Hættan og hetjan

Hættan og hetjan

Hitt er svo þverstæðan í þeim vangaveltum, að einmitt mótlætið kallar fram hugrekkið og fórnfýsina sem getur verið af slíkum toga að menn minnast þess áratugum síðar.

Enn eru jólin, þótt frídagar séu harla fáir þessa hátíðina. Þessi tími er sannarlega einn sá magnaðasti á almanakinu. Stórir viðburðir koma hver af öðrum. Við snörum þá á löngu færi og teljum niður dagana þar til þeir renna upp. Að jólunum liðnum, lifa þau í minningunni. Hver þekkir það ekki rifjaðir eru upp liðnir tímar. Þá ber gjarnan jólin á góma, það sem gert var þá til skemmtunar, það sem þá var boðið upp á og hvert var haldið. Hátíðirnar eru eins og stórir glitsteinar í perlufesti daganna. Hver þeirra hefur sín sérkenni eftir og sína liti.

Bruninn í Skildi

Hér á aðventunni efndum við til merkilegrar stundar þar sem við minntumst brunans í Skildi, þar sem jólatrésskemmtun um þetta leyti árs 1935, snerist upp í skelfilegu. Fróðlegt er að lesa frásagnir þeirra sem urðu vitni að þeim atburði og heyra lýsingar af því sem gerðist. Saklaus jólaskemmtun breyttist nánast í skyndingu í logandi eldhaf sem kostaði sex mannslíf og þrjátíu hlutu slæm brunasár. Það var mikil fórn í litlu byggðarlagi. Atburðurinn gerðist hér hinum megin götunar og þar nú stendur veglegur steinn til minningar um atburðinn. Á hann var lagður blómsveigur við minningarstundina. Ákveðið var að aldrei skyldi framar byggt á þessum stað.

Hugsið ykkur hendingarnar í lífinu. Jólatónlistin hljómar. Börnin horfa á litadýrð sem hefur verið ólíkt meiri en þau áttu að venjast mitt í skorti kreppunnar. Svo skyndilega breyttist allt. Sannarlega urðu þar miklar hörmungar sem verðugt er að minnast um ókomna tíð. En hitt verður hugleitt nú á þessum degi, að hættuástandið og þessi skelfilega stund kallaði fram hliðar á venjulegu fólki sem við getum óhikað sagt að hafi verið hetjulegar. Já, við veltum eðlilega vöngum yfir hörmungum lífsins og því óréttlæti sem slíkum atburðum fylgir. Hitt er svo þverstæðan í þeim vangaveltum, að einmitt mótlætið kallar fram hugrekkið og fórnfýsina sem getur verið af slíkum toga að menn minnast þess áratugum síðar.

Sú var einmitt raunin á þeim sviplegu andartökum þegar sekúndur gátu skilið á milli feigs og ófeigs. Þá sýndu nokkrir menn mikla hetjudáð, þeirra á meðal séra Eiríkur Brynjólfsson sóknarprestur á Útskálum sem þjónaði öllu þessu svæði. Bar hann ævilangt brunasár á líkama sínum eftir framgöngu sína. Hann bjargaði að sögn mörgum úr brunanum og tefldi þar lífi sínu í hættu. Hvað eftir annað óð hann aftur inn í reykhafið til þess að bjarga fleiri börnum. Sannarlega verður þessara hörmunga ekki minnst nema að hugleiða það hvernig þær birtu hliðar á einstaklingum sem ella hefðu ekki komið í ljós.

Stefán

Í dag er annar dagur jóla og frá fornu fari hafa menn helgað hann postulanum Stefáni. Hér áðan hlýddum við á lýsingar á því þegar hann var grýttur í hel af æstum lýðnum. Frásögnin ber þess greinilega merki hvert vegarnesti lærisveinarnir höfðu eftir för sína með Jesú. Hann hafði fyllt hjörtu þeirra af von sem ýtir hverri hættu úr veginum. Vonin sem Kristur færði þeim gaf þeim hugrekki sem gerði þeim kleift að mæta hverri hættu svo aðdáun vakti. Vonin veitir líka þolgæði í raunum, svo menn gefast ekki upp, hvika ekki frá veginum heldur stefna ótrauðir að settu marki. Vonin kallar líka á umburðarlynd, fyrirgefningu, náungakærleika – rétt eins og hinsta ákall Stefáns ber vott um: „Drottinn lát þá ekki gjalda þessarar syndar“.

Stefán er fyrsti píslarvotturinn af mörgum í sögu kristinnar kirkju. Hann sýnir með lífi sínu hversu djúpt trúin risti sem honum hafði hlotnast. Hann var ekki aðeins tilbúinn að lifa fyrir hana, hann var líka tilbúinn að deyja fyrir hana – í krafti þeirrar fullvissu sem hann hafði fengið. Og hver var sú fullvissa, það var upprisa Jesú Krists sem sneri undanhaldi í sókn og óförum í stórkostlegan sigur.

Hetjudáð í hættunni

Frásagnir þessar af því hvernig mótlætið kallaði fram styrk í sálum þeirra sem þar stóðu í eldlínunni. Saga kristinnar kirkju rís úr umhverfi erfiðleika og þjáninga. Það er ekki tilviljun að krossinn skyldi fá svo miðlæga stöðu í kristninni, því hann lýsir því einmitt hvernig manneskjan finnur tilgang sinn og markmið í erfiðleikunum.

Þessi jólin er ástandið víða erfitt í samfélaginu okkar. Margir mæta nýju ári með kvíða í brjósti yfir því sem býr í framtíðinni. Ekki vitum við hvernig komandi tímar kema til með að verða. Við vitum þó ýmislegt sem við sækjum í úr sjóði reynslunnar. Við vitum að þeir sem eiga trúna í hjartanu búa yfir ótrúlega miklum innri styrk. Það sýndi séra Eiríkur á ögurstundu hér í brunanum í Skildi. Saga hans er þó aðeins dæmi um ótal marga sem hafa upplifað hið sama. Þetta sýndi Stefán píslarvottur, þegar hann tók ekki aðeins örlögum sínum af æðruleysi og hugrekki, heldur líka miskunnsemi í garð ofsækjenda sinna. Þetta boðar spámaðurinn Jesaja sem flytur þjóðinni mikil tíðindi, eins og flutt var hér áðan:

Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Þú eykur stórum fögnuðinn, gerir gleðina mikla.

Já, myrkrið er aldrei einrátt í lífi þess sem á trúna í brjósti sér. Þar skín alltaf ljós hvernig svo sem heimurinn leikur manninn. Þessi von birtist í svo margvíslegri mynd: sem hugrekki, þolinmæði, æðruleysi – já og ekki síður hógværð og auðmýkt gagnvart hlutskipti okkar.

Jólin eru að sönnu magnaður tími. Þau minna okkur svo vel á það hvernig ljósin geta skinið í myrkrinu. Og ljósið nýtur sín raunar best við þær aðstæður. Hér hafa verið hugleiddar hetjudáðir sem urðu við erfiðustu skilyrði. Þau ættu að vera okkur hugleikin um aldur og ævi, enda verða þau öllum mönnum innblástur og fyrirmynd um það hvernig bregðast skuli við í viðlíka aðstæðum.

Góður Guð gefi okkur öllum hugrekki, visku og náð til þess að við getum látið okkar ljós skína. Amen.

Þeir hröktu Stefán út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét. Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: "Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn." Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: "Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar." Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann. (Post. 7.58-60)