Yfirfullir fataskápar

Yfirfullir fataskápar

Orðin Þú skalt ekki taka fatnað ekkju að veði má auðveldlega skoða í ljósi þess að flest eigum við yfirfulla fataskápa heima og margt er þar sem sjaldan eða aldrei er notað. Það er okkar siðferðilega skylda að halda ekki fyrir okkur því sem við getum miðlað öðrum. Hugsaðu um fallegu og heilu fötin þín sem gætu orðið mörgum til gleði og hlýju. Hættu svo að hugsa og farðu að framkvæma!

Þú skalt ekki halla rétti aðkomumanns eða munaðarleysingja og þú skalt ekki taka fatnað ekkju að veði. Minnstu þess að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn, Guð þinn, leysti þig þaðan. Þess vegna býð ég þér að gera þetta.

Þegar þú hirðir uppskeruna á akri þínum og gleymir einu kornknippi á akrinum skaltu ekki snúa aftur til að sækja það. Það mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá til þess að Drottinn, Guð þinn, blessi þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.

Þegar þú hefur hrist ávextina af ólífutrjám þínum skaltu ekki gera eftirleit í greinum trjánna. Það sem eftir er mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá.

Þegar þú hefur tínt víngarð þinn máttu ekki gera eftirleit. Það sem eftir er mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá. Þú skalt minnast þess að þú varst þræll í Egyptalandi. Þess vegna býð ég þér að gera þetta.5Mós 24.17-22

Nú erum við stödd á milli guðspjallanna um miskunnsama Samverjann (Lúk 10.23-37, 13. sunnudagur eftir þrenningarhátíð) og þakkláta Samverjann (Lúk 17.11-19, 14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð). Pistillinn frá því á sunnudaginn var fellur vel að lexíu árdegismessunnar á þessum morgni: Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð (1Jóh 4.7 og áfram).

Hér í 5. Mósebók er þetta orðað þannig: Þú varst þræll í Egyptalandi. Guð leysti þig þaðan. Þú varst þurfandi. Guð mætti þörf þinni og blessaði þig. Leyfðu blessuninni að streyma áfram. Þetta stef Gamla testamentisins er hið sama og í Nýja testamentinu: Guð elskar að fyrra bragði. Kærleikurinn sprettur frá Guði. Leyfðu lindinni að streyma. Guð gamla sáttmálans er ekki annar en Guð hins nýja. Hann er kærleiksríkur Guð, Guð sem endurreisir og nærir og biður um það eitt að kærleikur hans komist til skila áfram til annarra.

Við eigum ef til vill erfitt með að heimfæra þetta á eigið líf. Gyðingarnir lifðu hvern dag minninguna um útlegðina í Egyptalandi og héldu þannig lifandi vitundinni um það að vera þurfandi. En þó við flest höfum fæðst inn í nokkuð góðar félagslegar aðstæður eigum við öll sameiginlega reynsluna af fyrstu bernsku, þar sem við áttum ekkert til sjálfsbjargar, vantaði klæði, næringu og umhyggju svo að líf okkar ætti sér viðhalds von. Foreldrar okkar eða annað gott fólk urðu framlengdur armur Guðs í lífi okkar, tóku að sér að veita okkur það sem nauðsynlegt var til lífs. Ekkert okkar á neitt í sjálfu sér, allt höfum við þegið.

Og í andlegum skilningi er þetta jafn satt og í hinu veraldlega. Við sem höfum meðvitað tekið á móti kærleika Guðs inn í líf okkar skyldum minnast þess að við vorum áður sem þrælar, fjötruð í eigin ótta og vanmætti. Minnumst þess að Drottinn Guð hefur leyst okkur. Allt höfum við þegið.

Hvernig getum við þá heimfært þær aðstæður sem orðin í 5Mós greina, aðstæður akuryrkjunnar, ólífu- og víngarðsbúskapar? Eitt getum við tekið til okkar sérstaklega og annað reynir á greiningu okkar á eigin aðstæðum og möguleika á að hjálpa öðrum í hversdeginum. Orðin Þú skalt ekki taka fatnað ekkju að veði má auðveldlega skoða í ljósi þess að flest eigum við yfirfulla fataskápa heima og margt er þar sem sjaldan eða aldrei er notað. Það er okkar siðferðilega skylda að halda ekki fyrir okkur því sem við getum miðlað öðrum. Hugsaðu um fallegu og heilu fötin þín sem gætu orðið mörgum til gleði og hlýju. Hættu svo að hugsa og farðu að framkvæma!

Því það er oft ekki góðan vilja sem okkur vantar. Það er framkvæmdin sem tefst og dagarnir líða. Vanrækslusyndirnar okkar hrópa oft hærra en það ranglæti sem við stundum sýnum öðrum, viljandi eða óviljandi. Verum meðvituð hverja stund, meðvituð um eigin vanmátt og kærleiksleysi, en fyrst og fremst um mátt Guðs og kærleika, sem á að flæða frá okkur til aðkomumannsins, munaðarleysingjans og ekkjunnar, allra þeirra sem hafa þörf fyrir hagnýta hjálp og umhyggju. Hindraðu ekki blessanir Guðs sem hann vill færa öðrum í gegn um þig. Blessaðu aðra. Þá mun Guð blessa þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.

Góðar stundir.