsé að prestar hafa ekki leyfi til að ganga frá veraldlegum endum fyrir samkynhneigð pör. Segja má að til lausnar á því vandamáli og að jafna stöðu samkynhneigðra séu a.m.k þrjár leiðir færar!

1) Fyrsta leiðin er að taka hið veraldlega vald af kirkjunni. Ég persónulega er mjög hrifinn af þessari leið, það þýðir að allir sam vilja eyða lífinu með annarri manneskju og heitast henni ævilangt verða að ganga til sýslumanns og skrá sig þar. Að því loknu er fólki svo í sjálfsvald sett hvort það hefur áhuga á að leita til trúfélaga eftir bæn og blessun líkt og brúðkaup dagsins í dag ganga út á. Þessari hugmynd var varpað fram á prestastefnu af einum presti sem taldi hana besta kostinn, og þannig er fyrirkomulagið víða um Evrópu. Hugmyndin fékk dræmar undirtektir. Á það hefur verið bent að þetta myndi hafa í för með sér færri kirkjuathafnir og færri tækifæri til boðunar orðsins. Ég tel hins vegar að þetta krefji fólk til afstöðu og geti orðið til þess að við fengjum færri, enn kannski einlægari athafnir. Hollywoodsering brúðkaupanna myndi minnka og spurningar, sem stöku sinnum skjóta upp kollinum um hvort presturinn geti sleppt Guði eða haft hann baksviðs myndu hverfa.

2) Önnur leiðin er sú að blessun staðfestrar samvistar í kirkju verði jafngild hjónavígslu gagnkynhneigðra að lögum. Prestar megi líka skila inn pappírum til Hagstofunnar um að samkynhneigða parið sé eftir kirkjuathöfnina rétt eins og hjón einn aðili að lögum. Stór hópur presta á prestastefnu virtist vera fylgjandi þessu og var tillaga um að taka málið ekki á dagskrá heldur vísa því til biskups samþykkt með 43 atkvæðum gegn 39. Fyrir mér segir það sig sjálft að í sjálfu sér ættu allir þeir sem samþykktu blessunarformið að vera fylgjandi þessari tillögu þar sem engu er breytt guðfræðilega. Fyrst að Guð getur blessað staðfestar samvistir samkynhneigðra að mati 78% presta, ætti einn stimpill gagnvart hagstofunni ekki að stoppa málið.

3) Þriðja leiðin er sú sem 42 menningarnir lögðu fram á prestastefnu og var kolfelld með 62 atkvæðum gegn 22. Í tillögunni er lagt til að hjónabandið verði kynhlutlaust og þannig sé enginn munur á hjónabandi karls og konu og hjónabandi tveggja karla eða tveggja kvenna. Prestar gætu því vígt tvo karla eða tvær konur sem hjón. Miðað við umræður á prestastefnu var ljóst að hér vildu margir stíga hægt til jarðar. Þessir aðilar vilja leggja hjónaband karls og konu að jöfnu við staðfesta samvist en telja ekki rétt að segja það vera eitt og hið sama. Einn presturinn sem barist hefur fyrir réttindum samkynhneigðra í yfir 30 ár, var þessi aðgreining mikið hjartans mál. Hann sagði kirkjan yrði að taka samkynhneigðum, alveg eins og þau eru og samþykja samband þeirra. Það snúist um að samkynhneigðir geti stoltir sagt ég er eins og ég er. Samkynhneigðir væru búnir að vera allt sitt líf að berjast við að koma úr skápnum og viðurkenna og útskýra að þau væru ekki gagnkynhneigð heldur samkynhneigð. Þess vegna taldi hann það miður að kirkjan ætlaði að steypa samkynhneigðum í sama mót og gagnkynhneigðum og kalla samband þeirra hjónaband, sem lýst hefur gagnkynhneigðu sambandi frá örófi alda. Þetta var að mati prestsins móðgun við samband samkynhneigðra. Hann stakk uppá að nota hommaband og lesbíuband í staðin fyrir hjónaband, eða að finna nýtt gott orð sem gæti náðst sátt um. Öðrum fannst þetta fáránleg hugmynd og töluðu um orðhengilshátt, orðið hjónaband myndi aðlagast og fá víðari merkingu með tímanum, hjónabandið gæti vel orðið kynhlutlaust.

Að endingu

Stöðu kirkjunnar og valdhafa hennar í þessu máli má líkja við stöðu Ólympíunefndarinnar þegar ákveða þarf hvort fjölga eigi íþróttum á Ólympíuleikunum. Þar hefur knattspyrnan lengstu hefð boltaíþrótta og fyrir mörgum birtist hinn sanni ólympíuandin hvergi betur en einmitt í knattspyrnunni. Í fyllingu tímans hafa handboltamenn þrýst á að fá sína íþrótt samþykkta fyrir ólympíunefndinni. Yfirgnæfandi meirihluti 78% prósent samþykja að hér sé um íþrótt að ræða sem verðskuldi ólympíumedalíuna sem er æðsta markmið allra íþróttamanna. En hvað svo? Spurningin er hvernig handboltamenn, fái best notið sín innan Ólympíuleikanna? Er það með því að endurskilgreina knattspyrnuna sem útlimahlutlausa íþrótt, þar sem nota má bæði hendur og fætur? Nei, segja margir og finnst þetta of róttækt skref og fella tillöguna!

Hvað gerist næst? Aðstandendur hinnar nýju útlimahlutlausu-knattspyrnutillögu blygðast sín fyrir kollega sína í ólympíunefndinni, blaut tuska framan í handboltamenn segja fjölmiðlar, sumarið var lokað inni segja talsmenn tillögurnar en nefna ekkert að almenn samstaða hafi náðst um að veita handboltamönnum ólympíumedalíuna, sem þó er aðalmálið!!

Endanleg útfærsla á handboltanum er enn óútkljáð, ákveðið hefur verið að samþykja handboltamenn en deilurnar um hvernig handboltinn nýtur sín best standa enn yfir. Því miður hafa nokkrar feilsendingar í hita leiksins skaðað ólympíuhreyfinguna meir en þörf var á.