Gefum Guði rými í dag

Gefum Guði rými í dag

Dagurinn í dag er merkilegur dagur það eru Vetrarsólstöður í dag. Þar sem dagurinn hvorki styttist né lengist, hann stendur í stað. Sem er líkt ástand og þegar alkóhólistinn og meðvirkillinn eru á botninum, þegar alkinn hættir að drekka eða þegar aðstandandinn tekur ákvörðun um að viðurkenna vanmátt sinn.

Dagurinn í dag er merkilegur dagur það eru Vetrarsólstöður í dag. Þar sem dagurinn hvorki styttist né lengist, hann stendur í stað. Sem er líkt ástand og þegar alkóhólistinn og meðvirkillinn eru á botninum, þegar alkinn hættir að drekka eða þegar aðstandandinn tekur ákvörðun um að viðurkenna vanmátt sinn. Þá er eftirvænting í loftinu því að í kjölfarið fer ljósið að sigra myrkrið. Það hefst á morgun, þó það sé bara í örfáar sekúndur þá er það upphafið. Jólin koma eftir örfáa daga, fæðingar hátíð Jesú Krists, Jesús sem er ljós lífsins. Og nýtt ár er rétt handan við hornið, allt eru þetta táknmyndir nýrrar byrjunar.

Hvar sem við erum stödd í hringrás lífsins, hvort sem við erum að endurnýja gömul eða jafnvel sár samskipti, eða stíga út úr sjálfshyggjunni og láta okkur varða um náungann, að fyrirgefa öðrum, eða að fyrirgefa okkur sjálfum, hvort sem við erum að stíga okkar fyrstu skref í bata, nýlega fallin eða að taka ný skref innan batagöngunnar. Þá getum við horft á gönguna með jákvæðum eða neikvæðum hætti líkt og þau okkar sem velta fyrir sér hvort glasið er hálf fullt eða hálf tómt. Hvar sem við erum stödd þá höfum við nýtt val á hverjum degi, því náð Guðs er ný á hverjum degi. Þegar fólk stendur frammi fyrir breytingum miðar það oft við ákveðna daga eða atburði, margir gera til dæmis áramótaheit. Fyrirheit um nýja byrjun. Við höfum þetta val núna, og því set ég fram þessa spurningu; í hverju viljum við að okkar nýja byrjun felist?

Það hringdi í mig kona í gær í örvæntingu, hún og barnið hennar voru í vanlíðan vegna átaka innan fjölskyldunnar og í ofanálag var konan með áhyggjur vegna peninga. Átök, erfið samskipti og jólin að koma. Hún sagði mér að hún treysti sér ekki til þess að taka þátt í leiknum, treysti sér ekki til að setja upp andlit og leika hlutverkið sitt. Eins og hún orðaði það. Einnig voru kröfur um gjafir að sliga hana, hún rétt átti fyrir mat og því að hún og barnið hennar gætu haft það þokkalegt yfir hátíðina. Hún átti sem sé erfitt með að gefa sér leyfi til þess að njóta þess sem hún hafði og gat gert og var í togstreitu, því ef hún myndi þóknast kröfum annarra þá þyrfti hún að láta sig og barnið hafa það...

Þrátt fyrir þennan dásemdar tíma, tíma friðar og vonar þá er fólk allt í kringum okkur fyllt kvíða og ótta, þjakað af þunga eða depurð, að takast á við einmanaleika. Fólk er að bera sig saman við aðra og útkoman er yfirleitt aldrei góð, það upplifir sig minna en aðra, fólk hefur áhyggjur af börnunum sínum, peningum, erfiðum samskiptum og framtíðinni. Allt of margir eru fullir af sjálfsfyrirlitningu, sekt og skömm... Aðrir eru að takast á við missi, allt um lykjandi sorgina sem magnast upp á þessum tíma hjá sumum.

Þegar við horfum til þeirra sem þjást þá upplifum við okkur vanmáttug. Manneskjunni finnst hún lítils megnug við svona kringumstæður, jú við getum verið til staðar upp að ákveðnu marki, við getum bent á góðar leiðir, við getum hvatt fólk til að leita sér hjálpar og við getum sýnt kærleik með fallegum orðum eða hlýrri nærveru og svo getum við leitað til Guðs, beðið Guð um að vernda og sjá um fólkið okkar. Ég hef lært það að elska Guðs er öllu meiri.

Foreldrar elska börn sín með ómælanlegum hætti, sumir segja; ég elska þig upp til tunglsins og aftur til baka ☺ en kærleikur Guðs til mannkyns er algerlega skilyrðislaus. Það reynist okkur oft erfitt að fyrirgefa, samt þráum við öll að fólkið okkar fyrirgefi okkur. Í sporaferlinu förum við fram fyrir fólkið okkar og biðjum um fyrirgefningu, svo bætum við fyrir brot okkar, breytum hegðun okkar og í kjölfarið upplifum við frelsi. Eins er það gagnvart Guði. Við iðrumst, biðjum Guð að fyrirgefa okkur og fáum lausn. Ef við erum í þjáningu þá biðjum við Guð um að mæta okkur og við öðlumst frelsi ☺ Þetta gerist líka þegar við getum lagt fólkið okkar í Guðs hendur, það er léttir.

Í Guðspjallinu sem Fritz las fyrir okkur áðan var fjallað um skírn. Skírnin er táknræn fyrir hreinsun, endurnýjun, þar sem hið gamla verður að engu og nýtt verður til. Líkt og gerist í fjórða og fimmta sporinu þegar fólk lítur í eigin barm, gengst við sér sínum eiginleikum, styrkleikum og veikleikum. Þá rýnir fólk í undirrót vandans og tekur ákvörðun um að bæta fyrir brot sín. Breyta um takt og byrja algerlega nýtt líf.

Jóhannes skírari sagði í guðspjalli dagsins að Jesús ætti að vaxa en hann sjálfur að minnka. Hvað átti hann við með því? Hver á að vaxa? Hver að minnka? Er þetta samkeppni? Við þekkjum hana vel. Er Jóhannes minni maður fyrir vikið? Sjálfshyggja mannsins leitast við að skara eld að eigin köku og lyfta upp egóinu. Til dæmis með því að eigna sér að öllu leyti eigin velgengni, hrósa sér vegna þeirra gjafa sem Guð hefur gefið. Auðvitað eigum við það sem við eigum en við höfum öll gott af því að minnast þess hver hefur gefið okkur það sem við höfum. Manneskjan lifir í heimi þar sem er mikill hraði, allir uppteknir af sínu. Einstaklingshyggjan eins góð og hún er hefur skapað aðskilnað þar sem allt snýst um „mig“ en ekki um „okkur.“ Sá aðskilnaður er ekki í takt við kjörorðin, sameining, þjónusta ,bati.

Í 12 spora fræðunum er talað um einn dag í einu og Ekhart Tolle fjallar um mikilvægi þess að geta verið hér og nú, þessar vísanir í núið snúast ekki um sérstaka andlega iðkun eða rof milli fortíðar og framtíðar heldur um það að geta látið áhyggjur morgundagsins bíða til morguns líkt og að hugsa ekki um það að komast yfir ákveðna brú fyrr en að henni er komið. Í fjallræðu Jesú segir „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Þessar vísanir eiga við um ró hugans og æðruleysi sem hjálpar okkur að taka eftir snjónum, tunglinu, andardrætti fólksins okkar og öðru því sem við erum að upplifa án þess að vera fjarverandi í huga. Góður gestgjafi veitir gesti sínum athygli... er hér og nú í huga, anda og líkama. Eins og segir í sálminum góða „Dag í senn, eitt andartak í einu.“

Gefum Guði þakkir því það er Guð sem gefur okkur lífið, hæfileikana, eiginleikana, andann, kraftinn... og það er Guð sem verndar, leiðir og blessar. Eins og Jóhannes sagði í guðspjallinu þá getur enginn tekið neitt nema Guð gefi það, það er Guð sem hefur reist okkur við, sum okkar aftur og aftur ☺.

Samgleðjumst fólki. Gefum af okkur. Tökum á móti því sem Guð hefur fyrir okkur og stígum fram í því. Megi Guð gefa okkur öllum góð og gleðileg jól.

Dýrð sé Guði föður og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.