Ömurlegt kvöld, opið hjarta

Ömurlegt kvöld, opið hjarta

Ég held að þetta hafi verið ömurlegt kvöld. Svona eftir á að hyggja. Fyrsta skírdagskvöldið. Það fór kannski ágætlega af stað, en endaði illa. Hræðilega.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
02. apríl 2015
Flokkar

Máltíðin

Ég held að þetta hafi verið ömurlegt kvöld. Svona eftir á að hyggja. Fyrsta skírdagskvöldið. Það fór kannski ágætlega af stað, en endaði illa. Hræðilega.

Kvöldið sjálft gott af því að vinir og vinkonur komu saman og það var jú hátíð í nánd. Páskar gyðinga. Góður matur á borðum. Kannski lambakjöt og hver elskar það ekki!

En þetta var líka erfitt af því að það var eitthvað að gerast. Það var eitthvað í vændum sem var ekki orðað upphátt en þau sem voru þarna stödd gerðu sér grein fyrir því, innst inni. Þau sáu líka og skildu eftirá.

Og þetta var vont kvöld af því að einn úr hópnum, maður sem þau töldu vin sinn, ætlaði að svíkja þau og var raunar búinn að því. Og Jesús sá það fyrir.

Svo Jesús hegðaði sér furðulega. Hvaða uppákoma var þetta til dæmis með fótaþvottinn. Svona hegðar leiðtogi sér ekki. Hann gerir það bara ekki.

Svo leið kvöldið og upp rann næsti dagur og þetta fór illa. Jesús var píndur og krossfestur. Stuttu síðar afneitaði Pétur honum þrisvar.

Síðasta kvöldmáltíðin – á skírdagskvöldinu fyrsta – var upptaktur að hræðilegum degi. Og var kannski þegar allt kemur til alls ekkert sérstakt kvöld heldur.

Máltíðir almennt

Síðasta kvöldmáltíðin er fyrirmynd máltíðarinnar sem við eigum hér við altarið. En máltíðin í kirkjunni er líka eins og hefðbundnar máltíðir. Og þær eru býsna stór hluti af lífinu okkar. Við borðum saman á hverjum degi. Stundum er máltíðin hversdagsleg, stundum er veisla.

Altarisgangan er semsagt matarboð. Og hún er í senn eins og þessi venjulegu matarboð sem eru haldin út um alla borg og enginn tekur eftir og líka þessu flottu sem eru mynduð fyrir Gestgjafann og Smartland.

Hvað einkennir annars matarboð?

Þau fela í sér samfélag og samskipti. Stundum eru fáir sem koma saman, stundum margir.

Þau geta verið auðveld og uppbyggileg, en þau geta líka verið erfið.

Þau snerta líkamann, þau fela það í sér að við tökum eitthvað inn.

Einhver hefur undirbúið þau, stundum í snarhasti, stundum í langan tíma.

Einhver þjónar, leggur jafnvel mikið af mörkum – hvort sem það er orðað upphátt eða reynt að dylja það með yfirlýsingum eins og: „Æ, þetta – þetta er bara eitthvað sem ég átti inni í skáp og tíndi saman.“

Í þeim felst rítúal – siður. Við sitjum á ákveðinn hátt, við notum hnífapör, við hreyfum okkur innan ákveðins ramma, tölum jafnvel á ákveðinn hátt.

Þau geta verið frjálsleg og afslöppuð. En þau geta líka verið þvinguð, til dæmis þegar gerð er krafa um siði sem hafa ekki verið orðaðir formlega heldur fólk „á-bara-að-þekkja“.

Þau geta líka verið full af skömm, til dæmis þegar einn setur sig yfir annan af því að hann hegðar sér ekki rétt, subbar út.

Þau eru nærandi. Nærandi fyrir líkamann af því að við tökum inn mat, nærandi fyrir andann af því að við erum í samskiptum og eigum samneyti við annað fólk – oft fólk sem skiptir okkur máli.

Það er eða getur verið eins með kvöldmáltíðina í kirkjunni. Hún er nærandi en getur líka verið þvingandi. Hún er opin en getur líka virkað lokuð. Og hún er full af ritúali, helgisiðum.

Hún birtir hver við erum eða hver við viljum vera: Samfélag fólks sem vill lifa með opinn faðm og hendur sem vilja þjóna og opin hjörtu gagnvart heiminum.

Hjartamáltíðin

Með opin hjörtu segi ég.

Hjartað skiptir reyndar máli á þessum degi. Óvenju miklu máli. Skírdagur er eins konar hjartadagur því hann er dagur hjarta Jesú og dagur hjartans þíns. Dagurinn þegar hjörtun ykkar mætast – svona svipað og Páll Óskar söng um að hafi gerst á diskóbarnum forðum daga:

Við mættumst þar með hjörtun okkar brotin bæði tvö

Ég held nefnilega að hjartað hans Jesú hafi brostið á skírdagskvöldinu fyrsta. Ég held það hafi verið beygt – en kannski ekki brotið. Hann vissi hvað var í vændum.

Og ég held líka að á skírdagskvöldi sé óhjákvæmilegt í ljósi þess sem er framundan að hjartað okkar bresti líka. Og bogni. Því þegar við leiðum hugann að atburðum föstudagsins langa spretta tárin fram.

En hjartalíkingin endar ekki hér því þetta er líka dagurinn þegar við nálgumst það sem gerist með hjartanu.

Við skiljum ekki það sem á sér stað þegar við göngum upp að altarinu og tökum á móti oblátu og dýfum henni ofaní ávaxtasafann með huganum. Við fáum þetta einfaldlega ekki til að ganga upp með því að nálgast með með skynsemina að vopni. Þegar við reynum að greina það.

En við getum skynjað þetta með hjartanu. Þegar við leyfum okkur að vera opin og göngum fram með opið hjarta. Stöndum í hálfhring. Finnum að við erum hluti af heild sem er miklu stærri en við. Tökum á móti. Trúum. Lifum leyndardóminn.

Og til hvers gerum við þetta? Kannski til að ná markinu sem Páll Óskar syngur líka um í laginu:

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég þú komst, þú komst við hjartað í mér

ég þori að mæta hverju sem er þú komst, þú komst við hjartað í mér

Jesús settist niður með vinum sínum. Þau borðuðu saman. Og þótt þetta hafi verið ömurlegt kvöld var það líka gott. Hann vissi hvað var framundan. Og þótt hjartað væri hryggt allt til dauða – brostið og beygt – var stefnan skýr og hann hvikaði hvergi. Hann neitaði að leyfa siguröflunum - valdinu - að skilgreina sig. Leyfði þeim ekki að brjóta sig. Hann neitaði að hvika frá samstöðunni með þeim sem minna máttu sín. Til þess erum við líka kölluð.

Út á það gengur altarisgangan líka: að mæta með opið hjarta og þiggja hugrekkið til að mæta hverju sem er í baráttunni fyrir hinu góða lífi.

Það er áskorun skírdags, það er boðskapur og hvatning skírdags. Þess vegna komum við saman. Til þess göngum fram með hjörtun okkar opin og hendurnar tilbúnar, til að þiggja brauð og vín og þjóna svo.

Náunganum. Í kærleika.

Út á það gengur þetta allt saman.

Dýrð sé Guði, sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem birti okkur ást Guðs og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.