Af litlum neista: Konur styðja konur

Af litlum neista: Konur styðja konur

Látum þetta berast! Íslenska þjóðkirkjan er að gera svo margt gott, þetta er eitt að því.

Það er full ástæða til að fagna ævintýralegri útbreiðslu námskeiðs sem kallast “konur eru konum bestar”. Á kvennaáratug Alkirkjuráðs 1988-1998 varð til spennandi námskeið í Noregi samið af guðfræðingnum Maju Osberg sem bar þetta skemmtilega heiti. Þar var vörn snúið í sókn og mótmælt þeirri gömlu mýtu sem segir að konur séu konum verstar. Námskeiðið var vinsælt og það var þýtt á íslensku.

Námskeiðið “konur eru konum bestar” fær byr undir báða vængi þegar Halla Jónsdóttir kennari hafði einfaldað og staðfært efnið og það átti eftir að njóta gríðarlegra vinsælda allt frá síðasta áratug síðustu aldar og til dagsins í dag. Það er kennt víða um land í söfnuðunum Þjóðkirkjunnar og einnig hefur Hjálparstarf kirkjunnar boðið upp á slík námskeið. Halla hafði námskeiðið meira og minna í kollinum en þegar fleiri fóru að kenna það tók sr. Petrína Mjöll Jóhannsdóttir efnið saman í lítið hefti fyrir leiðbeinendur.

Árið 2008 fór undirrituð ásamt Magneu Sverrisdóttur djákna á kvennaráðstefnu í Póllandi og þar kynntum við námskeiðið. Það er skemmst frá að segja að það vakti mikla athygli og forvitni og þá fór boltinn að rúlla. Við buðum uppá námskeið fyrir konur í Vestur-Evrópu deild kvennastarf Lútherska heimsambansins í Uppsala, þar sem konur frá Norðurlöndunum, Þýskalandi og Póllandi tóku þátt. Við héldum stutta kynningu á heimsþingi LH í Bogota í Kólumbíu. Síðar höfum við Halla Jónsdóttir haldið leiðtogaþjálfunar námskeið á Norðurlöndunum og í kjölfarið hefur heftið góða verið þýtt á ensku, finnsku og sænsku.

Það er ljóst að ekki sér fyrir endann á þessu ævintýri og í pípunum eru fleiri leiðtoganámskeið sem við Halla Jónsdóttir munum leiða. Það er stórkostlegt að fá að taka þátt í að breiða út svona jákvæðan og uppbyggilegann boðskap. Það hafa verið forréttindi að vinna með Höllu Jónsdóttur sem hefur einstaka hæfileika til að leiða námskeið sem þessi, hún er gríðarlega reynd en hún hefur einnig fengið náðargjöf sem birtist svo fallega þegar hún leiðir vinnu sem þessa. Ég er þakklát fyrir starf hennar auk annarra kvenna sem ég hef nefnt hér og svo allra hinna sem hafa tekið þátt í ævintýrinu.

Látum þetta berast! Íslenska þjóðkirkjan er að gera svo margt gott, þetta er eitt að því.