Gamla fólkið og gróandinn

Gamla fólkið og gróandinn

Augu mín staðnæmdust við gamla konu með innkaupatösku. Hún var í rósóttum litfögrum kjól, berfætt og gekk glaðlega niður eftir götunni í átt að glugganum mínum. Hún komst þó ekki langt því allir sem þekktu hana virtust þurfa að tala við hana. Hvaða kona er nú þetta?

Ég hallaði mér út um gluggann og horfði upp eftir þröngri götunni iðandi af lífi. Ég var stödd í gömlu hverfi í suður Evrópu. Það var að nálgast síestu og konurnar farnar að kaupa í matinn. Karlarnir stóðu á götuhornum og spjölluðu. Margir sem ég sá voru eftirlaunaþegar, en kannski veitti ég þeim bara mesta athygli. Augu mín staðnæmdust við gamla konu með innkaupatösku. Hún var í rósóttum litfögrum kjól, berfætt og gekk glaðlega niður eftir götunni í átt að glugganum mínum. Hún komst þó ekki langt því allir sem þekktu hana virtust þurfa að tala við hana. „Hvaða kona er nú þetta?“ hugsaði ég með mér. Brátt áttaði ég mig á, að upp eftir allri götunni mátti sjá svipaða sjón. Eldri borgarar á spjalli.Útivera, hreyfing og mannleg samskipti samofin daglegu lífi og hversdagslegum hlutum eins og að kaupa í matinn. Mér varð hugsað til eldri borgara á íslandi, aðstæðna þeirra, félagslegra samskipta, heilsunnar, veðráttunnar og vetrarins.

Margur eldri borgarinn býr við það í harðbýlu landi að komast sjaldan út úr húsi yfir veturinn og geta því lítið stundað hreyfingu. Kuldinn sækir að lúnum beinum og vöðvum, sem stirðna upp og stífna. Önnum kafnir afkomendur hafa oft minni tíma en þeir vildu fyrir eldri kynslóðir. Eldri borgarar búa því oft við einangrun sem veðráttan bætir ekki úr.

Veðráttan er glíma Íslendingsins sem nútímamaðurinn hefur að hluta leyst með upphituðum húsum, bílaeign og hreyfingu í líkamsræktarsölum.

En nú er sumarið er komið, lífið að kvikna allt um kring. Litir skerpast og brátt springa blómin út, breiða úr sér og birta okkur allt litróf Skaparans.

Við þekkjum hringrás árstíðanna. Á eftir vori kemur sumar, síðan haust og þá vetur og loks aftur vor. Með hækkandi sól, yl og birtu lifnar við og blómstrar gróðurinn, sem og mannfólk allt. Þó getum við flest farið allra okkar ferða í vetrarríki landsins okkar.

Margur eldri borgarinn hefur átt þess kost að leita á suðlægari slóðir undanfarna áratugi. Lengt með því vorið og sumarið, notið þar félagskapar hvert við annað og innfædda. Fengið hreyfingu með göngu í hlýju loftslagi þar sem vöðvar mýkjast, beinin liðkast og verkir minnka. Hverfa jafnvel.

Í liðlega tvo áratugi hef ég verið svo lánsöm að hafa verið vitni að því hvernig eldri borgarar þessa lands hafa blómstrað á vorin á suðlægum slóðum. Vaknað til lífsins. Það hefur verið gleðileg reynsla, lærdómsrík og vekjandi.

Það varð svo skýrt fyrir mér að góð heilsa, dagleg hreyfing og æskufjör er ekki sjálfsagður hlutur. Hvað þá dagleg samskipti við aðrar mannverur.

Í þessari samveru hef ég orðið vitni að raunverulegri umbreytingu fólksins okkar. Umbreytingu sem svo mikil að það hefur verið tilhlökkunarefni að sjá breytingu hvers dags fyrir sig.

Gráminn í kinnum hverfur dag frá degi og roði kemur í staðinn, þung sporin léttast, klæðnaðurinn veður litríkari og konur og karlar skrýðast björtum glöðum sumarlitum. Hlátur heyrist oftar og verður bjartari. Kátína og glettni slást í för og verða kærkomnir ferðafélagar. Líkamlegt og andlegt atgervi tekur daglegum farmförum.

Ár eftir ár hef ég orðið vitni að og fengið að njóta þess að sjá þessa upprisu eldri borgaranna okkar á erlendri grundu. Ég þakka Guði fyrir það veganesti.

Það er fjársjóður sem yljar mér og endist ævilangt. Því í honum eru fólgnar svo fagrar myndir af eldra fólki, sem blómstrar undir suðrænni sól, umvafið hlýju sem gælir við vöðva og lúin bein, í glaðværu samfélagi þar sem hlýhugur og vinarþel ríkir.