Ég er vondur og það er gott

Ég er vondur og það er gott

Ralf er ekki ánægður með sína stöðu í lífinu. Hann orðar það fyrst á fundi í félagsskapnum Nafnlausir Vondir karlar. Þar hittast þeir sem finna sig alltaf í hlutverki þess vonda.

Ralph úr kvikmyndinni Wreck-it-Ralph

Það er partý á efstu hæðinni í húsinu. Þrítugsafmæli. Í dag eru þrjátíu ár síðan tölvuleikurinn var gefinn út og í tilefni af því koma allir saman til að gleðjast. Sérstakur heiðursgestur er Felix fixari. Hann er nefnilega sá sem bjargar öllu í þessum heimi. Hann er góði kallinn.

Allir eru boðnir í partýið. Nema einn. Ralf. Hann er nefnilega sá sem rústar öllu í þessum heimi. Hann er vondi kallinn.

Þannig eru reglurnar að minnsta kosti í heimunum sem er sagt frá í bíómyndinni Wreck it Ralph - Ralf sem rústar sem er í bíóhúsunum um þessar mundir.

* * *

Þetta er svolítið merkileg mynd og eins og margar bíómyndir - ekki síst myndirnar frá Pixar - getur hún líka kennt okkur eitthvað um okkur sjálf og um samfélagið okkar.

Ralf er ekkert ánægður með sína stöðu. Hvorki í sínum tölvuleik né í tölvuleikjunum almennt. Svo hann gerir uppreisn. Hann byrjar að orða þetta á fundi í vondu kallafélaginu – Nafnlausir Vondukallar. Þar hittast vondu kallarnir sem upplifa allir að þeir geti ekki breytt tilverunni sinni, að þeir séu dæmdir til að vera alltaf útundan, alltaf í hlutverki þess vonda. Og þeir tala saman, segja sögur af sjálfum sér og reyna að sættast við sig. Þeir eiga sér eins konar játningu:

Ég er vondur og það er gott.

Ég verð aldrei góður og það er ekki vont.

Ég vil enginn annar vera en ég er.

Við skulum skoða stutt brot úr myndinni:

* * *

Sumir vondir kallar vilja sannarlega vera áfram vondir. Aðrir vilja það ekki. En engum finnst hann geta breytt neinu.

Nema Ralf. Hann sættir sig ekki við þetta. Svo hann flýr út úr leiknum.

Og lendir – eins og í ævintýrunum – í ýmsu spennandi. Mætir ólíkum persónum sem vita ekkert að hann er vondur kall.

Hann heimsækir leikinn Skylda hetjunnar (Hero’s Duty) sem er fyrstu persónu skotleikur, þar sem hermenn berjast við pöddur. Svona týpískur ofbeldisleikur!

Hann heimsækir leikinn Sykurfjör (Sugar Rush) sem er litríkur kappakstursleikur sem er fullur af auglýsingum fyrir nammi og gos og sætt morgunkorn. Frekar ótýpískur kappakstursleikur.

Í báðum leikjum fær Ralf að vera hann sjálfur og í raun fær hann tækifæri til að vera hetja. Ralf er vissulega sá sem rústar, en meira en það er hann sterki klaufinn. En hann er líka sá sem er góður. Við sjáum það sérstaklega í samskiptum hans við þá sem eru minni máttar og við þá sem eru settir til hliðar í samfélaginu, sem eru svipaðir og hann.

* * *

Ég ætla ekki að kjafta því hvernig kvikmyndin um Ralf endar. Þið skuluð bara sjá hana. Því hún er vel gerð, skemmtileg og uppbyggileg.

En ég held að bíómyndin og tölvuleikirnir sem hún sýnir geymi líka dýrmætar lexíur sem kallast reyndar á við það sem við lásum í Biblíunni í dag um að láta ekki hugfallast, gefast ekki upp og vera glöð – lifa í gleði.

Nánar tiltekið er það þrennt sem ég held að við getum lært af þessu:

  1. Svarthvít hugsun er eitthvað sem við eigum að forðast. Þ.e. að skipta fólki upp í góða og vonda kalla. Ralf er bæði erfiður í samskiptum (hann er alltaf að brjóta, er klunnalegur) og mjög góður og vinalegur. Hann er ekki bara vondur eða bara góður.
  2. Við eigum að vera hugsa um og jafnvel vera gagnrýnin á það um hvað tölvuleikirnir sem við spilum fjalla um. Leikurinn hans Ralfs og Hetjuleikurinn eru svarthvítir leikir og í raun báðir mjög ofbeldisfullir. Sykurfjör er fullkomið dæmi um leik sem miðlar óhollustu óbeint með auglýsingum. Hvort tveggja eigum við að vera gagnrýnin á og muna um leið að við þurfum að hugsa um það sem við horfum á!
  3. Og þetta er aðallexían: Allir geta breyst. Það er alltaf von, sama í hvaða aðstæðumv ið finnum okkur. Að vera kristin manneskja snýst kannski öðrum þræði um að finna það í hjartanu sínu að við séum elskuð og að vita að að það eru ekki til erfiðar aðstæður sem við gætum festst í. Við getum alltaf losnað úr erfiðum aðstæðum. Það er líka lexían í bíómyndinni um Ralf.

Þess vegna skulum við gera játningu vondu kallanna að okkur, en við getum breytt henni aðeins:

Ég á von og það er gott.

Ég reynist öðrum vel og það er ekki vont.

Ég vil enginn annar vera en ég er.

Guð gefi okkur þessa tilfinningu í hjartanu og Guð gefi að við megum hafa hendur og huga til góðra verka í heiminum.

Amen.