Það er ýmislegt merkilegt sem kemur í ljós þegar menn lesa orð Jesú.
Til dæmis það að Jesús Kristur minnist aldrei á samkynhneigð eða samkynhneigða. Og hann talar heldur aldrei um kynhneigð manna til eða frá. Þannig að það hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir hefur ekki legið þungt á honum.
Honum var slétt sama.
Í augum Jesú erum við fyrst og fremst Guðs börn, hvort sem við erum hvít eða svört, karlar eða konur, rauðhærð eða dökkhærð, samkynhneigð eða gagnkynhneigð. Það undirstrikar hann oft og iðulega með orðum sínum og gerðum.
Nú er það ekki svo að samkynhneigð hafi ekki verið fyrir hendi í umhverfi Jesú. Allt í kringum Júdeu á dögum Jesú voru margfalt fjölmennari ríki en land Gyðinga. Þar voru til dæmis hinar svokölluðu "Tíu borgir" þar sem Grikkir réðu ríkjum frá fornu fari. Hjá Grikkjum og í þeirra menningarheimi var samkynhneigð ekkert tiltökumál.
Jesú stytti sér oft leið í gegnum borgirnar tíu á ferðum sínum, en aldrei minnist hann samt á þetta atriði.
Hann hefur þó efalaust þekkt vel fordæmingarorð Gamla testamentisins í garð samkynhneigðra. Um þau voru helstu andstæðingar Jesú aftur á móti ekki jafn þögulir og fordæmdu þeir Grikkina m.a. vegna frjálslyndis þeirra gagnvart samkynhneigðum.
Árásir á samkynhneigða í dag víða um veröldina eru oft dulbúnar í kristilegan búning, með tilvitnunum í Biblíutexta, bæði úr Gamla testamentinu og hinu Nýja. Þeir sem slíkt stunda gleyma því aftur á mót að við kristnir menn eigum að lesa lögmál hins gamla sáttmála í ljósi Jesú. Í fjallræðunni í Matteusarguðspjalli segir Jesús m.a. "dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir" og "Allt sem þér því viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra".
Hann undirstrikar þannig að kærleikurinn skuli vera hafður að leiðarljósi í lífinu, kærleikurinn sem dæmir ekki á grundvelli fordóma og vanþekkingar. Þessu voru samtímamenn Jesú margir ekki sammála og þess vegna meðal annars var hann krossfestur.
Krossfesting Jesú undirstrikar enn og aftur að það eru í raun og veru aðeins tvær ástæður sem liggja að baki alls þess sem menn gera: Kærleikur og ótti.
Jesús lét lífið vegna kærleika síns.
Ofbeldismenn krossfestu hann vegna þess að þeir óttuðust boðskap hans.
Hvað ákvarðar gjörðir þínar?
Kærleikurinn styrkir þig og eflir og hann eflir þá sem þú kemur fram við af kærleika.
Óttinn minnkar þig og náunga þinn.
Þú verður að læra að þekkja í sundur kærleikann og óttann og velja annað hvort sem fyrirmynd þína.
Og hér er þumalputtaregla sem þú getur notað: Boðskapur Jesú er alltaf byggður á kærleika, fjallar alltaf um kærleika. Hómófóbía snýst alltaf um ótta. Það er þess vegna ekki hægt að vera bæði kristinn og hómófób. En það er ekkert mál að vera bæði kristinn og samkynhneigður.
Guð er kærleikur.
Þú ert elskaður eins og þú ert.
Óttastu ekki!