Sandar og samtal

Sandar og samtal

Íslenska orðið gagnrýni er skemmtilega gagnsætt. Það merkir einmitt að rýna í gegnum eitthvað, greina kjarnann frá hisminu, leita sannleikans í gegnum orðskrúð og ósannindi sem geta leitt okkur afvega. Gagnrýni á ekkert skylt við það að salla niður röksemdir og þá sem beita þeim.

Flutt 18. mars 2018 í Neskirkju

Eyðimörkin er í senn háskaleg og heillandi. Í eyðimörkinni erum við komin út fyrir samfélagið, finnum fyrir smæð okkar og umkomuleysi. Hún er prófsteinninn, mælikvarðinn á dug okkar og getu.

Hættulegar heiðar

Á Íslandi eru margar eyðimerkur, og tölfróðir hafa reynt að taka saman fjölda þeirra förumanna og ferðalanga sem hafa haldið í leiðangur á þær slóðir og ekki snúið aftur lifandi. Það eru ískyggilegar tölur. Jú, það er hættuspil að halda yfir háheiðar, með snarbröttum hlíðum og skriðum þar sem allra veðra er von. Nú eða þegar farið er á milli landsfjórðunga á milli jökla og uppblásinna mela á hálendinu.

Þegar ég var prestur á Ísafirði störfuðu við kirkjuna hjón frá Unaðsdal. Þau voru stolt af sínum dal og þrættu ekki þegar ég lýsti þeirri skoðun að hann bæri eitt fegursta örnefni á Íslandi. Þegar ég loks heimsótti þessar rómuðu slóðir varð ég fyrir svolitlum vonbrigðum. Dalurinn var lágur og hreint ekki eins tilkomumikill og margir aðrir dalir á Vestfjörðum sem drógu þó aðeins heiti sitt af því að þar hafði verið sel einhvern tímann í fyrndinni.

Unaðurinn sem dalurinn dregur heiti sitt af var þó vitaskuld sá að hann markaði endann á eyðimerkurgöngu ferðalanga sem héldu frá Jökulfjörðum yfir á Snæfjallaströnd. Þegar auðnin var að baki var sælan sú að geta farið niður í aflíðandi grösugan dalinn með búsmalann og hrossin. Ef hann hefði verið hömrum girtur með hvítfreyðandi fossa og flúðir hefði hann vafalítið vakið önnur viðbrögð og fengið annað nafn.

Svo þegar ég settist að á Suðurnesjum komst ég að því að mannskæðasta heiði landsins er ekki ein þeirra sem hæst gnæfa yfir sjávarmáli og safnar mestu snjómagni, heldur reynist hin sakleysislega Miðnesheiði eiga þann varasama heiður. Þótt íbúar í öðrum fjórðungum myndu vart kallast við að kalla þessa ávölu flöt, heiði, þá er nú staðreyndin sú að flestir hafa orðið úti á leið sinn milli bæja sem liggja meðfram ströndinni og hafa stytt sér leið yfir heiðina.

Eyðimörkin hefur því sterka tilvísun í Biblíunni. Hún er vettvangur harðneskju og prófunar. Hún stendur þarna í bakgrunni frásagna eins og áminning um að lífið mannsins er sjaldnast neitt sældarlíf. Þegar Ísraelsmenn fengu lausn frá þrælahúsinu í Egyptalandi tók ekki betra við. Nei, eins og við lesum um í lexíu dagsins tóku þeir óðara að kvarta undan hlutskipti sínu. Þeir hljóma eins og skipverjar Ingólfs er þeir komu til Íslands - „til ills fórum vér um góð héruð.“ Og hér spyrja þeir leiðtogann hvers vegna hann hafi lagt allt þetta á þá, til þess eins að deyja úti í eyðimörkinni.

Þarna kallast á tveir kostir - að vera þrælbundinn í samfélagi þar sem fólkið skipar lægstu stéttina, á allt sitt undir öðrum eða að búa við enn þrengri kost og háska á hrjóstrugum slóðum. Í framhaldi af möglinu í fólkinu kemur þessi lýsing á því þegar höggormarnir herja á fólkið eins og í refsingarskyni fyrir ólundina og óhlýðnina. Sagan kallast á við frásögnina þekktu úr aldingarðinum þar sem höggormurinn var í lykilhlutverki, nema hér er umhverfið gerólíkt. Rétt eins og þar verður hlutverk snákanna einhvern veginn tvíeggjað - þeir eru bæði eiturnöðrur sem valda dauða og þjáningum en um leið verður ormurinn tákn um lækningu og líkn. Það er hann enn þann dag í dag og við sjáum á glösum utan um lyf. Háskinn og hjálpin mæta okkur þar.

Óvinatal

Í guðspjallinu kynnumst við annars konar eitri. Ekkert er nýtt undir sólinni, hvort heldur hún bakar eyðimörkina eða skín á háheiðina. Hér hlýðum við á samtal Jesú við þá sem voru honum andsnúnir. Já, Jesús átti marga óvini og eins og við lesum um í guðspjallinu og þetta samtal er lýsandi fyrir það þegar andstæðingar reyna að klekkja á viðmælanda sínum.

Hér er kveðið við kunnuglegan tón. Við þekkjum það vel í umræðunni hér heima hvernig hún getur farið inn á þær brautir þar sem sjálft umfjöllunarefnið hættir að skipta nokkru máli en vegið er að fólki miskunnarlaust. Fjölmiðlar láta sig það margir einu varða hversu margar sekúndur fréttin varir og fjöldi dálkasentimetra hún fyllir að ógleymdu því hversu oft netráfarar smella á þær sögur sem birtar eru. Þá er gott að ala á sleggjudómum og vega að fólki með meiðandi ummælum.

Guðspjallið fjallar í raun um þessa skaðlegu hegðun og í textanum má með sama hætti greina hvað býr að baki þegar fólk leitar ekki eftir því að skilja viðmælandann, vill ekki auðlast þekkingu og vit heldur sækist fyrst og fremst eftir því að koma höggi á náungann. Hugsið ykkur þessa lýsingu, þeir beita aðferð sem enn í dag er óspart notuð til þess að leiða umræðuna á villigötur.

Þetta eru svokallaðar lokaðar og leiðandi spurningar - sem í rauninni er bara hægt að svara játandi eða neitandi. Það getur verið óþægilegt að fá svoleiðis lagað yfir sig enda er svarið stundum hvorki já eða nei. „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért samverji og hafir illan anda?“ Hversu margar hliðstæður getum við fundið við þessa aðferð sem þeir beita til að koma höggi á hann?

Þarna er reynt að draga fólk í dilka: Ertu ekki samverji? ertu í þessu liði en ekki hinu? ertu með eða á móti?

Þegar ég ólst upp skiptist heimurinn í grófum dráttum í tvennt - vestur og austur - og í símaskránni okkar hérna á saklausa Íslandi voru leiðbeiningar með skýringarmyndum um það hvernig við ættum að bregðast við ef kjarnorkusprengju yrði stefnt á landið. Maður blaðaði í þessu þegar beðið var við símann eftir að einhver svaraði!

Svo þegar þessar markalínur hurfu, bundu margir vonir við að nú væri menningin laus úr þeim fjötrum að skipa öllu og öllum í andstæðar raðir. Það reyndist öðru nær. Enn á ný er okkur skipt niður í fylkingar. Stundum lýstur þeim saman, stundum virðist fólki ómögulegt að draga ályktanir án þess að þar sé einn eða annar hópur með í myndinni og óttinn við að hann sé styggður eða móðgaður.

Umskurður

Nærtækt dæmi er umræðan um ónauðsynlegar skurðaðgerðir á drengjum sem lagt er til að verði ólöglegar á Íslandi. Allir sem koma að þessu samtali virðast sammála um að slíkar aðgerðir þjóni engum tilgangi, séu sársaukafullar og geti verið skaðlegar og jafnvel í verstu tilvikum leitt til dauða, þótt þau tilvik séu sem betur fer sárafá. En hvað varnar því að gengið sé ákveðið til verks og ómálga börnum sé hlíft við slíku inngripi? Jú, hópurinn skiptir meira máli en einstaklingurinn og umræðan fer yfir í gamalkunnar skotgrafir um fórnarlömb og gerendur.

Sjálft viðfangsefnið er svo löngu orðið tilefni flokkadrátta. Þegar biskupinn, blessaður, vogaði sér að kalla eftir samtali um þessi mál - eins og landlæknir gerði líka, þá upphófst orrahríð svívirðinga og ærumeiðinga.

Fátt er jafn skaðlegt opnu samtali, vegur meira að tjáningarfrelsi og lýðræði á okkar dögum en sú óöld sem ríkir á vettvangi umræðunnar. Fólk veigrar sér við að tjá skoðanir sínar ef von er á að það verði sett í einhvern hóp, markað einhverri fylkingunni og svo er haldið áfram að þjarka án þess að nokkur sé nokkurs vísari. Þegar vígmóðir hóparnir snúa sér að öðru verkefni er menn oftar en ekki jafn langt frá sannleikanum og þeir voru þegar leikar hófust.

Íslenska orðið gagnrýni er skemmtilega gagnsætt. Það merkir einmitt að rýna í gegnum eitthvað, greina kjarnann frá hisminu, leita sannleikans í gegnum orðskrúð og ósannindi sem geta leitt okkur afvega. Gagnrýni á ekkert skylt við það að salla niður röksemdir og þá sem beita þeim.

Jesús gefur okkur merkilegt fordæmi í þessu sambandi þar sem hann rýfur ítrekað mörkin á milli hópanna. Hann gefur sig einmitt að þeim sem standa utan við þau norm sem viðurkennd voru. Augu hans staðnæmast við þann sem fellur ekki inn í hópinn. Hann benti jú á að mælikvarði á siðferði okkar felst ekki í því hvernig við þóknumst þeim sem hefur hæst, segir það sem fellur í kramið og drögum dám af tíðarandanum. Nei, réttlát manneskja horfir til þeirra sem standa þar fyrir utan og hún væntir einskis á móti. Jesús rýfur öll þau mörk þegar hann gefur sig að fólki: kyn, aldur, kynþáttur, trú, allt þetta sem við notum þegar við myndum fylkingar - Jesús lætur sig það einu varða.

Sandar og samtal

Eyðimörkin hefur sérstaka merkingu í Biblíunni. Hún er eins og íslensku heiðarnar, áminning um það að lífið er fjarri því hættulaust. Hún er líka vettvangur prófunar og áskorunar. Leiðtogar rísa ekki upp í umhverfi þar sem allt er í blóma, nei það er einmitt í villum hásléttunnar eða í hrjóstrugu landslagi kletta og jökla sem þeir stíga fram sem geta leitt samfélagið að rótum þess unaðsdals þangað sem leiðinni er ætlað. Hver og einn sá sem hefur orð Jesú að leiðarljósi á slíka leiðtoga í lífi sínu en hann er ólíkur þeim sem skipa sér í fylkingarbrjósti hópanna að hann ávarpar okkur sem einstaklinga og minnir okkur á að okkar dýrmætustu skyldur búa í okkar minnstu systkinum. Það eru oftar en ekki þau sem fylkingarnar gleyma í algleymi átakanna.