Hrokinn hættulegi

Hrokinn hættulegi

,,... set þig ekki í hefðarsæti.... Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti …” Við skulum setjast aftar og bíða eftir að okkar tími komi. Þó að misvitrir og misvelviljaðir samferðamenn hvísli í eyrun og segi okkur að hefðarsætið sé laust, jafnvel okkur ætlað ...
fullname - andlitsmynd Ursula Árnadóttir
21. ágúst 2008

Atburðir liðinna mánuða í borgarpólitíkinni vekja mig til umhugsunar um dæmisögu Jesú í Lk 14:7. Dæmisagan fjallar um röðun í hefðarsæti. Þessi saga og raunar fleiri dæmisögur frelsarans eru mér endalaust umhugsunarefni og atburðir líðandi stunda vekja oft hugrenningatengsl við sögur Biblíunnar, þann brunn sem aldrei þornar. Jesús segir:,,... set þig ekki í hefðarsæti.... Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti …” , þ.e. að við skulum setjast aftar og bíða eftir að okkar tími komi. Þó að misvitrir og misvelviljaðir samferðamenn hvísli í eyrun og segi okkur að hefðarsætið sé laust, jafnvel okkur ætlað, þá þarf hver og einn að skoða vel hug sinn og fara eftir eigin samfæringu, velja rétta stund og stað. Þetta þurfum stjórnmálamenn að vita og einnig við hin sem stöndum á tímamótum og viljum finna okkur nýtt sæti þar sem við getum látið gott af okkur leiða og áhugasvið okkar liggur.

Hrokinn og sjálfhverfan færa okkur frá Guði og fær okkur til að hefja upp eigið ágæti, stundum á kostnað annarra. Hrokinn verður til þess að við sjáum ekki bresti okkar og galla og missum af tækifærum til að bæta okkur og þroskast. Við sem höfum verið að sækja um laus prestsembætti þurfum sérstaklega að gæta þess að glata okkur ekki í sjálfsupphafningu og hroka. Það er ætlast til þess að við teljum fram allt það sem við höfum fram að færa, allt sem við kunnum og allt sem við höfum áorkað. Sumir eiga erfiðara með það en aðrir, finnst það ekki samrýmast þeim ,,vegi“ sem Kristur ætlar okkur að ganga. Eitt er víst að við þurfum að gæta þess að villast ekki út af veginum rétta. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa raunhæft sjálfsmat en ofmat á afrekum okkar og hæfileikum er ekkert annað en dramb og hroki. Stundum finnst mér við vera hvött til slíks. Jafnvel hvött til að gera meira úr hæfileikum okkar en efni standa til og sá sem geri það best sé um leið bestur.

Auðmýktin en andstæða hrokans. En til að vera auðmjúkur þarf sterkan persónuleika. Persónuleika sem þekkir sjálfan sig og velkist ekki í vafa um getu sína, reynslu, gildi og stefnu. Auðmýktin er virðing fyrir sköpun Guðs og fullvissa um að allt sem þegið er, sé þegið frá Guði og maðurinn gerir ekkert af eigin mætti. Heilagur Bernarður af Clairvaux (1090-1153) segir í riti sínu: Stig auðmýktarinnar. Leitaðu sannleikans um Guð og þú upplifir kyrrð og innri frið, leitaðu sannleikans um náungann og þú finnur til samúðar, leitaðu sannleikans um sjálfan þig og þú fyllist auðmýkt. Annar góður maður sagði:,,Auðmýktin er þannig að um leið og þú segist hafa hana, þá hefurðu hana ekki.“

,,Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Lk 18:14.