Yfirþyrmandi

Yfirþyrmandi

Textarnir í dag fjalla um atriði sem okkur eru ekki ókunnug eins og þreytu, kraftleysi, kærleika og stórviðri. Það er ekki allt alltaf slétt og fellt í lífinu og ýmislegt sem við þurfum að takast á við, sumt líkar okkur og annað ekki.

Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.

Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.

Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. Matt 8.23-27

Textarnir í dag fjalla um atriði sem okkur eru ekki ókunnug eins og þreytu, kraftleysi, kærleika og stórviðri.

Það er ekki allt alltaf slétt og fellt í lífinu og ýmislegt sem við þurfum að takast á við, sumt líkar okkur og annað ekki.

* * *

”Stundum Drottinn, virðist allt vera yfirþyrmandi: ofbeldi, ótti, kröfur og af vandamál, brostnir draumar og líf sem hafa lennt í ógöngum, þjáning og dauði, græðgi og fólk sem er að ráðgast með einhverjum hætti með hvort annað og eða að ráðgast með náttúruna eða hvað eina sem því dettur í hug, tilgangslausar árásir og misklíð, ógreiddir reikningar og öngstræti, of mikið af orðum sem eru þrungin neikvæðri og óskiljanlegri merkingu og skilja eftir sig kramin hjörtu og lamaðar sálir: of mikið af bökum sem hafa snúið sér frá og óbærilegri þögn, reiði, biturð sem er eins og aska í munni manns. Stundum virðist andrúmsloftið í kringum mann vera óvægið, fullt af hótunum og eða höfnunum og einhvern veginn verður ekkert eftir í því nema takmarkalaus þjáning og algjör ringulreið. Of mikið myrkur Drottinn, of mikil harka, of mikil eigingirni og óeining. Of mikið, Drottinn, of mikið. Eða er þetta allt saman allt of lítið, of lítið um samkennd, of lítið um hugrekki til að þora að standa við sitt, þora að fórna, of lítil tónlist og hlátur og gleði? Ó, Guð, hjálpa mér að huggast á erfiðum tímum, þannig að ég sé sjálfum mér og öðrum, bræðrum mínum og systrum sem þyrstir eftir gleði og von, til staðar fyrir þau í blíðu og stríðu og til staðar fyrir mig sjálfan. Og ég geti gefið þeim af þeim náðargáfum sem þú hefur gefið mér af kærleika þínum og elsku.”

* * *

Þessi orð eru lausleg þýðing á bæn sem ber yfirskriftina “Stundum virðist þetta vera allt of mikið” eftir bandaríska meþódista prest Ted Loder. Mögnuð orð, þrungin merkingu og meiningu, sem ýmsir kannast við úr sviptivindum samtímans. Þau dynja jú á mann ýmiss veðrin í lífinu og manni finnst vandlifað á stundum. Í erfiðleikum leitar fólk huggunar og geta þau huggunarform verið eins mörg og við erum manneskjurnar sem lifum á þessari jörð. Og fólk getur leitað sér skjóls í ýmsum ekki auðveldum huggunarformum til dæmis fordómum, sjálfselsku, græðgi eftir peningum eða frama og svo þar fram eftir götunum.

Í lexíu dagsins segir meðal annars að Drottinn veiti kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa og þau sem voni á Drottinn fái nýjan kraft. Helsta umræðuefnið heima á Íslandi er oftar en ekki veðrið og það eru margir sem finna því allt til foráttu ásamt myrkrinu, sem grúfir núna yfir landinu stærstan hluta sólarhringsins. Þótt veðrið sé hversdagslegt umræðuefni slær það tóninn og er lýsandi í guðspjalli dagsins þegar Jesús og lærisveinarnir lenda í stórsjó þar sem bylgjurnar dynja yfir bátinn þeirra. Þrátt fyrir það liggur Jesús í bátnum og sefur. Lærisveinarnir vekja hann og biðja hann um að bjarga þeim. Og hann vaknar og spyr þá út af hverju þeir séu hræddir, þeir séu trúlitlir og síðan stendur hann á fætur og kyrrir vind og sjó. Er þetta raunveruleiki? Er hægt að standa upp og kyrra allt í kringum sig einn tveir og þrír eins og til dæmis sorg, söknuð, illsku, grimmd, fíknir og græðgi svo fá dæmi séu nefnd? Eru þessi orð, bara orð sem notuð eru til að sefa? Hjálpa manni til að sættast við hlutina? Eru kraftaverk til?

* * *

Það var magnað viðtal í einu dagblaðanna um daginn við mann sem hefur þurft að takast á við lífið í margvíslegum myndum, og sumum þeirra afar sárum og flóknum. Hann hefur horft á eftir nánum ástvinum deyja en hann segir að þótt slagviðrið geti verið pirrandi fyrir skrokkinn, þá sé það, það ekki fyrir sálina. Skammdegið sé yndislegt og helst svona: Með stormi og snjófári. “Sumir virðast vera með sól í sinni og í sálu sinni – hvernig sem viðrar og þessi maður kveðst byrja hvern dag á því að hlakka til að fara í vinnuna. Skemmtilegheit eins og súrmjólk, ostur, vítamíninntökur, sund, falleg samtöl um samtíðna við pottorma í sundlauginni og sex sentimetra þykk jólakaka koma meðal annars við sögu í lífi þessa manns áður en gleðin tekur völdin í vinnunni hans. Og hjá þessum manni eru sorgin í litum, mjög sjaldan svört. Sorgin fari ekki neitt. Hún sé komin til að vera, en tíminn endurskapi form hennar og lögun.

* * *

Við tökumst á við lífið á mismunandi vegu, hvert okkar á okkar hátt. Og sumu samferðarfólkinu finnst að við eigum að fara frekar þessa leið en hina og sum horfa til okkar í fjarlægð og hugsa efalaust sitt. Við getum ekki verið þannig að öllum líki. En við getum notað þær gjafir sem Drottinn Guð hefur gefið okkur hverju og einu og leitast við að gera það besta og sjá það fallega og góða í því sem er hjá okkur sjálfum og umhverfi okkar.

* * *

Þau eru ýmis sárin og tárin. Meinin, þar sem koma þarf á sátt, byggja brýr á milli fólks, trúarbragða og menningarheima. Og það er auðvelt að finna til uppgjafar og vonleysis gagnvart þessu öllu, gefast upp í slagviðrinu. En í kristinni trú er von, eilíf von. Það er leið. Kristur tók sér stöðu með þeim og þeim sem valdið, grimmdin og hrokinn tróð og treður á, hvar sem þau eru og hver sem þau eru. Kross Jesú Krists faðmar alla kvöl og alla neyð og öll jarðarbörn.

* * *

Þú sem þjáist og þú sem harmar, þú sem glímir við ofurefli, og finnst sem bjargið stóra og óbifanlega loki öllum leiðum: Jesús hinn krossfesti er hjá þér með allan mátt og kæreik sinn, og sleppir þér aldrei. Syndin og dauðinn hafa ekki síðasta orðið. Jesús steig niður í heljardýpi hins guðlausa og djöflullega og velti burt steini vonleysisins og kaldhæðninnar og uppgjafarinnar. Hann lifir. Og hann er upprisann og lífið.

Verkefni lífsins eru stundum yfirþyrmandi og okkur um megn. Við erum aðeins litlar manneskjur í svo ógnarstóru, flóknu og marbrotnu samhengi, sem stundum er ef til vill eins og að vera á lítilli bátskel í stórsjó. En gleymum því ekki að við getum við ef til vill ekki gert stóra hluti eins og móðir Theresa sagði, en við getum hvert og eitt gert smáa hluti með miklum kærleika. Gleymum því aldrei.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen