Spónninn í askinum

Spónninn í askinum

Ritningin er raunhæf, því eins og segir í lexíunni, þá mun fátækra aldrei verða vant í landinu. En hinir fátæku eiga samt aldrei að líða skort og tapa sjálfsvirðingu sinni – til þess eiga hinir ríku að sjá. Biblían setur fram allt annað viðhorf til eignaréttarins og til þess að njóta ávaxta sköpunarinnar en hið vestræna sjálfseignarviðhorf. Skv. Biblíunni höfum við fengið ávexti jarðar að gjöf og jörðina og landið að láni.
Mynd

Prédikun flutt í Dómkirkjunni 19. júní, 2022.

Lexía: 5Mós 15.7-8, 10-11; Pistill: 1Jóh 4.16-21; Guðspjall: Lúk 16.19-31.


Í dag eru liðin nákvæmlega 107 ár síðan Kristján X. undirritaði lög um breytingu á stjórnarskrá Íslands sem m.a. færðu konum 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Það er því sannarlega hátíðisdagur og það má segja að það sé viðeigandi að hann haldist árlega í hendur við sjálfa þjóðhátíðina.

Samfélag þessara tveggja daga er við hæfi, m.a. af þeirri ástæðu að á hvorum tveggja er verið að fagna og um leið árétta rétt fólks til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og til þess að njóta jafnra réttinda á við aðra. Ef við miðum við árið 1845, þ.e. árið sem hið nýja Alþingi tók til starfa með Jón Sigurðsson og fleiri innanborðs, þá sjáum við að það liðu u.þ.b. 100 ár frá því að þjóðfrelsisbaráttan hófst fyrir alvöru þar til Ísland var orðið lýðveldi. Í dag eru rétt rúmlega 100 ár liðin frá því að konur fertugar og eldri fengu kosningarétt. Þessi samanburður hlýtur að vekja þá spurningu hvort konum hafi tekist á þessari rúmu öld tekist að öðlast fullt sjálfræði.

Því að svo sannarlega voru lögin sem konungur samþykkti 1915 aðeins örlítið skref í baráttunni fyrir jöfnum kosningarétti karla og kvenna og kannski í kvenréttindabaráttu íslenskra kvenna yfirleitt. Fjörutíu ára aldursákvæðið var einsdæmi í heiminum og Bríet Bjarnhéðinsdóttir kallaði það „hinn nafnfræga, íslenska stjórnviskulega búhnykk“ í Kvennablaðinu. Reyndar settu Bretar það skilyrði fyrir kosningarétti kvenna 1918 að þær væru orðnar þrítugar en sú séríslenska ákvörðun að setja markið við fertugt hefur vakið furðu en skv. lögunum átti aldurstakmarkið að lækka árlega þar til konur og karlar stæðu jafnfætis að þessu leyti árið 1931. Skv. því sem kemur fram hjá  Auði Styrkársdóttur í bók hennar Barátta um vald kom hugmyndin um árin 40 upphaflega frá Jóni alþingismanni Jónssyni í Múla og rökstuddi hann hana með því að óráðlegt væri með öllu að fjölga kjósendum um 2/3 í einu vetfangi.

Skv. söguskoðun Auðar gætti hér ótta við breytingarnar sem almennur kosningaréttur kvenna kynni að hafa í för með sér og þá fyrst og fremst við það hvernig þær myndu kjósa.

Það virðist því blasa við að það hafi fyrst og fremst verið ótti sitjandi valdsmanna við stórfelldar breytingar á dreifingu atkvæða sem svipt gætu þá sjálfa fylgi sem skýri tregðu þeirra til þess að veita öllum lögráða konum kosningarétt. Þessa ályktun er hægt að styðja með þeirri staðreynd að í lögunum umræddu voru það ekki aðeins konur fertugar og eldri sem fengu kosningarétt heldur einnig vinnumenn og voru þeir undir sömu aldurstakmörk settir.

Í íslenska bændasamfélaginu fyrir rúmri öld voru borgaraleg réttindi þannig að mörgu leyti sambærileg við Róm, Grikkland eða Ísrael til forna: aðeins hluti þjóðarinnar taldist til fullgildra borgara og var sú staða tengd kyni, ætterni og eignum, fyrst og fremst jarðnæði.

Það er því alls ekki fráleitt að spyrja þeirrar spurningar hvort íslenskar konur hafi öðlast jafnan borgaralegan rétt á við íslenska karla árið 2022. Nú kynni maður svo að ætla og margur myndi líklega benda á að réttindi kynjanna væru orðin jöfn að lögum. Við státum jú af einni framsæknustu löggjöf heimsins hvað jafnrétti varðar og erum stolt af því að hafa átt fyrsta kvenforsetann. Menntun kvenna og þátttaka þeirra í stjórnmálum og atvinnulífi er með mesta móti og allt er þetta gott og fagnaðarefni.

Engu að síður er bent á það í nýlegri frétt á vefsíðu Kvenréttindafélags Íslands að kynbundið ofbeldi sé geigvænlegt vandamál á Íslandi, konur hafi enn lægri laun en karlar og störf kvenna séu vanmetin. Hugarfar og viðhorf geta verið ótrúleg þrálát og það þarf meira en lagabókstaf til þess að breyta rótgrónum viðhorfum – sér í lagi þegar eigin áhrif og staða eru í spilinu. Það á ekki síst við um viðhorf sem snúa að stöðu og samskiptum kynjanna – það höfum við séð af vitnisburði kvenna um skammarlega kvenfyrirlitningu sem þær hafa mætt á ýmsum vettvangi – jafnvel þrátt fyrir að á þeim vettvangi væru þær formlega séð jafn réttháar karlkyns kollegum sínum.

Sá einstaklingur sem sýnir öðrum fyrirlitningu opinberar þar með hroka sinn og yfirlæti. Viðkomandi álítur sig á einhvern hátt öðrum æðri. Slíkur hroki getur birst með ýmsu móti. Í guðspjalli dagsins birtist hann í skeytingarleysi ríka mannsins um örlög og líðan hins kaunum slegna beiningamanns Lasarusar sem húkti við dyrastaf hans. Annar lifir í vellystingum praktuglega á meðan hinn sveltur. En það er eins og ríki maðurinn sjái ekkert athugavert við það hvernig hlutunum er háttað; auðævi hans er hans eign og hann má verja þeim eins og honum sýnist. Augljóslega tilheyrir hann auðugri fjölskyldu því að hann nefnir fimm bræður sína sem vara þurfi við afleiðingum hóglífisins þegar hann sjálfur er óvænt lentur í Helju að sér látnum en ekki í Himnaríki eins og honum hefði líklega sjálfum þótt tilhlýðilegt í ljósi félagslegrar stöðu sinnar. En það er ekki hann sem hvílist við barm Abrahams heldur öreiginn Lasarus sem gera þurfti sér brauðmolana af borði hins ríka að góðu.

Aukinn ójöfnuður á heimsvísu, bæði á milli landa og innan þeirra, hefur verið margstaðfestur undanfarin ár í úttektum ýmissa aðila, þ.á.m. Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Hér á Íslandi, líkt og annars staðar í Norður-Evrópu, höfum við sett okkur það markmið að byggja upp svo kallað velferðarsamfélag. En ef slíkt samfélag á að leiða til almennrar velmegunar í þeim skilningi að grundvallarþörfum allra sé sinnt – þannig að fólk í neyð þurfi ekki – líkt og Lasarus – aðeins að gera sér hratið af velmegunarborðunum að góðu – þá þarf að takast á við þann hroka sem segir að sá sem á gnægð eigi hana í eigin rétti og að sá sem ekkert á geti sjálfum sér um kennt. Ég er nefnilega hræddur um að þetta viðhorf sé grundvallarviðhorf í vestrænu neyslusamfélagi en ef það er þannig þá verður aldrei hægt að byggja upp raunverulegt velferðarsamfélag. Og aðstæður margra öryrkja, t.a.m., sem hafa að gefnu tilefni verið ofarlega á baugi í fréttum síðast liðna viku, benda því miður til þess að við eigum langt í land til þess að skapa velferðarsamfélagið sem íslensk stjórnmál hafa samhljóma haft að markmiði sínu – í orði.

Ritningin er raunhæf, því eins og segir í lexíunni, þá mun fátækra aldrei verða vant í landinu. En hinir fátæku eiga samt aldrei að líða skort og tapa sjálfsvirðingu sinni – til þess eiga hinir ríku að sjá. Biblían setur fram allt annað viðhorf til eignaréttarins og til þess að njóta ávaxta sköpunarinnar en hið vestræna sjálfseignarviðhorf. Skv. Biblíunni höfum við fengið ávexti jarðar að gjöf og jörðina og landið að láni. Þessi hugsun hljómar t.d. í þessum orðum Davíðs konungs:

Allt er frá þér og vér höfum fært þér það sem vér höfum þegið úr hendi þinni. Frammi fyrir þér erum vér aðeins aðkomumenn og leiguliðar eins og allir forfeður vorir.

Samskonar hugsun kemur fram í lexíunni. Bæði lexían og pistillinn rökstyðja náungakærleikann með því að hann sé skyldugt andsvar mannsins við kærleika Guðs. Lexían birtir þá hugsun að sá sem hefur meðtekið ofgnótt af gæðum landsins að gjöf frá Guði skuli af ofgnótt sinni miðla áfram til þess sem ekki hefur borið nóg úr bítum því að vilji Guðs er sá að allir hafi nóg. Þannig er gjöf hins velmegandi til hins fátæka í raun ekki frá honum heldur frá Guði; hann virkar einfaldlega sem milliliður og gerir rétt í því en hefur af engu að stæra sig.

Ef ríki maðurinn í guðspjallinu hefði skilið eða tekið mark á þessari grundvallarhugsun „Móse og spámannanna“ þá hefði hann ekki sóað auðæfunum, sem í raun voru ekki hans heldur Guðs, í eigið lastalíf heldur hefði hann miðlað þeim áfram til Lasarusar og annarra í hans stöðu.

En er ekki ríki maðurinn táknmynd fyrir okkur flest í ofgnóttarsamfélaginu? Og í hnattrænu samhengi, er þá Lasarus ekki táknmynd fyrir fátækari þjóðir heimsins sem hokra kaunum slegnar við þröskuld hins vestræna heims? Allar manneskjur eru undir þá sök settar að óttast það að missa spón úr aski sínum, að óttast það að lífskjör þeirra skerðist, að hugnast það ekki að tapa völdum eða áhrifum. Og það virðist vera að því meira sem fólk á, þeim mun djúpstæðari verður óttinn við að missa. Alþingismenn virtust þjakaðir af slíkum ótta þegar þeir settu kosningarétti kvenna skorður á sínum tíma og líklega er þessi tilfinning ein af grundvallarástæðum þess hve erfitt það reynist fyrir okkur, í þeim samfélögum heimsins þar sem auður og völd hafa safnast saman, að grípa til þeirra aðgerða sem raunverulega er þörf á til þess að draga úr ójöfnuði, bæði meðal bræðra okkar og systra í mannheimum sem og gagnvart náttúrunni, sem Frans páfi hefur sagt að sé sá „náungi“ okkar sem við þurfum sérstaklega að sinna og hjúkra í aðstæðum dagsins í dag. Óttinn við að missa kemur í veg fyrir að maður gefi, því eins og segir í pistlinum: Sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni. Guð hjálpi okkur hverju og einu að takast á við hvern þann ótta sem kemur í veg fyrir að okkur auðnist að vera fullkomin í elskunni.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.