Heilinn og moldin

Heilinn og moldin

Heilinn og moldin eru því viðfangsefni dagsins. Hvort tveggja virðist vera svo einstakt að engin dæmi þekkjum við um neitt viðlíka í víðáttum himingeimsins. Og þó er það svo viðkvæmt.

Þeir segja að heilinn okkar sé flóknasta fyrirbærið sem vitað er um í alheiminum.


Hvort tveggja er einstakt


Í kolli okkar er frumur í milljarðavís sem senda rafboð sín á milli og það gefur auga leið að fjöldi slíkra boða hleypur stjarnfræðilegum tölum. Hver tenging er einhver reynsla, þekking og skynjun svo úr þessu verður einhver makalaus sköpun. Ekkert fyrirbæri þekkjum við í víðáttum himingeimsins sem jafnast á við þennan gráa massa sem býr í höfuðkúpu okkar.

 

Svo er það moldin undir fótum okkar. Hún er víst algjört undur líka. Hún myndar örþunnt lag ofan á þurrlendi jarðar sem er í besta falli fáeinir tugir sentimetra. Þessi skán er hvílir á samstarfi örvera, dýra og plantna er svo margbrotin að tækjabúnaður okkar mannanna getur ekki enn með nokkru móti leikið eftir það ferli.


Og já eins og allt gott í þessum heimi byggir hún á hringrás þar sem dauðinn nærir lífið og lífið dauðann. Þetta skynjum við vel nú á hausti þegar lífvana blöðin fjúka af trjánum og samlagast jarðveginum. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að við þekkjum enga aðra mold í alheiminum nema þessa jarðnesku.

 

Það segir nú sitt um þessi tvö mögnuðu fyrirbæri, heilann og moldina, að hversu einstök sem þau eru og á sinn hátt fullkomin – að á þeim eru fleiri hliðar og furðulegri.  

 

Óróleiki og hjörðin

 

Heilinn okkar er jú óróleikinn uppmálaður. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir þar að auki fram á hversu furðulegar ákvarðanir fólks geta verið. Fræðimenn hafa gert alls kyns tilraunir sem leiða þessa staðreynd í ljós og nú á þessum síðustu tímum hafa klókir menn nýtt niðurstöður þessar með fádæma árangri.

 

Við erum að átta okkur á því að val fólks, neytenda, kjósenda, afneitara má rekja til lymskulegs áróðurs þar sem einmitt er unnið með veikleika þess sem í kolli okkar býr. Við þurfum ekki annað en að „elta aurana“ eins og gjarnan er sagt. Þeir enda í höndum fámenns hóps sem sölsar undir sig æ stærri hluta af auði heimsins.

 

Þetta ferli birtist okkur vissulega á öðrum tímum. Mörg dæmi eigum við úr sögunni sem leiða í ljós hversu vanmáttug manneskjan er fyrir hópþrýstingi. Það er eins og hún fylgi hjörðinni í hugsunarleysi jafnvel þótt hún stefni fram af hengifluginu. Það þarf mikinn styrk til að standast þann þrýsting. Ef við gætum okkar ekki þá getur rænt okkur því dýrmætasta sem við eigum – sem er hæfnin til að taka sjálf mikilvægustu ákvarðanirnar í lífinu, það eru þau dýrmætu gæði að vera við sjálf.

 

Þögnin og sjálfið

 

Þessi texti sem við hlýddum á hér úr guðspjöllunum fjallar um ákveðin tengsl á milli huga og moldar. Hann er hluti lengri ræðu, Fjallræðunnar, þar sem Jesús er úti í náttúrunni og flytur boðskap sinn fólkinu. Við lesum já, um samskipti hans við fjöldann en það er eins og hann vilji líka minna okkur á það hversu vandasamt það getur verið að finna sinn stað í tilverunni mitt í mannmergðinni.

 

Sjálfur lagði Jesús oftar en ekki leið sína út í náttúruna. Þá dró sig út úr mannfjöldanum og átti kyrrláta stundu með sjálfum sér og sínum nánustu. Þar í helgidómi jarðargróðans, í skógarlundi, á grösugum brekkum eða umkringdur litríkum krónublöðum sótti hann sér endurnæringu.

 

Og nú beinir hann sjónum okkur þangað. Textinn er vissulega dæmigerður fyrir fjallræðuna – sem er full af þverstæðum og ólíkindum. Já, heilinn okkar bregst ókvæða við þegar hann segir okkur að hafa ekki áhyggjur af fæðu okkar og klæðum og bendir á það hversu áhyggjulausar liljurnar virðast vera.

 

Samstarfskona mín sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir heldur úti hlaðvarpinu Guð-spjall ásamt sr. Sveini Valgeirssyni. Í umfjöllun sinni um þennan texta segir hún að einhver kunni að spyrja: „Hvurslags hálfviti segir svona?“ Mitt í öllum þrengingum hlýtur fólk að hafa áhyggjur af framfærsu sinni og sinna!


Fyrsta boðorðið

 

Þau kryfja þennan texta og hann kallast á við sjálft fyrsta boðorðið – sem er nánast eins og inngangur að allri Biblíunni: „Ég er Drottinn Guð þinn þú skalt ekki aðra Guði hafa.“ Og þar sem Jesús talar um að við gerumst þjónar mammons þá vísar hann í þessa grunnreglu. Því boðorð þetta dregur ekki manneskjuna niður, þvert á móti það upphefur manninn – flókinn heila hans sem er jú af moldinni kominn og verður aftur að moldu.

 

Boðskapurinn er ekki að við eigum að vera einhverju undirgefin, heldur þvert á móti, frjáls. Peningar og annað það sem við eltumst við er ekki þess virði að við þjónum því. Það á líka við um hugmyndirnar sem eru sumar svo galnar að það er eins og við slökkvum á skynseminni í fylgispekt okkar við þær. Og það á líka við um fólkið sem reynir í sumum tilvikum að leiða okkur fram af bjargbrúninni.

 

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Við eigum ekki að vera þjónar auðs og áhrifa. Aðeins sjálfur skaparinn sem mótar okkur í sinni mynd er verðugur þess að vera andlag átrúnaðar okkar.


Hinir þöglu lærimeistarar

 

Og þá getum við séð fyrir okkur kyrrðina innan um liljur vallarins þar sem einu hljóðin sem berast er söngur fuglanna. Þar ómar enginn áróður, engin málafylgja. Hvað býr í því hljóði? Er það ekki sjálft upphafið? Hinir þöglu lærimeistarar, liljurnar og fuglarnir eiga erindi við okkur. Það að geta hlustað, að hvíla í andartakinu er forsenda þess að geta lært og þroskast. Þar fær hver rödd að heyrast og hávaði lýðskrumara er víðsfjarri. Og þannig erum við andspænis Guði.

 

Þannig segir danski guðfræðingurinn Sören Kierkegaard: „Að biðja er ekki það að heyra eigin rödd heldur að mæta til hljóðrar samveru, og að sitja áfram í þögninni þangað til biðjandinn heyrir í Guði.“ Með þeim hætti verður bænin vettvangurinn þar sem við mætum Guði því að friðurinn býr í þögninni og þar er Guð líka. Hávaðinn í hjörðinni rænir manneskjuna ekki aðeins vitinu og sjálfinu.

 

Hann tekur líka frá okkur Guð. Þannig verða orðin í niðurlagi textans eins og dýrmæt skilaboð til okkar um það hvar við eigum að byrja leit okkar að Guði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis og þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ Við getum orðað þetta í ljósi samhengisins á þennan hátt: lærið fyrst að dvelja í þögninni, þá heyrið þið í Guði. Þessi hugsun gengur út á það að við lærum af blómunum. Í þeim býr mikill sannleikur, ekki satt? Hver er hann? Jú þar finnum við enga hálfkák eða hikandi. Við vitum, að þegar allt er með felldu þá heilsa liljurnar okkur með litríkum blómum og fuglarnir syngja sinn söng. Með sama hætti eigum við að vera heil í okkar afstöðu til lífsins, í kærleikanum og trúnni.

 

Heilindi

 

„Heilabrotin gera oss alla að gungum“ sagði annar þekktur dani – prinsinn Hamlet og þar má vel vera að kveðið sé við sama tón. Í hikinu og efanum erum við svo ólík þessum fjársjóðum sem vaxa upp af moldinni. Þar er allt heilt og satt og óskipt. En við gerumst þrælar þess sem við ættum sjálf að gera okkur undirgefin. Það er þegar við fylgjum hávaðanum í umhverfi okkar, þeim sem gera okkur að trúfíflum og ræna okkur um leið mennskunni, því sem gerir okkur að því sem við erum.

 

Þannig verða liljurnar og fuglarnir kennarar í æðruleysi. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér en þau eru trú köllun sinni og leitast í sífellu við að uppfylla möguleikana sem í þeim búa.

 

Þögnin leiðir okkur fram fyrir Guð. Og upp úr henni skynjum við gleðina. Látum morgundaginn hafa sínar áhyggjur. Þetta myndi nútíminn kalla núvitund en ekkert er nýtt undir sólinni. Kristur talar þessi orð inn í samhengi Biblíunnar. Verum ekki undirgefin hinu forgengilega. Ef þjáningar bíða okkar á komandi degi. Þá skulum við mæta þeim þegar þær koma. Eyðileggjum ekki gleði þessa dags.

 

Hvað er það að vera þræll hins heimtufreka guðs sem Mammón nefnist? Það er óeðlilega ástand mannsins, þar sem áhyggjurnar af peningum, fæðu og klæðum, hafa borið lífsgleðina ofurliði og rænt okkur þeirri hamingju sem því fylgir að eiga sér sanna trú í hjartanu. Þetta er ekki hið náttúrlega ástand okkar. Þetta ástand rænir okkur þeim sanna tilgangi sem líf okkar býr yfir.

 

„Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.“

 

Svarið kemur þó ekki fram í þessum orðum. Tilgangur okkar er ekki sá sami og fuglanna eða blómanna sem vaxa, nærast, fjölga sér og deyja. Enginn skyldi túlka orð Krists um hið náttúrulega og eðlilega ástand á þá lund að við ættum að kæra okkur kollótt um það sem lífið krefst af okkur. Við eigum að leita guðsríkis og réttlætis. Þá fáum við frið í sálina.

 

Heilinn og moldin

 

Heilinn og moldin eru því viðfangsefni dagsins. Hvort tveggja virðist vera svo einstakt að engin dæmi þekkjum við um neitt viðlíka í víðáttum himingeimsins. Og þó er það svo viðkvæmt. Kollurinn okkar nærist ekki á hávaða. Hann þarfnast kyrrðar og þagnar til þess að geta starfað svo sem honum er ætlað að gera. Helgidómar náttúrunnar eru meðal þess sem líða þegar ærandi niðurinn rænir okkur sjálfræðinu. Jesús beinir þvert á móti huga okkar að þögninni og fegurðinni.