Farvegur Guðs

Farvegur Guðs

Án anda Guðs er kirkjan ekki til. Hún á sér ekkert líf án anda Guðs.

Hvítasunna. Úthelling heilags anda. Stofnhátíð kirkjunnar. Í tíu daga biðu vinir og vinkonur Jesú eftir því að orð hans myndu koma fram. Áður en hinn upprisni Jesús steig upp til himna hafði hann sagt þeim að vera kyrr í borginni „uns þið íklæðist krafti frá hæðum“ (Lúk 24.49). Hann sagðist myndu senda þeim andann sem faðir hans hafi heitið þeim og minnti þau á að þau væru vottar þjáningar hans og upprisu. Öllum þjóðum skyldi í nafni hans prédikað „að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem“ (Lúk 24.47).

Vinahópurinn þáði síðan blessun Jesú og horfðu á eftir honum til himins. Við þá mögnuðu sýn féllu þau fram og tilbáðu hann „og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð“ (Lúk 24.52-53). Þannig lýkur Lúkasarguðspjalli.

Postulasagan hefst með vísun í samvistir hins upprisna með vinum sínum í fjörutíu daga og endursögn uppstigningaratburðarins. Þar er því sem í vændum var, hvítasunnuundrinu, lýst með þessum orðum: „Því að Jóhannes skírði með vatni en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda“ (Post 1.5) og ítrekað sambandið á milli þess kraftar sem koma skyldi yfir fylgjendahópinn fyrir heilagan anda og þess að þau skyldu „verða vottar mínir í Jerúsalem...og allt til endimarka jarðarinnar“ (Post 1.8).

Kraftur frá hæðum til vitnisburðar Við sjáum þarna sambandið á milli þess að íklæðast krafti frá hæðum/skírast í heilögum anda/öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir og þess að prédika í nafni Jesú og vera vottar hans. Kraftur heilags anda er samkvæmt þessum fyrstu frásögum ætlaður til vitnisburðar um hinn krossfesta og upprisna Jesú Krist. Höfum þetta í huga á meðan við lítum inn til hópsins sem nú var um það bil að verða hin fyrsta kristna kirkja.

Við heyrum sagt frá því að þessa tíu daga sem þau biðu eftir að sjá orð Jesú rætast hafi þau verið í helgidóminum og lofað Guð. Þess á milli dvöldu þau í loftstofunni sem hafði verið þeirra íverustaður frá síðustu kvöldmáltíðinni og „voru þau með einum huga stöðug í bæninni“ (Post 1.14).

Postularnir ellefu eru nafngreindir og sagt frá konunum sem voru með þeim og Maríu móður Jesú og bræðrum hans. Sagt er frá ræðu sem Pétur, foringi hópsins, hélt og voru þá um 120 manns saman komin. Tilefni ræðunnar var að nú vantaði einn postula í hópinn þar sem svikarinn Júdas – sem hafði verið falin sama þjónusta og hinum – var „farinn til síns eigin staðar“ (Post 1.25). Einhver úr innsta hring varð að koma í hans stað, „gerast vottur upprisu“ Jesú ásamt hinum. Eftir bæn og hlutkesti varð Matthías fyrir valinu.

Pentekoste Við sjáum að engan má vanta í hópinn. Þjónusta postulanna varð ekki fullkomnuð nema þeir væru 12 eins og ættbálkar Ísraels. Og hver var sú þjónusta? Að vera vottar upprisu Jesú. Sú þjónusta var hins vegar ekki aðeins ætluð þessum tólf. Það sjáum við af fjölda þeirra sem þáðu kraft heilags anda á hvítasunnudag. Við sjáum þá lykilstöðu sem Jerúsalem hefur í þessu samhengi.

Og tímasetingin var heldur engin tilviljun. Einmitt þennan dag var fjöldi fólks, guðræknir Gyðingar, saman kominn í Jerúsalem frá „öllum löndum undir himninum“ (Post 2.5). Tilefnið var Shavuot hátíðin, sem nefnd er viknahátíðin í Biblíunni (Ex 34.22, Lev 23.15-22, Dt 16.10). Hún var haldin 50 dögum eftir páska og þaðan er dregið nafnið Pentekoste, komið frá hellenískum Gyðingum. Íslenska og breska heitið hvítasunna (whitsun) er yfirfært frá fyrsta sunnudegi eftir páska (Dominica in albis) sem nefndur var eftir hvítum klæðum hinna nýskírðu (Árni Björnsson, Saga daganna).

Söfnuðir verða til Viknahátíðin, sjö vikum eftir páska, minningu brottfararinnar úr Egyptalandi, var hátíð Tórunnar, lögmálsins, minning þess þegar Móse tók á móti boðorðstöflunum á Sínaí. Þar má segja að til hafi orðið söfnuður hins gamla sáttmála, Ísraelsmenn. Hér í Jerúsalem, á Síon, fæddist söfnuður hins nýja sáttmála, fylgjendur Jesú Krists, kristin kirkja. Má í því sambandi minna á orð Jeremía spámanns (31.31-34):

Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn. 32Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við feður þeirra þegar ég tók í hönd þeim og leiddi þá út úr Egyptalandi. Þeir rufu þann sáttmála við mig þótt ég væri herra þeirra, segir Drottinn. 33Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir, segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn. 34Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn. Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.

Þessi orð eru í beinu samhengi við lexíu annars hvítasunnudags, Esk 11.19-20, sem talar um eindrægt hjarta nýjan anda sem Guð muni gefa okkur, hjarta úr holdi í stað steinhjarta. Og Páll postuli talar um meðmælabréf sitt í 2. Korintubréfi og tengir við nýjan, andlegan sáttmála sem lífgar (3.3,6):

...Kristur hefur ritað þetta bréf og sent það með mér: Það er ekki skrifað með bleki heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld heldur á hjartaspjöld manna. ...Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar.

Í framhaldi af því lýsir Páll hinni andlegu þjónustu, þjónustunni sem réttlætir (2Kor 3.7-9):

Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.

Að vera vottar upprisu Jesú Þá erum við aftur komin að þjónustu postulanna, að vera vottar upprisu Jesú, og ekki bara postulanna heldur allra hinna kristnu, já safnaðarins sem stofnaður var í Síon, kirkjunnar í heild sinni. Sá kraftur heilags anda sem kom yfir fylgjendur Jesú, fyrst þau sem beðið höfðu í loftstofunni í trúfesti og stöðugri bæn, var gefinn í þeim tilgangi að boða Jesú Krist krossfestan og upprisinn: „Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla“ (Post 2.4).

Og Gyðingarnir sem þarna voru samankomnir frá öllum heimshornum heyrðu fólkið sem kenndi sig við Krist tala á sínum eigin tungum um stórmerki Guðs (Post 2.11). Afleiðingin varð að fólkið hlustaði af athygli á vitnisburð Péturs um Jesú, um að taka sinnaskiptum og láta skírast til að fá fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda (Post 2.38). Fólkið veitti orði hans viðtöku og tóku skírn. Það voru um þrjú þúsund sálir þann eina dag (Post 2.41).

Kraftur Guðs, líf kirkjunnar Hvað segir þetta okkur? Hvaða erindi á þessi frásögn af hinum fyrsta kristna söfnuði til okkar í dag? Í fyrsta lagi erum við minnt á kraft og styrk Guðs sem sendir anda sinn til kirkjunnar. Hann sem í upphafi blés okkur lífsanda í nasir (1Mós 2.7) sendir út anda sinn að við verðum til og endurnýjar ásjónu jarðar (Sálm 104). Án anda Guðs er kirkjan ekki til. Hún á sér ekkert líf án anda Guðs.

Í öðru lagi erum við minnt á að nálægð Guðs í anda hans birtist ekki bara nokkrum sérútvöldum. Vissulega voru það fyrst þau sem höfðu beðið trúfastlega og með einum huga sem fengu sjálfa gjöf andans en birtingin varð öllum augljós og hafði áhrif langt úr fyrir raðir hinna fyrstu lærisveina. Við sem viljum tilheyra kirkju Krists á okkar tímum þurfum að hafa þetta hugfast og leyfa anda Guðs að móta líf okkar þannig að þau sem fyrir utan standa verði snortin.

Í þriðja lagi segir guðspjall hvítasunnudags okkur að Jesús biður föðurinn um að gefa okkur hjálparann, anda sannleikans. Hann skilur okkur ekki eftir munaðarlaus. Þetta á við um okkur í dag, alveg eins og hin fyrstu kristnu. Líf Jesú lifir í okkur. Fyrir heilagan anda eru boðorð Guðs skráð á hjartaspjöld okkar og verða ekki aðskilin frá elskunni til Guðs. Við elskum Jesú og sýnum það í lífi okkar. Þannig fáum við að sjá Jesú í heilögum anda og þiggjum hjálp og leiðsögn. Leiðsögn anda sannleikans beinist ekki að úttekt á mannlegum mistökum heldur hvernig við getum borið hinum krossfesta og upprisna Jesú Kristi vitni í lífi okkar og með orðum okkar.

Með einum huga Þar er einhugurinn lykilatriði. Við heyrðum áðan sagt frá því hvernig vinahópur Jesú í loftstofunni voru öll „með einum huga stöðug í bæninni“. Og Páll postuli gengur út frá þeirri staðreynd að „Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka“ (1Kor 12.13). Þetta varð augljóst á stofndegi kirkjunnar, hvítasunnuhátíðinni í Jerúsalem þegar eining hinna fyrstu kristnu tók að breiðast út, fyrst í hópi Gyðinga en síðan út til endimarka jarðarinnar, jafnvel hingað til eyjunnar í norðri, á mörkum hins byggilega heims.

Tökum við því orði sem hér er boðað, orðinu sem sprettur af vitnisburði þeirra sem fylgdu Jesú Kristi, Orði Guðs, á veginum, prédikun hinna fyrstu kristnu fyrir kraft heilags anda. Og finnum að þeirra þjónusta er einnig okkar, þjónusta vitnisburðarins um fyrirgefningu syndanna, kraft Guðs inn í líf hvers og eins. Verum einhuga, stöðug í bæninni, reiðubúin að vera farvegur Guðs til fólksins í kring um okkur, ávallt viðbúin að sýna elsku í verki og miðla vitneskjunni um ást Guðs.