Gleðilegan Sjómannadag

Gleðilegan Sjómannadag

Nú á tímum loftslagsbreytinga er margt sem þarf að huga að. Unnið er að því að jarðefnaeldsneyti það sem hefur verið notað til að knýja vélar skipanna heyri brátt sögunni til og farið verði að nota repjuolíu sem unnin er úr plöntum sem ræktaðar eru hér á landi.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
02. júní 2019
Flokkar

Ps 107:1-2, 20-31; Post. 27:13-15, 20-25; Matt. 8:23-27.   

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Gleðilega hátíð.  Til hamingju með daginn ykkar sjómenn. 

Fyrir 81 ári var sjómannadagurinn fyrst haldinn hátíðlegur á tveimur stöðum á landinu, hér í Reykjavík og á Ísafirði.  Næsta ár bættust fleiri staðir við og var Bolungarvík á meðal þeirra. 

Á uppstigningadag var ég stödd í þessari elstu verstöð landsins, Bolungarvík þar sem nýtt pípuorgel í Hólskirkju var helgað Guði.  Seinna um daginn gekk ég mína gömlu götu og hitti þá dreng sem sýndi mér og samferðafólkinu fisk sem hann hafði veitt við Brjótinn.  Hann hafði rannsakað hann vandlega og kynnt sér vel innyflin og útlitið.  Já, ég var greinilega stödd í plássi þar sem sjórinn og lífið í sjónum og lífið á sjónum var vel kunnugt og stór hluti af tilveru íbúanna. 

Í kirkjukaffinu hitti ég konu sem sagðist vera með föt til skiptanna í bílnum því hún væri að fara á róðraræfingu fyrir sjómannadaginn.  Svo sá ég hana á mynd á fésbókinni í gær ásamt liði sínu, með bikar í hönd. 

Nálægðin við sjóinn hefur mótandi áhrif á þau öll sem búa við sjávarsíðuna eins og flestir Íslendingar gera.  Við vitum að sjórinn gefur og við vitum líka að sjórinn tekur.  Krafturinn sem býr í öldum hafsins og í frosthörðum vindum er oft meiri en svo að maðurinn ráði við aðstæðurnar.  Um það var fjallað í útvarpsþáttaröð á Rás 1 nýverið þegar minnst var ofsaveðursins sem gekk yfir í febrúarbyrjun árið 1968 og nokkrir bátar og skip lentu í miklum hrakningum fyrir vestan.  Því miður hlutu margir vota gröf þessa daga þó kraftaverkin hafi líka gerst, t.d. þegar Harry Eddom hinn breski sjómaður bjargaðist á undraverðan hátt um það leyti sem breskar eiginkonur, mæður og dætur fóru á fund ráðherra í Bretlandi með beiningarbréf um að öryggi breskra sjómanna við Íslandsstrendur yrðu bætt. 

En stundum aftur ég aleinn má

í ofsarokinu berjast.
Þá skellur niðadimm nóttin á
svo naumast hægt er að verjast

 

orti Valdimar V. Snævarr í sjómannasálmi sínum „Ég er á langferð um lífsins haf“ 

 

Þeir voru á ferð lærisveinarnir og meistari þeirra.  Þeir voru á ferð yfir Galíleuvatnið þegar vindur skall á og það gaf á bátinn.  Þeir urðu hræddir en vindur og vatn raskaði ekki svefnró meistarans Jesú.  Lærisveinarnir hrópuðu á hann sér til hjálpar og fengu skammir fyrir.  Ekki fyrir að vekja hann heldur fyrir það að treysta því ekki að allt færi vel.  „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ spurði hann þá.  Síðan hastaði hann á vindinn og vatnið og varð stillilogn. 

 

Þessi guðspjallssaga er lesin á sjómannadaginn í kirkjum landsins.  Hún er stutt en segir margt.  Hún segir frá mannlegu eðli.  Hún segir frá guðlegu eðli.  Hún segir frá samfélagi manna sem eru á sama báti. 

 

Færeyski listamaðurinn Edward Fuglö hefur fært þessa sögu í sérstakt listaverk. Það verk ásamt 9 öðrum eru hringlaga og eru sett saman úr lituðum viðarkubbum.  Þau segja hvert og eitt sögu úr ævi Jesú, frá boðun Maríu móður hans til uppstigningar hans til himna sem við minntumst á fimmtudaginn síðasta, uppstigningardag. 

 

Það sem er líka sérstakt við myndir Fuglö er að hann setur einn hlut sem tengist sögu Færeyja í hverja mynd.  Sá hlutur er fyrirferðarlítill en táknrænn fyrir myndefnið og tengingu þess við færeyska sögu, menningu og mannlíf. 

 

Báturinn á myndinni er hefðbundinn færeyskur árabátur sem stígur úfnar öldur fram hjá háum klettum.  Jesús stendur í stafni og lærisveinarnir sitja þétt í skutnum og óttasvipurinn leynir sér ekki.  Litli færeyski hluturinn sem listamaðurinn setur í þessa mynd er rekaviðarbútur, sem er keipa fest við borðstokkinn. 

 

Þessi listaverk prýða veggi safnaðarheimilis kirkjunnar í Klakksvík og eru vel þess virði að skoða þau þegar leiðin liggur þangað.

 

Margir listamenn hafa fengið innblástur úr sögum Biblíunnar.  Þær sögur eru einnig nytsamar fyrir alla því þær segja okkur svo margt um lífið.  Við erum stöðugt að læra og þurfum að tileinka okkur nýjar aðferðir og nýjan hugsunarhátt.  Það er himinn og haf á milli þess sem sjómenn fyrri tíðar þurftu að tileinka sér og þess sem nú er.  Tækninni hefur fleygt fram, veðurspár eru aðgengilegar og verða sífellt nákvæmari, veiðarfæri og vinnsla hafa þróast og fjarskipti hafa gjörbreyst.  Slysavarnir hafa eflst og miklu munar líka um slysavarnarskóla sjómanna sem kennir mönnum að bregðast við hættulegum aðstæðum og þjálfar þá í því. 

 

Á dögum lærisveinanna og allt fram á síðustu öld voru bátar knúnir áfram með afli manna.  Sjómennirnir réru og ekki var nóg að hafa keipu fasta við borðstokkinn ef engin var árin.  Handaflið var eina aflið áður en vélbátar komu til sögunnar í byrjun síðustu aldar.  Nú á tímum loftslagsbreytinga er margt sem þarf að huga að.  Unnið er að því að jarðefnaeldsneyti það sem hefur verið notað til að knýja vélar skipanna heyri brátt sögunni til og farið verði að nota repjuolíu sem unnin er úr plöntum sem ræktaðar eru hér á landi.  Hreinsun sjávarins er mikið verk sem verður að vinna svo lífið í sjónum fái dafnað og fæðukeðjan haldist hrein.  Margir sjá möguleika í fiskeldi í sjó og segja að huga verði að fæðuöflun fyrir alla jarðarbúa.  Vísindamenn hafa staðfest að illa horfir með framtíð lífs á jörðu vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum og stjórnmálamenn hafa biðlað til almennings um að taka höndum saman til að bregðast við þessari vá.  Við hljótum að vilja að börn okkar og afkomendur þeirra eigi sér framtíð hér á jörð. 

 

„Óþarfi að örvænta“ sagði Christiana Figureres, fyrrverandi framkvæmdastjóri rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingarnar, í blaðaviðtali.  Og er það ekki þetta sama sem Jesús sagði við lærisveina sína í bátnum.  Við getum farið á taugum eins og þeir en meistarinn bað þá um að róa sig og sýndi síðan það vald sem hann bjó yfir.  Það er valdið sem honum var gefið og það bæði á himni og á jörðu.  Í krafti þessa valds sendi hann hina hræddu og breysku lærisveina út í heiminn til að skíra og kenna.  Hann hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.  Hann sagði og það varð.  Það var líka þannig þegar Guð skapaði heiminn.  Hann sagði og það varð. Guð sagði meðal annars:   ríkið yfir fiskum sjávarins“.  Þessi orð fela í sér ábyrgð.  Maðurinn ber ábyrgð gagnvart sköpuninni.  Hann má nýta hana en hvergi er sagt að hann megi eyða henni eða skemma hana.  Umhverfisvernd er siðferðilegt mál og það eru viðbrögð við loftslagsbreytingunni einnig.  Mannkynið hefur misskilið skaparann hvað ábyrgðina varðar og talið sér trú um að allt vald væri í þess höndum.  Við eigum að sýna sköpunarverkinu virðingu og væntumþykju en ekki yfirgang.  Það er  samvinna alls mannkyns sem getur snúið við þeirri þróun sem átt hefur sér stað í loftslagsmálunum.

 

Sjómenn fyrri tíðar sem ekki höfðu aðgang að veðurspá, tölvum og tækjum snéru sér til þess sem hefur vald yfir hafdjúpinu.  Þeir fóru á sjó í Jesú nafni og lögðu sig og áhöfnina alla í hendur Guðs.  Ein austfirsk sjóferðabæn hefst á þessu versi:

Jesús með okkur jafnan sé

Jesús með sinni náðinni

Jesús á bak, Jesús á brjóst,

Jesús burt hrindi öllum þjóst,

Jesús um nótt, Jesús um dag

Jesús blessi vorn aflahag.

 

Einn aldinn  og farsæll skipstjóri sagði mér að hann hefði alltaf farið með þetta bænavers áður en hann lagði úr höfn:

Stýr mínu fari heilu heim
í höfn á friðarlandi,
þar mig í þinni gæslu geym,
ó, Guð minn allsvaldandi.

 

Allt er breytingum háð.  Menn áttuðu sig á því endur fyrir löngu.  Grískur heimspekingur, Heraklítos að nafni sem uppi var á 5. öld fyrir Krist sagði:  „Það endist ekkert nema breytingarnar“  Og þessi orð eiga vel við nú á tímum.  Það hafa gerst miklar breytingar og eru að gerast, jafnvel svo hratt að við verðum að hafa okkur öll við til að fylgjast með. 

 

Hér í Dómkirkjunni er fáni með  stjörnum, jafnmörgum og  hlutu hina votu gröf  á umliðnu ári. Nöfn þeirra og líf er geymt í hjarta Guðs. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra.

 

Nú á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum  svo í þögn

 

Veit þeim,  Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár.  Í Jesú nafni. Amen.

 

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen


Prédikun flutt í Dómkirkjunni og útvarpað á Rás 1