Nú á þessum lokadegi kirkjuársins hlýðum við á guðspjallið um hina efstu daga. Það er viðeigandi á gamlársdegi kirkjunnar. Þegar við hugleiðum endalokin, kemur margt upp í hugann. Endalokin kallast á við dóminn, uppgjörið þar sem skilið er á milli þess sem vel er gert og þess sem miður fer.
Sigurður Pálsson
Endalok eru allt í kringum okkur. Sífellt kveðjum við eitthvað. Í lok dags á föstudaginn kvöddum við þá vinnuviku og mögulega fannst okkur sem hún væri nýbyrjuð – svo hratt líða dagarnir. Þessi helgi verður búin áður en við vitum og eins gott að nýta hana vel. Öllu vindur fram. Endalok verða með ógnvænlegum hraða í vistkerfinu, segja kunnugir. Í mannlegum samfélögum deyja tungumál út, á hverju ári með síðustu eftirlifendum. Og með þeim hugsun, sögur og menning.
Lífsreynslan talar til okkar á slíkum tímamótum. Nú í vikunni voru Sigurði Pálssyni, skáldi veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Fróðlegt var að hlýða á erindi hans til samfélags sem einatt stendur á mótum þess sem hverfur og hins sem tekur við. Sigurður talaði um tungumálið, sem hæfði stöðu hans og tilefninu. Hann ræddi umhyggjunni fyrir móðurmálinu en benti um leið á, að einangrun sé ekki ákjósanlegur valkostur, við slíkar aðstæður verður allt að endingu hrörnun að bráð. Íslenskan þrífst best í samfélagi þjóðtungnanna og nærist á samfélaginu.
Það vakti athygli mína hvernig hann setti þessa hugusun í siðferðilegt samhengi og benti á að þegar við lærum, ,,erlend tungumál setjum við okkur í annarra spor og getum þannig skilið þá dýpri skilningi.” Hér kemur að hann að kjarna þess sem í því felst að vera manneskja og lifa verðugu lífi – að geta speglað sig í öðrum, sjálfum sér til vaxtar og þroska en þeim til stuðnings og blessunar sem þarf á okkur að halda.
Siðvit og umhyggja
Það er einmitt þetta sem stendur upp úr í dómstexta þessa dags. Að setja sig í spor. Í því liggur grundvöllur alls siðvits og allrar umhyggju.
Frásögnin um konunginn sem kemur á efsta dagi og skilur að sauði og hafra fjallar um þessa lífsins list – að setja sig í spor. Hún er í senn fögur og grimm, eins og flestir þeir textar sem fjalla um hina efstu daga. Okkur hættir til að einblína á hið fyrra en loka augunum fyrir því síðara.
Þorsteinn heitinn Gylfason heimspekingur fjallaði um kristna trú í samtímanum í Skírnisgrein sem kom út um svipað leyti ég hóf nám í guðfræði. ,,Ljósið sem hvarf” heitir hún, og í henni finnur Þorsteinn nútímaguðfræðingum ýmislegt til foráttu, hversu útþynntur boðskapur þeirra væri og því haganlega sleppt sem passaði ekki tíðarandanum.
Svo vitnar hann í þetta guðspjall. Í framhaldi af orðunum þekktu, ,,allt sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér” – skrifaði hann: ,,hér má ég lúta höfði í lotningu fyrir þeim sem svo mælir. En kristinn maður verður að lesa lengra.” Og í kjölfarið vitnaði hann í niðurlag textans um þá sem ekki sinntu sínum veikustu systkinum og hlutu hin grimmustu örlög.
Ég velti því fyrir mér hversu vel þessi ádrepa Þorsteins hefur elst. Erum við ekki á þeim stað í dag að við sjáum fyrir okkur hlutskipti þeirra þjóða sem urðu eldinum að bráð? Af hverju skyldum við veigra okkur við að lesa texta um dóm og refsingu?
Skýringin á því kann að liggja djúpt í rótarkerfi kristninnar því einmitt sú hugsun að dæma náunga sinn, telja hann óverðugan og fordæmdan er í andstöðu við boðun Jesú frá Nazaret. Það að gera gagn, hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi – á ekki að vera unnið í því skyni að tryggja okkur sjálfum einhverja himnasælu.
Kristur varaði okkur við því að setja okkur í Guðs stað, en var um leið óvæginn þegar kom að því að útlista leikreglur guðs ríkisins og þær kröfur sem hann gerði til fylgjenda sinna. ,,Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það?” spyr hann í Fjallræðunni, ,,Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama? Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.”
Já, það er ekki lítið sem af okkur er krafist en um leið dregur þessi texti allan boðskap Jesú Krists. Það að koma vel fram við þau sem munu endurgjalda okkur velvildina, er hagkvæmt, sjálfsagt og eðlilegt. Það er ekkert kristilegt við það. Slíka hegðun sjáum við allstaðar í öllum mannlegum samfélögum og líka í ríki náttúrunnar.
Þar lýtur hinn undirokaði þeim sem völdin hefur eða binst bandalagi með þeim sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Þorsteinn hefur rétt fyrir sér þegar hann talar um að boðun kirkjunnar megi vera afdráttarlaus, og hann var að sama skapi meðvitaður um þá gagnsemi sem hún hefur fyrir samfélag sem leitast við að þroskast og dýpka frá kynslóð til kynslóðar.
Sjálfsmynd dómarans
Guðspjallið um hina efstu daga er alveg hreint magnað í þessu ljósi. Hér er hreint ekkert dregið úr mætti dómarans og valdi. Hann situr í hásæti og hann skipar bjargarlausum lýðnum sér til hægri og vinstri handar. Hver hlýðir ekki boðum slíks yfirvalds? Það fer heldur ekki á milli mála að allir eru fullir lotningar og beygja sig fyrir dómi hins æðsta. En það er eins og allt snúist við þegar hinn stóri og máttugi tekur að lýsa sjálfum sér. Þá blasir eitthvað gerólíkt við: ,,Því að hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að eta, nakinn og þér klædduð mig...”
Hvað er hér í gangi? Það von að hinir réttlátu stynji upp þeirri spurningu sem eðlileg getur talist, hvenær þeir hafi nokkru sinni aðstoðað þann sem svo mælir. Og það gera hafrarnir líka, sem hljótað hið versta hlutskipti. Hvenær synjuðum við þér um lið og stuðning?
Siðferði manna er ekki undir því komið hvernig þeir koma fram við þá sem hafa ráð þeirra í hendi sér. Þegar Jesús bendir fylgjendum sínum á að heiðingjarnir láni þeim sem mun borga til baka og séu vænir við þá sem gjalda líku líkt – dregur hann línu í sandinn, á milli þess að láta stjórnast af eigin hagsmunum, og þess sem prestssonurinn Sigurður Pálsson kallar að skilja aðra dýpsta skilningi. Sá sem er tilbúinn að færa fórnir fyrir náunga sinn – án þess að vænta nokkurs til baka, lifir að sönnu verðugu lífi. Þau snöggu umskipti sem verða, þegar dómarinn og valhafinn, dregur upp mynd af sér sem þurfandi og bjargarlausan, sýnir það svo skýrt.
Fáar ræður eru áhrifameiri en einmitt þessi lýsing á endalokunum. Allar götur hafa þau verið leiðarljós fyrir kristna menn sem hafa sannarlega fært fórnir til þess að mæta þörfum sinna minnstu bræðra. Þessi orð beinlínis hrópa á okkur þegar við verðum vitni að því er okkar minnstu systkin eru hrakin héðan úr landi, og jafnvel stefnt út í opinn dauðann.
Og textinn verður enn beittari þegar við leiðum hugann að því að þar er talað um að dómarinn kalli saman allar þjóðir. Hvers konar þjóð erum við sem sýnum slíka háttsemi? Allt það sem þér gjörðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki gjört mér. Hér birtist hin skilyrðislausa krafa, gullnu reglunnar í hnotskurn. Hún birtist vissulega í ýmsu samhengi, sem passív regla – gerðu ekki við aðra sem þú vilt ekki að þeir geri þér. En í boðskap Krists er hún aktív – Það sem þú vilt að aðrir geri þér, það skaltu þeim gera.
En víst má ekki hætta lestrinum, eins og heimspekingurinn benti á. Kristinn maður verður að lesa lengra og hann verður að hugsa alla leið hver áhrif gjörðir hans hafa. Hvað um þá sem ekki sinntu sínum þurfandi systkinum? Eru það mögulega þjóðirnar sem hljóta þann dóm eins og mögulega má ráða af texta guðspjallsins.
Við stöndum í tímamótum hins liðna og þess sem bíður. Allt lífið göngum við í gegnum slíkar krossgötur. Sumt af því sem mætir okkur er ekki á okkar valdi en annað er það sannarlega – einkum það hvernig við sjálf túlkum aðstæður, hvernig við breytum og hvaða fjársjóðir það eru í hjarta okkar sem við kjósum að varðveita. Framtíðin er hulin en ef við leggjum traust á Guð og fylgjum boðum hans mun okkur farnast vel. Gefum skáldinu Sigurði Pálssyni lokaorðin:
Treystu náttmyrkrinu fyrir ferð þinni
heitu ástríku náttmyrkrinu
Þá verður ferð þín full af birtu
frá fyrstu línu til þeirrar síðustu