Feðraorlof - frábær reynsla

Feðraorlof - frábær reynsla

Síðastliðið haust var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá tækifæri til að nýta þau réttindi sem feðrum býðst og taka fæðingarorlof. Við hjónin eignuðumst dreng í apríl s.l. og ákváðum að okkur myndi henta vel að taka orlofið í haust. Þær 8 vikur sem um ræddi tók ég nánast í einni samfellu.

Síðastliðið haust var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá tækifæri til að nýta þau réttindi sem feðrum býðst og taka fæðingarorlof. Við hjónin eignuðumst dreng í apríl s.l. og ákváðum að okkur myndi henta vel að taka orlofið í haust. Þær 8 vikur sem um ræddi tók ég nánast í einni samfellu.

Ég hafði hlakkað mikið til þessa tíma og sá fram á meira næði til að mynda sterkari tengsl við nýja fjölskyldumeðliminn, vera í fríi frá starfinu og þar með laus undan því áreiti sem því fylgir (án þess að það sé neikvætt í sjálfu sér). Þegar tíminn rann upp var ég búinn að reyna að tryggja það að starfið í söfnuðinum héldi áfram, en nágrannaprestur leysti mig af þennan tíma.

Við skipulögðum saman starfið þennan tíma þannig að ég fór áhyggjulaus í orlofið. Vikurnar liðu hratt en voru sérstaklega dýrmætur tími. Í raun fékk ég miklu meira út úr orlofinu en ég átti von á. Vinnustaður minn er að öllu jöfnu á heimili mínu, á minni skrifstofu, þannig að maður er svosem oft innan veggja heimilisins.

• • •

En hvað sem því líður þá var þetta auðvitað allt annað, að geta verið heima og hafa engar starfsskyldur eða ábyrgð aðra en þá sem tengist fjölskyldu og heimili. Þessi tími var ekki bara dýrmætur fyrir mig persónulega og soninn unga heldur ekki síður fyrir okkur hjónin, mig og hin börnin þrjú á heimilinu, heimilið sjálft og stórfjölskyldu mína á höfðuborgarsvæðinu.

Það var eftir því tekið hvað ég var afslappaður og naut tilverunnar. Við hjónin fengum tíma fyrir okkur sjálf, gátum komið ýmsum hlutum í verk á heimilinu sem höfðu setið á hakanum, sóttum ungbarnasundnámskeið á Sauðárkróki með drenginn og hreinlega ræktuðum hvort annað. Hin börnin fengu meiri athygli frá pabba en oft áður, ég gat gefið mig meira að þeim, það var ekki fundur hér eða fundur þar, ég var ekki "alltaf í tölvunni" eins og eitt barnið komst að orði.

Ýmis gæluverkefni innan heimilisins komust í verk þar sem við hjónin "dúlluðum" okkur við að koma reglu á ýmislegt innan heimilisins, einkum meðan sonurinn svaf svefni sínum.

• • •

Stórfjölskyldan naut einnig orlofsins. Konan mín á ömmu hér á Hvammstanga en að öðru leiti býr hennar fólk erlendis. Mín fjölskylda býr á höfuðborgarsvæðinu og vorum við dugleg að fara suður og dvelja þar um helgar, og jafnvel lengur. Það var e.t.v. fengið frí fyrir krakkana einn dag í skóla til að lengja helgina. Þetta var öllum afar dýrmætt líka. Amma og afi barnsins fengu tækifæri til að fylgjast enn betur með þessum tíma sem barnið tekur svo miklum framförum, ég fékk tækifæri til að rækta fjölskylduna sem allt of oft hefur verið gert á hálfgerðum hlaupum eftir að ég flutti norður.

Þegar á heildina er litið var þetta tækifæri einstaklega gott og hvet ég alla feður til að hugsa sig ekki um tvisvar þegar svona tilboð er annars vegar.

Ég fann það einnig líka hversu mikið hagsmunamál það er fyrir presta að hafa regluleg frí án ábyrgðar, fjölskyldunnar vegna. Kirkjan sem stofnun þarf auðvitað að bregðast við og aðlagast þessum nýja veruleika því eins og flestir prestar vita þá er prestsstarfið ekki fjölskylduvænasta starfs sem þekkist. Þess frekar er nauðsynlegt að nýta þessi réttindi.

Einnig er það spurning hvernig afleysingu skuli háttað. Er það bara ekkert mál að embætti sé þjónað í aukaþjónustu á tíma sem er einn virkasti tími safnaðarstarfs? Hvaða skilaboð eru það um mikilvægi og umfang starfsins? Jafnvel þó samstarfið sé eins náið og gott og hjá mér og mínum nágrannapresti þá er þetta fyrirkomulag ekki gallalaust frekar en annað. Þetta þarfnast umræðu.