Sannleikssögur

Sannleikssögur

Í síðustu viku heyrðum við tvær sannleikssögur af þessum toga. Sögur þar sem sögukonurnar komu til dyranna eins og þær eru klæddar, án ráðlegginga lögfræðinga, nefnda eða ráða. Þessar konur sögðu sögur sem snertu okkur vegna þess að þær eru sannar og vegna þess að þær voru sagðar af virðingu og ótrúlegum kjarki.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
16. október 2011
Flokkar

Lúther, Blár og Jesús Kristur Ertu frjáls? Hvað er það að vera frjáls? Þegar stórt er spurt er oft lítið um svör. Frelsi getur þýtt svo margt. Lúther sá er við kennum kirkjudeildina okkar við hafði mikinn áhuga á frelsinu og skrifaði meðal annars árið 1520 litla bók sem nefnist ”Frelsi Kristins manns”. Bókin hefst á þessum þversagnakenndu orðum: ”Kristinn maður er frjáls herra allra hluta og engum undirgefinn. Kristinn maður er auðmjúkur þjónn allra og öllum undirgefin” Þessu orð Lúthers vöktu mikla athygli og blésu mörgum í brjóst hugrekki til þess að brjótast út úr kúgun og ofríki. Þetta merka rit um frelsi og ánauð, var þó Lúther dýrkeypt því tveimur mánuðum eftir útkomu þess var hann bannfærður af Leó tíunda páfa. Þetta voru sannarlega aðrir tímar en þeir sem við lifum á þar sem hver sem er getur sagt hvað sem er nánast hvar og hvenær sem er.

Fleiri reyndu að þagga niður í Lúther og dæma hann rétt-dræpann og útlægann en allt þetta fár og allar þessar bannfæringar valdafólksins gerðu frelsisritið hans enn þá áhugaverðara og trúverðugra í hugum almennings. Í stuttu máli hvetur Lúther okkur, í þessu merka riti, til þess að taka ákvarðanir, fylgja sannfærinu okkar, til þess að velja hvernig við viljum haga lífi okkar, hverjum við viljum fylgja. Frelsið felst aldrei í því að fylgja straumnum og halda öllum möguleikum opnum, að vera sammála síðasta ræðumanni og taka aldrei afstöðu. Kristin manneskja sem hefur tekið afstöðu og valið að fylgja Jesú Kristi hlýtur þá um leið að verða þjónn þeirra er minna mega sín. Hún hlýtur þá að verða tilbúin að leggja ýmislegt í sölurnar fyrir mannréttindi. Kristin manneskja er kannski fyrst frjáls þegar hún er bundin fólkinu í kringum sig í kærleika en af frjálsum vilja. Franska kvikmyndin Blár eftir Krzystof Kieslowski fjallar m.a. um frelsið. Hún segir frá konu er missir mann sinn og dóttur í bílslysi. Hún er nú frjáls til þess að gera það sem hana langar. Hún er engum háð lengur. Hún getur tekið upp ástarsamband við aðstoðarmann manns síns ef hana langar. Það fer þó svo að þegar hún hefur öðlast þetta mikla frelsi og er engum bundin lengur þá áttar hún sig að að hún er í raun ekki frjáls því hún er bundin af minningum og sorg, söknuði og sektarkennd. Hún kemst að því að þrátt fyrir allt hafi hún verið frjálsari þegar hún var bundin manni sínum og barni. Þessi niðurstaða er ekki ólík niðurstöðu Lúthers. Jesú Kristi og höfundum Nýjatestamentisins er frelsið hugleikið. Dæmi um það er t.a.m. að finna í pistli dagsins sem hefst á þessum orðum ”Til frelsis frelsaði Kristur oss”. Jesús Kristur talar um það í Jóhannesarguðspjalli að sannleikurinn muni gera okkur frjáls. Hvert er þá þetta frelsi og hver er þessi sannleikur? Þýðir þetta að ef þú segir alltaf satt þá ertu frjáls? Nei, ég held ekki. Ég held að oft megi satt kyrt liggja. Ég held líka að sannleikurinn sé sjaldan einfaldur og oft ekki einn eða einfaldur. Það sem er satt fyrir mér er kannski ekki satt fyrir þér. Sannleikssögur Nú ætla ég að segja þér hvaða sannleikur það er sem ég held að geti gert okkur frjáls. Þessi sannleikur tengist bæði því sem Lúther skrifaði í kverið sitt um frelsið og því sem kvikmyndin Blár birtir okkur. Sannleikurinn sem gerir okkur frjáls held ég að sé fólginn í því að lifa sönnu lífi þ.e. að finna kjarkinn til þess að losa okkur undan því er heftir okkur og um leið að segja frá því. Þegar við segjum sannleikann um líf okkar, tilfinningar, mistök og breyskleika þá hjálpum við öðrum til þess að gera slíkt hið sama. Þá hjálpum við öðrum til þess að brjótast undan ánauð og fjötrum svo þau geti sagt sannleikann og þar með orðið frjáls. Í síðustu viku heyrðum við tvær sannleikssögur af þessum toga. Sögur þar sem sögukonurnar komu til dyranna eins og þær eru klæddar, án ráðlegginga lögfræðinga, nefnda eða ráða. Þessar konur sögðu sögur sem snertu okkur vegna þess að þær eru sannar og vegna þess að þær voru sagðar af virðingu og ótrúlegum kjarki. Þetta voru sannleikssögur sem ég er sannfærð um að gerðu sögukonurnar frjálsar og opnuðu leið til þess að aðrar manneskjur geti sagt sínar sögur. Fyrri sagan er saga Guðrúnar Ebbu dóttur Ólafs Skúlasonar fyrrum biskups yfir Íslandi. Guðrún Ebba sagði frá því hvernig faðir hennar misnotaði hana frá unga aldri og allt fram á unglingsár. Hann kom meira að segja fram vilja sínum við hana og braut á henni eftir að hún varð fullorðin kona. Guðrún Ebba sagði sögu sína af kjarki og einlægni, manneskju sem þekkir sannleikann um sjálfa sig og umhverfi sitt. Hún sagði hana líka af virðingu fyrir fólkinu sem tengist henni. Hún hefur ekkert að fela lengur því hún er búin að segja okkur allt sem við þurfum að vita og allt sem hún þurfti að segja til þess að verða frjáls. En Guðrún Ebba sagði þó ekki sögu sína eingöngu til þess að hún öðlaðist frelsi heldur til þess að við gætum lært af henni. Hún sagði hana til þess að við skildum að svona lagað getur átt sér stað á ótrúlegustu stöðum, í kirkjunni eins og annars staðar. Við vitum að saga Guðrúnar Ebbu sem kom fram í sjónvarpsviðtali fyrir viku og sem birtist í bókinni hennar ”Ekki líta undan” hefur hjálpað mörgum til þess að opna fyrir sínar sögur. Aðsókn í viðtöl hjá Stígamótum jukust til muna eftir þetta viðtal. Það er gott. Önnur saga var sögð í Kastljósinu síðastliðið föstudagskvöld. Það var gríðarlega erfið saga og mörgum okkar hefur eflaust langað til að líta undan fremur en að heyra og sjá. Þessa sögu sagði kona sem hefur tekið að sér syni systur sinnar en þeir misstu báða foreldra sína með 18 mánaða millibili. Faðir þeirra tók líf sitt eftir að hafa reynt að drepa móður þeirra. Móðir þeirra lifði af þessa morðtilraun en stuttu síðar greindistt hún með krabbamein sem dró hana til dauða á aðeins nokkrum mánuðum. Konan sem sagði þessa harmsögu um kynbundið ofbeldi í hjónabandi, kúgun og misnotkun sem að lokum leiddi til morðtilraunar og sjálfsvígs, sagði sannleikssögu. Hún sagði hana vegna þess að hún þarfnast fjárhagslegrar aðstoðar eftir allar þessar hörmungar og eftir að hafa gengið drengjum systur sinnar í móðurstað en hún sagði hana líka til þess að öðlast frelsi. Svona sögur eiga ekki að vera leyndamál því ofbeldið þrífst þar sem leyndin ræður ríkjum. Titill bókar Guðrúna Ebbu ”Ekki líta undan” er ágengur. Hann knýr okkur öll til þess að horfast í augu við sannleikann, að líta ekki undan þegar við höfum minnsta grun um að farið sé illa með barn, konu eða karl. Hún knýr okkur til þess að hlusta á þessar erfiðu sögur sem hrista upp í tilfinningalífinu þó stundum séu þær næstum óbærilegar. Saga Guðrúna Ebbu og saga systurinnar eru ekki sagðar í þeim tilgangi að gefa okkur tækifæri til að velta okkur upp úr raunum annarra. Þvert á móti eru þær sagðar til þess að brýna okkur til þess að vera vakandi fyrir umhverfi okkar og fólkinu sem við mætum. Sögurnar krefjast þess að við losum okkur við þá fordóma sem segja okkur að það sjáist utan á fólki hvort það beiti ofbeldi og að það sé aðeins ákveðin manngerð sem verði fyrir misnotkun og ofbeldi. Þá spyr ég aftur ertu frjáls? Ef frelsið felst í því að eiga sannfæringu, láta sig líðan og réttindi fólks varða, að segja sannleikssögur sem frelsa okkur sjálf og gefa öðrum kjark til þess að segja frá, að hætta að líta undan, ertu þá fráls? Við svörum þessari spurningu hvert fyrir sig. Mitt svar er stundum jákvætt og stundum neikvætt og þitt er það sjálfsagt einnig. Við erum nefnilega að vinna í þessu alla okkar ævi. Við verðum ekki frjáls í eitt skipti fyrir öll því frelsisskrefin okkar eru misjafnlega stór og stundum fara þau jafnvel aftur á bak en ekki áfram. Þetta er lífstíðarverkefni. Til frelsis frelsaði Kristur oss. Eitt er þó nauðsynlegt til þess að hægt sé að segja frelsissögur eins og þessar tvær sem ég hef rakið hér á undan. Það er ekki nóg að eignast kjark og þor. Ástin hlýtur að vera forsenda þess að þetta sé mögulegt. Ef þú finnur þig um vafða kærleika og þegar þú finnur kærleika í garð annarra fylla brjóst þitt þá er kjarkurinn nær þér en annars. Allir textar þessa sunnudags fjalla um frelsi, sannleika og ást. Þeir segja okkur allir, hver á sinn hátt, að þó reglur geti verið ágætar þá eru þær ekkert án kærleikans, sannleikans og frelsisins. Þegar þú ert rígbundin lögfræðifrösum, trúarkenningum eða öðrum reglum og gleymir því að ástin er sterkari þessu öllu þá ertu ekki frjáls. Guð, gefi okkur ást sem frelsar okkur. Guð, gefi okkur ást sem fyllir okkur kjarki svo að við getum sagt sannleikssögur. Guð gefi okkur ást sem hindrar okkur frá því að líta undan og gefi okkur kjark til þess að heyra sannleikssögur. Guð, þú sem ert sannleikurinn, frelsið og ástin, gef okkur trú á þig. Amen.