Dýrð, vald og virðing

Dýrð, vald og virðing

Þegar makinn áttaði sig þá á því að viðmælandi sinn væri umræddur heilsugæslustarfsmaður, sem hann hafði snöggreiðst við í símanum nokkrum vikum áður ræddu þeir málið sín á milli með valdi sáttar og fyrirgefningar.
fullname - andlitsmynd Sigurður Arnarson
16. júlí 2012
Flokkar

“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.”

Læknirinn á heilsugæslunni hafði ekki fyllt lyfseðillinn rétt út og þess vegna gat lyfjafræðingurinn í apótekinu ekki afgreitt lyfið fyrr en þeir höfðu rætt saman.

En það náðist ekki strax í lækninn vegna þess að hann var upptekinn í viðtali við annan sjúkling.

Þegar maki þess, sem átti að fá lyfið hringdi pirraður og óþolinmóður á heilsugæslustöðina til að kanna með framvindu málsins fannst honum starfsmaður heilsugæslunnar svara sér af dónaskap og óþolinmæði um málið.

Hann hellti þá úr skálum reiði sinnar yfir viðkomandi heilsugæslustarfsmann.

Vald reiðinnar tók yfirhöndina. Starfsmaður heilsugæslunnar baðst afsökunar ef um dónaskap hefði verið að ræða af sinni hálfu og róaðist makinn og þeir kvöddust.

Stuttu síðar hringdi læknirinn í sjúklinginn en fyrir svörum varð makinn.

Læknirinn baðst afsökunar á því, sem hafði átt sér stað með lyfseðilinn og sagði makinn þá málinu lokið af sinni hálfu. ___________________

Í seinustu viku hittust svo makinn og starfsmaður heilsugæslunnar út af allt öðru máli.

Þegar makinn áttaði sig þá á því að viðmælandi sinn væri umræddur heilsugæslustarfsmaður, sem hann hafði snöggreiðst við í símanum nokkrum vikum áður ræddu þeir málið sín á milli með valdi sáttar og fyrirgefningar.

Makinn skammaðist sín fyrir að hafa látið reiðina leiða sig í gönur.

Þetta er saga úr íslenskum veruleika.

Og fleiri eru þær sögurnar, þar sem skyndireiði, streita, þreyta, hræðsla, vanmáttakennd og pirringur hefur tekið völd í samskiptum fólks.

Oft af litlu eða engu tilefni. ___________________________

Í kvikmyndinni “Hinir ósnertanlegu”, sem nú er verið að sýna í kvikmyndahúsum í Reykjavík er fjallað um samskipti tveggja ólíkra manna, sem búa við mismunandi aðstæður.

Kvikmyndin er byggð á sannsögulegum atburðum og í henni eru stef eins og til dæmis; kærleikur, skilningur, einlægni, hispursleysi, traust, virðing og vald.

Annar mannana í kvikmyndinni er hrjúfur í framkomu, nýkominn úr fangelsi eftir að hafa afplánað hálfs árs dóm vegna afbrota.

Til að komast á atvinnuleysisbætur verður hann að sýna fram á að hann hafi leitað sér að atvinnu.

Við þá leit verður á vegi hans auðugur maður, sem er lamaður upp að hálsi og er leita sér aðstoðarmanneskju.

Hinn auðugi er öðrum háður með ýmislegt og verður þess vegna að treysta á hjálp annarra. Hann verður að fela sig öðrum á vald með flestar daglegar þarfir.

Hann ákveður að treysta manni, sem kemur úr ólíkri átt.

Og til verður vinátta á milli tveggja mjög ólkra manna.

Þeir styðja hvorn annan og styrkja og eru ekki að sýnast vera annað en þeir eru.

Þeir koma fram við hvorn annan, sem jafningjar, taka hvor öðrum eins og þeir eru.

Tortryggni, fordómar og vantraust víkja fyrir trausti, gleði og vináttu. ________________

Öll höfum við vald, ýmist í stóru eða smáu.

Og það fylgir því mikil ábyrgð að hafa vald.

Birtingarmyndir valdsins eru margvíslegar, bæði góðar og slæmar.

Vald getur leitt til góðs og gæfu.

Vald getur leitt til ofbeldis, stríðs, skorts eða örvætningar.

Vald er máttur.

Vald yfir eignum og vald yfir fólki.

Og mörg finna til valds.

Vilja til dæmis hefnd ef samferðarfólk mætir því ekki á þann hátt sem þau kjósa.

Skyndireiði tekur völdin eins og í sögunni hér að framan á milli makans og starfsmannsins á heilsugæslunni.

Ég hef vald yfir því hvort ég vilji mæta samferðarfólki mínu í þessu lífi með kærleika, virðingu, trausti og gleði eða með skyndireiði, minnimáttarkennd, fordómum eða neikvæðni.

Það er ábyrgð mín, sem kristinnar manneskju að vera stöðugt meðvituð um hegðun mina og breytni. _____________________ Í guðspjalli dagsins hjá Mattheusi er sagt frá seinasta fundi Jesú með lærisveinunum ellefu.

Þar fullvissar Jesús þá um vald sitt, gefur þeim það markmið að fara og gera alla jarðarbúa að lærisveinum sínum og lofar þeim nærveru að eilífu.

“Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Og í lexíu dagsins segir spámaðurinn Jesaja:

“Óttast þú ekki því að ég er með þér.”

Að vera lærisveinn Jesú er að þjóna lífinu, náunganum og Guði almáttugum. Guð birtist okkur í orðum Jesú Krists.

Sumum er um megn að finna orðum Jesú Krists farveg í breytni og láta orð Jesú bera ávöxt í lífi sínu gagnvart öðru fólki.

Þar liggur vandinn, enda gegn margra alda viðhorfum í mannlegum samskiptum.

Sumir vilja hefnd, þegar einhver er ekki eins og viðkomandi vilja og vilja tortíma, þegar einhverjir sýna dónaskap.

Hallgrímur Pétursson snýr þessu alveg við í síðast versi Passíusálmanna: Dýrð, vald virðing.

Mennirnir í kvikmyndinni “Hinir ósnertanlegu” litu á hvorn annan, sem jafningja þess vegna náðu þeir saman, þó ólíkir væru og kæmu úr ólíkum áttum.

Þeir gáfu sig vináttu, skilningi ogvirðingu á vald í samskiptum við hvorn annan. ___________________

Ef Jesús hefur rétt fyrir sér, þá er eina valdið, sem manneskja getur gengið út frá í eigin lífi, valdið til þess að láta laust frá heimsins mælikvarða og þeim gildum, sem mest er haldið á lofti í mannlífinu.

Í pistili dagsins segir meðal annars: “Eða vitið þér ekki að allir vér sem skírðir erum til Krists, erum skírðir til dauða hans”. (Róm 6:3).

Kristur deyr þessum heimi, hann er deyddur af þessum heimi, af þeim gildum og lögmálum, sem við höfum tileinkað okkur í mannlegum samskiptum.

Í þeim er dauði og tortíming mannslífa.

Fagnaðarerindið um Jesú Krist segir: Hann lifir. “Dauðinn Drottnar ekki lengur yfir honum” (Róm.6:9). ________________

Stenst það að Jesús hefur allt vald á himni og jörðu?

Er ekki eitthvað annað, sem valdið hefur?

Ótti, synd, sjúkdómur, reiði, græðgi, hroki og metnaður?

Orð Jesús eru ítrekuð við hverja skírn og þau hafa vald.

En orð hefur vald aðeins að því marki, sem við leyfum það.

Maður verður að ljúka upp fyrir orði Guðs og anda.

Fyrirheit Guðs er : “Ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar. “

“Dýrð vald, virðing og vegsemd hæst, viska matk, speki og lofgjörð stærst sé þér, ó Jesús, Herra hár, og heiður klár. Amen, amen um eilíf ár.

“Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upp, er og verður um aldir alda. Amen.”

Takið postullegri blessun: “Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.”