Skoðanir meðal trúarhreyfinga, trúarbragðafræðinga og almennings hvað kalla megi trúarlegt eru svo skiptar að vandkvæðum er háð að setja fram skilgreiningu sem allir geti verið sammála um. Dæmi eru um fjölmargar hreyfingar sem sverja af sér öll trúartengsl og kjósa frekar að kenna sig við heimspeki, vísindi, trúleysi eða heilsurækt þótt trúarbragðafræðingar skilgreini þær yfirleitt sem trúarlegar. Jafnvel hefur verið deilt um hvort helstu heimstrúarbrögðin séu í raun trúarbrögð, svo sem búddhisminn, taóisminn, hindúisminn, trú frumbyggja Ástralíu, og meira að segja kristindómurinn. Þannig hafa komið fram guðfræðingar sem talað hafa um trúarbragðalausan kristindóm auk þess sem dæmi eru um trúarhópa sem segjast vera sannkristnir en aðgreina sig um leið frá öllum svonefndum trúarbrögðum. Sömuleiðis eru dæmi um hreyfingar sem sætt hafa gagnrýni fyrir það að þær skuli skilgreina sig sem trúarlegar.
Skilgreiningar á trúarbrögðum
Í trúarlífsfélagsfræðinni er talað um tvenns konar skilgreiningar á trúarbrögðum, annars vegar innihaldsskilgreiningar og hins vegar hlutverkaskilgreiningar. Samkvæmt innihaldsskilgreiningum er trú hver sú hugmynd sem skírskotar til handanveruleika, yfirnáttúrulegra afla eða guða en ýmsir ganga svo langt að segja hvers kyns fullyrðingar um tilvist þeirra séu í raun trúarlegar því að vísindamenn geti hvorki sannað slíkt né afsannað sem tilgátu.
Samkvæmt hlutverkaskilgreiningum eru trúarhreyfingar táknkerfi um altæka skipan tilverunnar sem tiltekinn hópur sameinast um og veitir einstaklingnum heildstæða merkingu og tilgang með lífinu. Slíkt táknkerfi þarf ekki að skírskota til yfirnáttúrulegs veruleika enda geta stjórnmálastefnur flokkast sem trúarbrögð út frá þessum forsendum.
Skilgreiningar út frá félagslegri stöðu
Í trúarlífsfélagsfræðinni eru hugtökin kirkja (church), kirkjudeild (denomination), sértrúarsöfnuður (sect) og einstaklingsmiðlægur aðdáendahópur (cult) notuð til að lýsa félagslegri stöðu mismunandi trúfélaga og trúarhreyfinga. Kirkjan er trúarstofnun sem þorri landsmanna tilheyrir og er nátengd ríkisvaldinu en viðurkennir ekki aðrar trúarstofnanir. Kirkjudeildin er trúfélag sem getur viðurkennt það sem hún á sameiginlegt með öðrum trúfélögum. Sértrúarsöfnuðurinn leggur áherslu á það sem aðgreinir hann frá öðrum og einangrast mikið til fyrir vikið. Einstaklingsmiðlægir aðdáendahópar eru lítt skipulagðir og sækja hinir trúuðu aðeins til þeirra að því marki sem þeir kjósa sjálfir.
Þessi hugtök, sem upphaflega eru miðuð við Vesturlönd, eru þó aðeins notuð til viðmiðunar enda geta þau átt við um sama trúfélagið í mismunandi félagslegum aðstæðum þess víða um heim. Jafnframt má finna ýmis frávik frá notkun þessara hugtaka eftir því hvaða trúarlífsfélagsfræðingar eiga í hlut hverju sinni. Þannig hefur t.d. verið talað um annars vegar sértrúarsöfnuði mótaða af menningarhefð viðkomandi lands (sects) og hins vegar um menningarlega framandi sértrúarsöfnuði (cults).
Fjölskylduflokkun
Bandaríski trúarbragðafræðingurinn J. Gordon Melton hefur hins vegar kosið að flokka trúarhreyfingar í fjölskyldur eftir sögulegum, kenningarlegum og skipulagslegum skyldleika þeirra og flokkar hann þær með þeim hætti í bókinni Encyclopedia of American Religions, stærstu alfræðiorðabókinni um trúarhreyfingar í Norður Ameríku. Þannig talar hann t.d. um lúthersku fjölskylduna, hvítasunnufjölskylduna, spíritísku- og nýaldarfjölskylduna, fornu vísdómsfjölskylduna og galdrafjölskylduna. Sé flokkunarkerfi hans heimfært upp á íslenskar aðstæður má finna fulltrúa frá flestum þeim trúarfjölskyldum sem hann nefnir í alfræðibók sinni, en flestar þeirra skilgreina sig sem kristnar. Enda þótt þjóðkirkjan sé fjölmennasta trúfélagið á Íslandi má finna fjölda annarra trúfélaga og trúarhreyfinga bæði innan hennar og utan sem geta flokkast til helstu trúarfjölskyldnanna í flokkunarkerfi Meltons. Jafnframt hefur trúarhreyfingunum fjölgað svo mjög á síðari árum að nú má finna fulltrúa frá flestum helstu heimstrúarbrögðunum hér á landi.
Greinin birtist fyrst í blaði Alþjóðahússins, Eins og fólk er flest, í nóvember 2005, bls. 4.