Það velur enginn fátækt sem lífsstíl

Það velur enginn fátækt sem lífsstíl

Við lifum ekki í sanngjörnu þjóðfélagi gott fólk, hafísinn er víða og munum að það velur sér enginn fátækt sem lífsstíl.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
03. október 2010
Flokkar

Tvíþætta kærleiksboðorðið er viðfangsefni okkar í dag, raunar er það viðfangsefni okkar alla daga, öllum stundum, en í dag liggur það fyrir sem prédikunartexti úr Markúsarguðspjalli. Og af hverju segi ég tvíþætta? Jú af því að tvöfalda kærleiksboðorðið getur boðið upp á ákveðinn misskilning þar sem við erum jú orðin býsna bólusett gegn ýmiskonar tvöfeldni. Hið tvíþætta kærleiksboðorð er kjarni kristinnar trúar og Jesús Kristur er holdgervingur þessa boðorðs, allt sem hann sagði eða sagði ekki, var eða var ekki er í eðli sínu opinberun boðorðsins. “Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.” Segir Jesús við fræðimanninn og jafnvel þó að fræðimennirnir virðist stundum hafa lagt sig fram um að misskilja orðin hans Jesú þá tekur þessi tiltekni maður við þeim og hann útleggur þau með þeim hætti að Jesús sér grunn Guðs ríkis rísa í hjarta hans. Þarna loksins skildi þessi fulltrúi valdsins hvað væri satt og óvéfengjanlegt. Og kannski má leiða að því líkum að ekkert siðaboð sé jafn viðtekið í veröldinni óháð trúarvitund eða trúarafstöðu mannsins. Boðorðið er á vissan hátt undirstaða hins algilda siðferðis og kallast þannig á við hina gullnu reglu um að koma fram við náungann eins og maður vill láta koma fram við sig. En ef flestir í hinum siðmenntaða heimi geta verið sammála um síðari hluta kærleiksboðorðsins hvers vegna afskrifum við þá ekki Guð út úr menginu og gefum sjálfum okkur upp skuldirnar gagnvart þessum stóra og “íþyngjandi” veruleika sem kallar okkur til stöðugrar ábyrgðar og nýrrar þó við séum löngu búin að átta okkur á dæminu? Þú elskar mig og ég elska þig, ég elska þig og þú elskar mig, þetta er ekki svo flókið, maðurinn hefur smíðað geimflaugar og kjarnorkusprengjur og klónað kindur, það er ekki eins og hann hafi ekki þekkingu og vit til að skilja eitt lítið borðorð , “þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig “ “common má ekki biðja um örlítið meira krefjandi verkefni.” Og hvernig væri að við færum nú að útfæra þetta aðeins og setja þetta í nútímalegri búning. Við gætum byrjað á því að segja t.d. “þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig þegar þú ert búinn að gera allt sem þú átt eftir að gera til þess að líf þitt sé fullkomið og frábært og þú hefur loksins tíma til að sinna öðrum hugðarefnum eins og almennri fátækt og kúgun og ofbeldi og öðru sem útivinnandi fólk getur ekki verið að dútla við fyrr en um hægist. Þetta kallar maður raunsæi og viðskiptavit, að koma ár sinni fyrir borð áður en tekið er til við að horfa á aðstæður annarra. Viðskipti eru jú hin nýju samskipti, ekki satt? Hvers vegna þurfum við Guð til þess að láta þetta skothelda consept virka? Hvers vegna trú? Þegar við höfum áttað okkur á öllum eðlislögmálum og þekkjum afleiðingar gjörða okkar? Eða þekkjum við ekki annars afleiðingar gjörða okkar, eru ekki örugglega allir að fylgja? Er ekki hægt að stóla á að sjálfselska sé uppspretta farsældar í mannlegum samskiptum, ef þú elskar mig eins og þú elskar þig, erum við þá ekki öll örugg? Er þetta ekki bara eins og með reglurnar í fluginu, fyrst að setja súrefnisgrímuna á sig áður en maður hugsar um barnið? Eða er kannski ekki hægt að tvískipta þessu svona þó það sé tvíþætt, að elska fyrst sjálfan sig áður en maður einhendir sér út í að elska náungann, getur það verið að tvíþætta kærleiksboðorðið sé gagnvirkt? Elskaðu náungann eins og sjálfan þig og sjálfan þig eins og náungann? Jú kannski ef áherslan væri á samskipti, en halló við erum á 21.öld, samskipti eru börn síns tíma, gæluverkefni þeirra sem eru ekki í fullri vinnu, viðskipti eru hins vegar leikreglur hins sterka einstaklings, hugsaðu um þitt og ég hugsa um mitt, það er lang öruggast, hefurðu ekki örugglega heyrt um hið nýja kærleiksboðorð samtímans, ég elska mig og þú elskar þig og Guð elskar sig og allir eru glaðir og frjálsir, eða hvað?

Eru allir glaðir og frjálsir á þessu landi okkar sem kennt er við ís? Búum við ef til vill á ÍSLANDI í margþættum skilningi þess orðs? Í morgunútvarpi Bylgjunnar hlýddi ég á nýráðinn umboðsmann skuldara sem fór í grófum dráttum yfir stöðu heimilanna eins og hún blasir við henni í dag. Samkvæmt hennar rannsóknum horfir nýr og stækkandi hópur landsmanna fram á að geta ekki staðið í skilum á sínum lánum, hvort heldur er húsnæðislánum, bílalánum eða neyslulánum. Já nú blasir við sú staðreynd að nýr þjóðfélagshópur horfir fram á kvíðvænlegan vetur í óvissu og örvinglan, hópur sem ekki hefur reynslu af því að hýsa fátæktina, þá niðurlægjandi boðflennu sem sýnir vægast sagt þrúgandi tómlæti innan veggja heimilisins. Undanfara þessarar nýju stöðu þekkjum við of vel til þess að ég eyði dýrmætum tíma okkar í að tíunda hann hér en einhvern veginn ómar hið nýja kærleiksboðorð ég elska mig og þú elskar þig í eyrum þegar maður rifjar upp aðdraganda hrunsins. Þetta er vissulega áhyggjuefni og full ástæða til að fjalla um þetta, en svo er líka bara annar hópur í þjóðfélaginu okkar, skammarlega stór sem er ekkert sérstaklega til umfjöllunar þessa dagana frekar en fyrri daga enda jafn sjálfsagður og óhagganlegur í augum okkar og fjöllin sem umlykja okkur mann fram af manni. Þessi hópur samanstendur nefnilega af “atvinnumönnum” í fátækt, fólki sem var fátækt fyrir hið meinta góðæri, sem var aldrei boðið upp á góðærisdansleiknum sjálfum en fékk samt sinn skerf af timburmönnunum eins og barþjónn á skemmtistað en af því að það kann bara svo ansi vel að sinna þessum embættum sínum þá veitum við því litla sem enga athygli. Þessi hópur samanstendur af öryrkjum, ellilífeyrisþegum, einstæðum foreldrum með lágar tekjur eða bara lágtekjufólki almennt sem og fleirum sem ekki falla endilega í einhvern þessara tilteknu hópa. Í hugum þessa fólks er hugmyndin um að versla lífrænt grænmeti, sem mörgum finnst alveg bráðnauðsynlegt, jafn útópísk og að Icelandair fari að fljúga til tunglsins, það að versla venjulegt grænmeti og holla fæðu fyrir heimilið er ekki sjálfsagður hlutur fyrir þeirra pyngju þar sem óhollari fæðutegundir eru frekar boðnar fram í miklu magni á lægra verði og þannig er strax farið að mismuna fólki heilsufarslega í þjóðfélagi sem vill kenna sig við velferð og prédikar hollan lífsstíl hvar og hvenær sem er. Hvenær opnar maður tímarit öðruvísi en hollur lífsstíll og rétt mataræði sé til umfjöllunar og þeim rökum beitt að slíkur lífsstíll spari milljónir í heilbrigðiskerfinu? Afkomukvíði er jafnframt stór faktor í geðheilbrigðiskerfinu okkar, skipulögð fátækt er að þyngja róðurinn á geðdeildum, já bíddu, hvernig í ósköpunum á fólk að geta unnið á depurð og kvíða ef það veit ekki hvort það getur sent barnið sitt með nesti í skólann? Og á sama tíma eru fjárframlög til sjúkrastofnanna skert með þeim afleiðingum að þolendur hinnar skipulögðu fátæktar og afskiptaleysis eiga hvergi í hús að vernda. Við lifum ekki í sanngjörnu þjóðfélagi gott fólk, hafísinn er víða og munum að það velur sér enginn fátækt sem lífsstíl.

Tvíþætta kærleiksboðorðið er einhver stærsta gjöf sem okkur hefur verið gefin, Jesús Kristur er tvíþætta kærleiksboðorðið og samfylgdin við hann er vegurinn sem liggur að því og boðorðið er líka vegurinn að Kristi og vegurinn að heilbrigðu og sanngjörnu samfélagi. Tvíþætta kærleiksboðorðið verður aldrei skilið nema í samfélagi og Guð sem sumum finnst ofaukið í þessu algilda siðaboði er hvorki meira né minna en uppruni þess, kærleikurinn á ekki uppruna sinn í genunum okkar heldur í Guði og við þiggjum hann í samfélagi við Guð og við þróum hann í samfélagi við náungann. Við þróum aðeins heilbrigða “sjálfselsku” og sjálfsmynd í samfélagið við aðra þar sem við þurfum að gefa af sjálfum okkur og takast á við eigin veikleika og vanmátt og þannig uppskerum við líka hinn dýrmæta þroska sem gerir lífið svo dásamlega innihaldsríkt. Tvíþætta kærleiksboðorðið er gagnvirkt, í fyrsta lagi þiggjum við hinn lífgefandi kærleika frá Guði, þaðan þiggjum við auðmýkt til að skapa réttlátt samfélag, hinn lífgefandi kærleikur Guðs beinir sjónum okkar að manneskjum sem aðal markmiðum lífsins, og hinn lífgefandi kærleikur Guðs beinir sjónum okkar að samskiptum sem frumforsendu jafnvægis í samfélaginu. Það er nefnilega svo auðvelt að hunsa aðstæður þeirra sem við höfum engin samskipti við, alveg eins og fjöllin verða oft ósýnileg fyrr en við tökumst á við að klífa þau og þegar við náum toppnum þá blasir við ný og áður óþekkt sýn, fegurri og víðfeðmari en okkur hefði nokkru sinni grunað. Það er nefnilega ekki alltaf auðvelt að umgangast fólk ekki frekar en að ganga á fjöll en það er líka ótrúlega flókið að umgangast sjálfan sig ef maður umgengst ekki annað fólk, það er erfitt að elska sjálfan sig á heilbrigðan hátt ef maður þekkir ekki það sem maður hefur að gefa öðrum og þiggja sömuleiðis. Þetta veit Jesús best af öllum og þess vegna var hann alltaf umkringdur fólki, það var ekki allt að dást að honum enda raðaði hann ekki í kringum sig aðdáendum, hann valdi einfaldlega að elska fólk og mæta því sama hvar það var statt, þess vegna er hann holdgervingur tvíþætta kærleiksboðorðsins og þess vegna mótmælti hann öllu því sem rændi fólk æru og farsæld, þar var fátæktin ofarlega á blaði, sömuleiðis kynþáttahatur, ójafnrétti kynjanna og ofbeldi í öllum myndum og síðan mótmælti hann líka félagslegri einangrun sem var skipulögð af samfélaginu og líka þeirri einangrun sem var skipulögð af þeim sem vildu hafa sitt í friði. Það er alltaf hætta á því að tvíþætta kærleiksboðorðið verði misskilið ef Guði er úthýst úr menginu, þá verður það útsett fyrir ríkjandi viðmiðum þeirra sem völdin hafa á hverjum tíma, en með Guði verður það algilt og óvéfengjanlegt og þá skapar það öryggi og skjól þeim sem því fylgja. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.