Spakmælar, drónaþjálfarar, bóseindatæknar

Spakmælar, drónaþjálfarar, bóseindatæknar

Og þessi dagur ykkar, kæru fermingarbörn, verðandi spakmælar, drónaþjálfarar, bóseindatæknar eða hvað þið komið nú til með að fást við í framtíðinni - er í raun óður til þess hvað það er sem að endingu skiptir mestu máli.

Til hamingju með daginn kæru fermingarbörn og nærstaddir. Þetta er stór og merkilegur dagur og fermingarbörn eru afskaplega merkilegt fólk. Ég sperri alltaf eyrun ef ég fregna eitthvað af mínum gömlu fermingarbörnum í fjölmiðlum. Fyrsta hópinn fermdi ég á Ísafirði fyrir tæpum tuttugu árum. Þetta er orðið fullorðið fólk í dag og fæst við margvísleg störf. Sumir eru meira áberandi en aðrir, eins og gefur að skilja, hafa valið sér lífsvettvang á fjölum leikhúsa eða jafnvel í óperunni. Það er gaman að sjá hvernig einstaklingar þroskast og dafna eftir því sem árin færast yfir. Tuttugu ár er vissulega langur tími. Þið voruð ekki fædd og eftir tuttugu ár héðan í frá verð ég farinn að undirbúa eftirlaunaárin mín, ef Guð lofar.

Störf sem enginn þekkir Þá er spennandi að velta vöngum yfir því hver ykkar viðfangsefni verða. Lífið er jú fullt af furðum og undrun en þó aldrei sem nú. Við lifum á tímum ótrúlegra breytinga og einhver spekingurinn benti á að meirihluti grunnskólanemenda í dag komi til með að starfa við iðju sem í dag er ekki til, þekkist ekki, við eigum ekki enn nöfn yfir þau störf sem stór hluti þessara krakka sem hér sitja kemur til með að vinna við.

Er það ekki merkilegt hugsun? Þegar við spólum tvo áratugi fram í tímann og ég til dæmis sperri eyrun er ég í fjölmiðlum heyri nafn einhverra þeirra sem hér sitja eru meiri líkur en minni á því að viðkomandi hafi einhvern starfa sem ekkert okkar í dag myndi kannast við. Við getum ekki annað en látið ímyndunaraflið leika lausum hala og látið okkur detta í hug einhver sniðugheit eins og drónaþjálfi, bóseindatæknir, eða spakmælir! Já hvað er það fyrir nokkuð? Furður og fjarstæður á okkar tímum, en mögulega hversdagsleg verkefni í framtíðinni. Hver veit?

Þekkingunni vindur jú fram og nú þykjast menn geta slegið því föstu hversu langan tíma það taki að tvöfalda þekkingu og kunnáttu alls mannkyns. Um aldamótin 1900 vatt henni fram með þeim hraða að það hefði tekið hundrað ár að tvöfalda hana. Nú gerist allt miklu hraðar. Á okkar dögum eru þetta ekki nema ellefu mánuðir og styttist tíminn óðfluga. Það eru forréttindi að geta svalað forvitni sinni með skjótum hætti, lesið greinar eða horft á myndbönd sem segja okkur hitt og þetta. Og það eru enn meiri forréttindi, þegar spurningarnar verða alltaf fleiri og fleiri.

Stenst eitthvað þessar breytingar?

Þá vaknar auðvitað spurningin hvort nokkuð standist þennan flaum tímans? Situr eitthvað eftir óhaggað þegar allt virðist æða áfram á svo miklum hraða? Ritningarversin sem fermingarbörnin hafa valið sér voru ekki skrifuð fyrir einhverjum áratugum. Nei, við þurfum að fara aftur í tímann tvö þúsund ár og jafnvel lengur til að leita að upptökum þeirra og rótum.

Þetta eru litlir textar úr Biblíunni, svolitlar hugsanir sem birta okkur ákveðna þætti í því sem það er að vera manneskja. Þarna er talað um öruggt skjól þegar lífið er erfitt: ,,Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta". Sum völdu textann sem við köllum Gullnu regluna, ekki að ástæðulausu því hún er eins og gullið, sama hversu langur tími líður, þá ryðgar það ekki né fellur á það. Og gullna reglan varðar afstöðu okkar til annars fólks. Við eigum einfaldlega að koma eins fram við aðra og við viljum að aðrir komi fram við okkur.

Litla Biblían varð og fyrir valinu. Hún hefst á orðunum, ,,Því svo elskaði Guð heiminn…” og það er engin smá yfirlýsing. Heimurinn og allt sem í honum er, er umvafið kærleika Guðs og sjálf eigum við að láta okkur þykja vænt um það sem af jörðinni er. Stundum er því haldið fram að kristin trú fjalli ekki um hið jarðneska líf en það er öðru nær. Og enn aðrir völdu orð Páls postula um að kærleikurinn sé mestur. ,Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.”

Það er eins og hann tali inn í okkar aðstæður. Já, þekking líður undir lok og spádómar eru misgóðar. En kærleikurinn er sígildur. Jú, mikil ósköp hér erum við með eitthvað sem ekki breytist né dofnar hvað annað sem kann að gerast.

Það sem mestu varðar

Og þessi dagur ykkar, kæru fermingarbörn, verðandi spakmælar, drónaþjálfarar, bóseindatæknar eða hvað þið komið nú til með að fást við í framtíðinni - er í raun óður til þess hvað það er sem að endingu skiptir mestu máli. Það er ekki það sem við störfum við, hversu gagnlegt og ánægjulegt sem það kann að vera. Það er ekki að endingu hvað við kunnum, getum og skiljum - þó allt sé að af hinu góða. Nei, dýrmætast af öllu er að elska og vera elskaður án allra skilyrða. Þessi dagur fjallar um það. Veisluhöldin og allt tilstandið sem fólkið ykkar hefur undirbúið fyrir ykkur - er í raun ein stór ástarjátning frá þeim til ykkar. Og hún snýst ekki um að þau elski ykkur vegna þess að þið hafið gert þetta eða hitt, kunnið svo og svo mikið - þó þau samgleðjist ykkur með hverjum áfanga. Nei, ástarjátningin snýst um það að þið eruð elskuð og virt fyrir það sem þið eruð.

Skilyrðislaus ást

Það er einmitt eitt af því marga og merkilega sem ekki breytist hvað sem á dynur í heiminum, ekkert byggir okkur upp, nærir okkur og styrkir meira en slík ást. Það er þetta sem við tölum um í Litlu Biblíunni - því að Guð elskaði heiminn svo mikið … það er þetta sem Gullna reglan fjallar um - um þetta fjallar líf og boðskapur Jesú Krists sem er besta fyrirmyndin okkar. Og þegar þið játið því að þið viljið leitast við að hafa hann að leiðtoga ykkar eruð þið að fylgja því fordæmi svo að þið megið sjálf bæta fólkið sem að ykkur stendur. Leggja ykkar að mörkum til að vinir ykkar, bekkjarfélagar, fjölskyldan, fólkið sem þið eigið samskipti við, megi sjálft verða, hæfara, heilbrigðara, frjálsara og hamingjusamara ef þess gefst einhver kostur.

Þegar þið veljið ykkur Jesú Krist að leiðtoga, veljið þið ykkur sjálf það hlutskipti að vera leiðtogar. Einstaklingar sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag hvar sem þeir eru staddir í lífinu. Um þetta allt snýst fermingin. Á þessum degi horfum við framtíðar og biðjum fyrir ykkur á ókomnum tímum og við horfum til þess sem ekki breytist hvað sem á dynur í henni veröld. Guð blessi ykkur kæru fermingarbörn.