Í sumar höfum við Friðarbænina, sem kennd er við Frans frá Assisi, sem leiðarstef í messunum í Borgarfirði. Upprunaleg gerð Friðarbænarinnar birtist í franska kirkjublaðinu La Clochette árið 1912 undir heitinu: Belle prière à faire pendant la Messe. Höfundur er ókunnur en um 1920 var bænin prentuð á bakhlið myndar af heilögum Frans undir heitinu: Prière pour la paix, friðarbæn, og þaðan mun tengingin vera til komin.
Í þessari upprunalegu gerð segir um umfjöllunarefni dagsins:
Là où il y a la discorde, que je mette l'union - að ég færi einingu þar sem sundrung – ágreiningur – er. Eining, samhugur, inn í sundrungu og ágreining. Ekki veitir nú af, eins og fréttir af Alþingi sýna, þó ekki sé víðar leitað.
Sanngirni
Ritningarlestrar dagsins hafa beina tengingu við þetta efni. Hjá Jeremía spámanni heyrum við þessa hvatningu:
Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað…
Að sýna sanngirni er þarna lykilatriði.
Og í pistlinum úr Rómverjabréfinu segir:
En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Öll munum við verða að standa frammi fyrir dómstóli Guðs. Því að ritað er: „Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skal hvert kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.“
Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér. Dæmum því ekki framar hvert annað. Hitt skuluð þið ákveða að verða trúsystkinum ykkar ekki til ásteytingar eða falls.
Dæmum ekki hvert annað. Það er einfaldur og skýr boðskapur. Við erum öll jöfn fyrir Guði. Hver erum við að álíta okkur þess umkomin að dæma eða jafnvel fyrirlíta hvert annað? Öll erum við fjarlæg kærleikanum á einn eða annan hátt, öll skortir okkur umhyggju og dómgreind í daglegu lífi, nema fyrir náð Guðs sem endurreisir og endurnýjar, gefur kjark og styrk til að vera þær manneskjur sem Kristur kallar okkur til að vera.
Orð Jesú í guðspjalli dagsins (Lúk 6) eru á sömu leið:
Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur. Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“
Við eigum að vera eins og Guð – miskunnsöm, fyrirgefandi. Það sem við gefum af okkur kemur aftur til okkar. Þetta er ekki lögmál úr framandi trúarbrögðum. Þetta er lifuð reynsla okkar allra. Framkoma okkar hefur sannarlega áhrif á hvernig annað fólk kemur fram við okkur. Hlýlegt og brosmilt viðmót getur gert kraftaverk þegar annað fólk sýnir okkur óvild, jafnvel fyrirlitningu. Það er ekki vottur undirlægjuháttar eða falskrar auðmýktar. Í því felst styrkur sem Guð einn getur gefið, að mæta fólki ávallt með kærleika, stuðla að fyrirgefningu og einingu í öllum aðstæðum, eftir því sem okkur er unnt.
Eining kristinnar kirkju
Oft er vitnað í orð Jesú í Jóhannesarguðspjalli (Jóh 17.20-23) þegar rætt er um einingu:
Ég bið ekki einungis fyrir þessum heldur og fyrir þeim sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig. Og ég hef gefið þeim þá dýrð sem þú gafst mér svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, ég í þeim og þú í mér svo að þeir verði fullkomlega eitt til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.
Í doktorsrannsókn minni frá 2016 og árunum þar á undan skoðaði ég með viðtölum og heimildakönnun hvað það væri sem einna helst gæti stuðlað að einingu meðal kristins fólk af ólíkum kirkjudeildum. Að sjálfsögðu eru þar ákveðin grundvallaratriði kristinnar kenningar sem þurfa að vera til staðar. Að játa trú á þríeinan Guð, föður, son og heilagan anda, svo sem sameiginlegar trúarjátningar kristinnar kirkju lýsa, er slíkt grundvallaratriði að félag fólks getur ekki kallast kirkja ef það er tekið í burtu.
Einkum er það Níkeujátningin sem fyrst var gerð árið 325, fyrir 1700 árum, sem kirkjur eru sammála um og er kjarnaatriði í einingarviðleitni kristinnar kirkju. Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi sem starfað hefur áratugum saman hefur heilaga þrenningu sem ófrávíkjanlega viðmiðunarreglu aðildarkirkna ásamt skírn í nafni föður, sonar og heilags anda. Um þetta ríkir algjör eining. Önnur atriði geta verið með ýmsum hætti án þess að einingin rofni, þó mismunandi kirkjuskilningur sé sannarlega enn atriði sem hindrar formlega einingu kirkna.
Eining snýst um tengsl
Hitt var líka áberandi, einkum í viðtölum mínum við fólk frá mismunandi kirkjudeildum, að eining snýst að miklu leyti um tengsl. Þar er bænin lykilatriði, að geta átt samfélag í bæn við fólk kannski iðkar kirkjusiði sem öðrum eru ókunnir, jafnvel framandi. Bænin er sterkt sameiningarafl þó oft sé hún að forminu til mjög mismunandi, allt frá sungnum bænum á fornu kirkjumáli eða formlegum skrifuðum bænum til bæna sem talaðar eru frá hjartanu, jafnvel með háum rómi eða í tungum. Bænin beinist ávallt að Guði, sem á ólíkum tungumálum hefur að sjálfsögðu ólíkan hljóm, jafnvel Allah fyrir kristin trúsystkini okkar til dæmis í Palestínu.
Hitt er líka mjög skýrt í niðurstöðum rannsóknar minnar að tengslin sem verða í samtali fólks með ólíkan bakgrunn skipta meginmáli. Óformlegu samtölin yfir kaffibolla og stundum kræsingum eru gríðarlega mikilvæg fyrir einingu kristins fólks. Að borða saman, ferðast saman, syngja saman, framkvæma saman, allt stuðlar þetta að eining og samhug. Vináttan sem myndast í slíku samhengi getur orðið djúp og rík.
Sameinuð í trú, von og kærleika
Við sem hér erum í dag erum eins ólík og við erum mörg. Bakgrunnur okkar, fjölskylduhættir, skoðanir og lífsstíll eru með ýmsu móti. Samt erum við hér, sameinuð í trúnni og samfélaginu um Jesú Krist. Við trúum líklega á mismunandi máta og iðkum trúna okkar á ólíkan hátt. En það að geta komið saman og játað trú á þríeinan Guð - Guð skapara okkar sem gefur lífið, Guð frelsara okkar sem leysir okkur til lífs í fullri gnægð, Guð hjálpara okkar sem endurnærir, helgar og styrkir hvert andartak – það er ómetanleg uppspretta einingar og samhugar.
Lokaorðin eru hvatning Páls úr Efesusbréfinu (Ef 4.1-5), orð sem enn eiga erindi til okkar hér í dag:
Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
Dýrð sé Guði + föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.