Það sem endist

Það sem endist

Sálmurinn fjallar um þessar tilfinningar okkar og hann er ortur af sannri tilfinningu. Þar er ekkert of eða van heldur er einlægnin sönn. Og einlægnin fetar alltaf meðalhófið.

Þessi nótt er töfrum lík. Hún er hið helga andartak sem er ólíkt öðrum þeim stundarkornum sem fæða og deyja í sömu andrá. Nú er skuggaskil. Þessi varir lengur en flestar aðrar nætur. Hér erum við í snertingu við fortíðina, finnum fyrir rótum okkar og bakgrunni. Og ég er þess viss um að við eigum eftir að muna þessa stund um ókomna tíð, þegar flestar aðrar verða gleymdar.

„Nóttin var sú ágæt ein“ Þessi orð eru okkur hugleikin í nótt. Yfir þeim er skemmtilegur blær. Eitthvert sambland af hátíð og hversdagsleik. Einar Sigurðsson í Heydölum, skáldið sjálft, samtímamaður og kær vinur Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups orti það undir heitinu „Kvæðið af stallinum Kristí“, mikinn bálk með mörgum erindum. Sigvaldi Kaldalóns samdi lagið fallega sem við syngjum við hann.

Þegar við lesum eða syngjum svona gamla texta finnum við fyrir því að sumt virðist ekki hrörna og deyja, eða þarf a.m.k. miklu lengri tíma til þess arna. Í kvöld höfum við eignast ýmsa nýja hluti. Ég er handviss um það að sumar þessara gjafa verða ekki mikils virði eftir tíu ár. Af hverju veit ég það? Jú vegna þess að framleiðandinn græðir harla lítið á því að búa til slíka hluti. Galdurinn felst í því að við förum að sjá hnökra á því sem áður virtist svo fullkomið, eitthvað sem við hefðum aldrei veitt athygli verður skyndilega frágangssök. Sjónvarpið er bara í tvívídd, síminn er ekki með 3G, tölvan er ekki með snertiskjá.

Ekkert af þessu hefði hvarflað að okkur þegar við handlékum gripina nýkomna úr kassanum á sínum tíma en nú vitum við að þeir hafa ekki þolað tímans tönn enda var þeim aldrei ætlað að gera það. Hið sama á auðvitað við um nýja dótið okkar.

En sálmurinn er enn í dag eftirlæti margra, þar á meðal mitt. Hann er þó meira en tíu ára gamall, já miklu meira en það. Hann er yfir fjögurhundruð ára. Þetta voru auðvitað allt aðrir tímar. Stöðnunin mikil, finnst okkur nú, en hjörtun svipuð eða jafnvel eins þegar í kjarnann er komið. Það er einmitt mannshjartað sem er skáldinu yrkisefni. Stallurinn eða vaggan er hjarta hins trúaða manns. „Með vísnasöng ég vögguna þína hræri“. Já, hjartað mitt finnur fyrir þeirri gleði og þeim frið sem því fylgir að hugleiða jóladýrðina í öllu sínu sakleysi og öllum sínum einfaldleika.

„Þér gjör‘eg ei rúm úr grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjarta vaggan sé, vertu nú hér minn kæri.“ Mikið er þetta fallegur kveðskapur og aftur nær séra Einar að kalla fram þessa blöndu einlægni og einhvers góðlátlegs tóns, „vertu nú hér minn kæri.“

Jólanóttin er sérstök nótt. Við erum flest andlega uppgefin og viljum gjarnan fá frið og ró. Það er ekki þar með sagt að við séum ekki þakklát eða glöð. Við höfum þegið gjafir sem eru þegar á allt er litið miklu merkilegri en innihaldið í pökkunum okkar, hversu gott sem það kann að hafa verið. Því gjafirnar eru lítils virði ef þær koma ekki frá þeim stað sem er hinu forna skáldi svo hugleikið – frá hjartanu. Og þá verður það ekki meginmálið hversu lengi þær endast sem slíkar eða hvenær við verðum e.t.v. búin að fá nóg af því sem eitt sinn var svo ómótstæðilegt.

Því sumt endist lengur en annað. Tilfinningarnar sem frá hjartanu koma eru svo miklu endingarbetri. Og það er einmitt það sem gerir sálminn „Nóttin var sú ágæt ein“ svo ágætan og sígildan. Sálmurinn fjallar um þessar tilfinningar okkar og hann er ortur af sannri tilfinningu. Þar er ekkert of eða van heldur er einlægnin sönn. Og einlægnin fetar alltaf meðalhófið.

Jólanóttin er magnaður tími. Dveljum í kyrrðinni og gerum hjartað okkar að jötu Jesúbarnsins sem mætir okkur á hinum fyrstu jólum. Þar á Jesús heima og þar verkar hann í okkur til blessunar um alla framtíð.

Amen.