Þakka þér fyrir stundina

Þakka þér fyrir stundina

Nývígður prestur kemur til tímabundinna starfa í prestakalli. Hann er fullur af vanmætti fyrir sína hönd og kirkjunnar sinnar. Má ég mín einhvers sem prestur gagnvart fólkinu hér á staðnum, svona blautur á bak við eyrun? Mun einhver taka mark á þessum unglingi með kraga um hálsinn?
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
25. nóvember 2009

Gluggi

„Þakka þér fyrir stundina. Mér finnst alltaf vera jól þegar það er messa hérna.“

Gamla konan klökknaði þegar hún hvíslaði þessum orðum að unga afleysingaprestinum, talaði hægt og tók um leið þétt í hönd hans og horfði beint í augun á honum. Þetta var eftir guðsþjónustu á dvalarheimili aldraðra í litlu sjávarþorpi. Klerkur, nýskriðinn úr skóla og vart farinn að venjast hempunni, gat engu svarað. Heilagur andi hafði afhjúpað vanmátt manna og styrk Drottins í þessu handtaki. Stundin var sannarlega helg, því að Guð var nærri.

Nývígður prestur kemur til tímabundinna starfa í prestakalli. Hann er fullur af vanmætti fyrir sína hönd og kirkjunnar sinnar. Má ég mín einhvers sem prestur gagnvart fólkinu hér á staðnum, svona blautur á bak við eyrun? Mun einhver taka mark á þessum unglingi með kraga um hálsinn? Og sé út í það farið, á kirkjan yfir höfuð nokkurt erindi við það? Lítur fólk ekki orðið á Þjóðkirkjuna sem blóðsugu ríkiskassans, uppfulla af hneykslismálum, án lifandi trúar eða kærleika? (Áróðurinn gegn kirkjunni hefur nefnilega líka áhrif á þjónana hennar, ekki síst þá nýju og óöruggu.)

En Guði séu þakkir! Fyrstu mánuðirnir í vígðri þjónustu reynast blessaðir. Sóknarbörnin taka klerki af stökustu prúðmennsku og kærleika, reynast honum vel í smáu og stóru og gæta sín á að kvarta hvorki yfir aldurs- né reynsluleysi, a.m.k. ekki þegar hann heyrir til! Kirkjan þeirra er ekki blóðsuga í augum neins, heldur nærandi og helgur staður.

Og það er ótrúlega mikið að gera í litlu prestakalli, vanmetum það ekki í niðurskurðaraðgerðum. Þátttakan í barna- og unglingastarfi safnaðarins er gríðarlega góð og mikið fjör í því. Messusóknin er hreint alveg ágæt, ekki síst miðað við höfðatöluna! Kirkjukórinn, organistinn, sóknarnefndirnar, kirkjuverðirnir og meðhjálpararnir – allt er þetta vænt og trúað fólk, sem gott er að kynnast og eiga að bandamönnum í helgri þjónustu. Fermingarbörnin eru fjörug en líka fróð og einlæg. Fólkið á dvalarheimilinu er þakklátt fyrir helgar stundir og kærleiksríkt samfélag í Jesú nafni. Og svo er Drottinn líka góður og gefur styrk á erfiðu stundunum, þar sem prestinn skortir orð og ráð. „Sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum, sem engum orðum verður að komið,“ segir postulinn (Rm 8.26). Þvílíkt fagnaðarerindi fyrir þreyttan prest! Skiptir kirkjan máli? Hefur þjónusta kirkjunnar nokkuð að segja í samfélaginu? Því er fljótsvarað eftir stuttan prestsskap á landsbyggðinni: JÁ! Kirkjan skiptir gríðarlega miklu máli, meiru en menn geta ímyndað sér.

Hvers vegna? Hvers vegna skiptir kirkjan máli? Hvers vegna voru jól hjá gömlu konunni þegar var messað á dvalarheimilinu hennar?

Vegna þess að Guð skiptir máli. Guð á erindi við manneskjur, og hann kýs að nota aðrar manneskjur sem farvegi friðar síns - jafnvel reynslulausa og vanmáttuga ungpresta! Lof sé honum fyrir það!